143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Mælendaskráin hefur riðlast þannig að ég vona að ég komi ekki hér fullkomlega vanbúin. Ég hafði hugsað mér að undirbúa mig aðeins lengur en þetta verður bara að ganga svona.

Við erum hér að fjalla um síðasta fjárlagaár fyrrverandi ríkisstjórnar en umræðan ber mark nýrrar ríkisstjórnar enda fylgja nýir starfshættir nýrri ríkisstjórn. Það var ákvörðun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að hefja umræðu um ríkisfjármál á mjög dökkri mynd. Gefið var í skyn að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði í raun ekki haft þau tök á ríkisfjármálum sem sú ríkisstjórn er annars annáluð fyrir, þ.e. að hafa siglt mjög farsællega í gegnum kjörtímabilið — hún hefur fengið margfalt lof fyrir það frá fjölda aðila, ekki síst erlendra, það er kannski það sem fer fyrir brjóstið á hæstv. forsætisráðherra.

Nú er það þannig að fjármál íslenska ríkisins eru stóralvarlegt mál. Ríkisfjármál eru alltaf í eðli sínu alvarleg mál en við höfum verið að takast á við mjög erfiðar aðstæður. Ég held að það sé mikilvægt, þó að það virðist fara í taugarnar á einhverjum hv. þingmönnum, að muna alltaf í hvaða samhengi við erum að ræða þessa hluti. Við sjáum fram á það, í 2. umr. um fjárauka fyrir árið 2013, að við séum búin að ná frumjöfnuði, það er staðfest hér, annað árið í röð með ágætisárangri, en að heildarjöfnuður sé neikvæður og lakari en áætlað hafi verið.

Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók að sér hlutverk fjármálaráðherra var ástandið þannig að ríkissjóður tók á sig gríðarlegar skuldir. Þær skuldir voru til komnar vegna endurreisnar á fjármálakerfi landsins, gjaldþrots Seðlabankans, og við bættist síðan gjaldþrot Íbúðalánasjóðs; en báðar þessar stofnanir ríkisins, Seðlabanki og Íbúðalánasjóður, þurftu umtalsverð fjárframlög til að áframhaldandi rekstur þeirra væri mögulegur. Við það bættust áhrif á ríkissjóð vegna hruns krónunnar og síðan hallarekstur áranna í kjölfarið.

Fyrri ríkisstjórn sem og þessi hafa lagt mikla áherslu á að ná hallalausum fjárlögum og til mikils er að vinna því að vaxtagjöld ríkissjóðs eru einn stærsti útgjaldaliður ríkisins og gríðarlegir blóðpeningar. En það er ekki sama hvernig jöfnuði í ríkisfjármálum er náð og kapp er best með forsjá í þeim efnum eins og í svo mörgu öðru.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna greip til þeirra ráða að fara með þrennum hætti í það að ná tökum á ríkisfjármálunum. Tekjugrunnur ríkissjóðs var í molum eftir hrunið, ekki síst vegna þrálátra skattalækkana Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á mestu velmektarárum Íslandssögunnar, sem olli því að tekjugrunnurinn var orðinn það veikur að hann gat ekki aflað nægilegra tekna fyrir útgjöldum nema um þensluástand í ríkisfjármálum væri að ræða. Það var svo sannarlega ekki þensluástand í aðdraganda fjárlaga 2009 og því þurfti að efla tekjustofna og bæta við tekjustofnum til að eiga fyrir útgjöldum ríkissjóðs. Á sama tíma var forgangsraðað í niðurskurði með mjög ákveðnum hætti en enginn útgjaldaliður var undanþeginn og velferðarkerfið þurfti að taka á sig niðurskurð þó að við reyndum að hlífa því eins og tök voru á.

Þriðji þátturinn, fyrir utan tekjuöflun og útgjaldaniðurskurð, var að byggja upp áætlanir og hrinda þeim í framkvæmd til að efla verðmætaskapandi atvinnugreinar og ýmsar framkvæmdir sem héldu uppi framkvæmdastigi, drógu þar með úr atvinnuleysi og juku tekjugrunn ríkissjóðs.

Í fjárauka fyrir 2013 gætir sömu áherslna og í fjárlögum 2014 en þar má sjá stefnubreytingu nýrrar ríkisstjórnar sem felst í því að ákveðnir skatt- eða tekjustofnar eru veiktir. Fjárfestingaráætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar — eða formannsins, sem þá var þingmaður utan þingflokka — er sett til hliðar enda virðist hægri stjórnin ekki trúa á keynesískar hugmyndir um uppbyggingu í samdrætti, um opinberar framkvæmdir í samdrætti. Það er leiðinlegt því að það hefur oft þótt farsæl leið til að koma ríkjum út úr vandræðum.

Herra forseti. Ég vil ítreka að ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, um að stefna beri að hallalausum fjárlögum. En það ber að gæta varfærni. Fyrrverandi ríkisstjórn endurskoðaði áætlun sína þar um svo að það væri í samræmi við getu hagkerfisins, svo að það ógnaði ekki velferð íbúanna eða samstöðu í samfélaginu, sem er veikbyggð eftir mjög erfið ár í kjölfar hrunsins. Það hefur reynt mjög á Íslendinga í kjölfar hrunsins. Fólk horfði á eignir sínar hverfa, skuldir sínar aukast, missti atvinnuna, varð fyrir tekjumissi og þurfti með ýmsu móti að bera byrðar hruns íslenska fjármálakerfisins.

Það krefst mikillar vinnu og yfirlegu og mjög skýrrar stefnu að sigla þessu skipi — svo að við notum hér sjómannamál, herra forseti — farsællega í höfn og vera tilbúin til að taka beygjur til að steyta ekki á skeri. Dogmatísk nálgun á hallalaus fjárlög er hættuleg um leið og markviss stefna að hallalausum fjárlögum er nauðsynleg.

Hallinn fyrir árið 2013 verður meiri en áætlað var og nemur það um 16 milljörðum. Um 25% af þeim halla má rekja til tekna sem ný ríkisstjórn hefur ákveðið að afla ekki. Og það er merkilegt, nú þegar við höfum í fjárlagagerðinni fyrir 2014 séð áherslurnar, sem helst lúta að því að láta þá sem minnst hafa bera þyngstu byrðarnar og verja þá sem breiðust hafa bökin, að fá strax mjög skýra mynd af þeim áherslum síðasta sumar. Þá var ákveðið að lækka veiðigjöld á útgerðina en útgerðin hefur sjaldan eða aldrei verið rekin með jafn miklum hagnaði.

Það er merkilegt að hægri stjórnin skuli ekki vilja afla tekna af auðlindum sínum en treysti á brauðmolakenninguna, sem felst í því að þegar útgerðarmennirnir hafi fengið sitt fyrir afnot af auðlindinni geti eitthvað hrunið niður til okkar hinna ef þeim það hentar í ráðstöfun hagnaðarins. Þar fóru á þessu ári 3,2 milljarðar. Og við, sem höfum því miður meiri reynslu af því að skera niður en auka útgjöld, vitum að 3,2 milljarðar eru gríðarlegir fjármunir og það skiptir verulegu máli fyrir ríkissjóð að innheimta það fé. Og ef eitthvað átti að gera varðandi veiðigjaldið þá hefði átt að hækka það en ekki lækka.

Aðrir aðilar, sem verið er að hlífa, eru gististaðir í ferðaþjónustu. Ég hef áður sagt það hér í þessum ræðustól að gististaðir í ferðaþjónustu eru margvíslegir og ég veit að margir höfðu áhyggjur af litlum bændagistingum úti um landið. En gefið var í skyn að hækkun á virðisaukaskatti í gistiþjónustu, úr 7% í 14%, mundi setja greinina á hliðina. Það er nú samt sem áður þannig að hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem mikið er af stórum hótelum, er mikið bókað yfir veturinn. Nóg er af ferðamönnum sem hafa áhuga á að koma hingað og greinin vex gríðarlega hratt þó að tekjuvöxturinn sé óviðunandi og fara þurfi mjög alvarlega ofan í saumana á því hvers vegna atvinnugrein sem er að vaxa svona hratt skilar ekki meiri tekjum í ríkissjóð.

Það er raunar svo með gistiþjónustuna að vegna mikils munar á inn- og útskatti greiðir ríkið talsverðar fjárhæðir á ári með starfsemi fyrirtækjanna. Ég held að það ætti að vera íhugunarefni, fyrir hinn niðurskurðarglaða meiri hluta hér í þinginu, af hverju þau velja að láta af hendi auðlindir landsins á útsölu og greiða niður gistiþjónustu ferðamanna sem ætti að vera að skila okkur tekjum núna þegar við þurfum mjög á þeim að halda.

Svo eru hérna 500 milljónir sem við erum að verða af vegna IPA-styrkja, sem er hluti af einangrunarstefnu ríkisstjórnarinnar, sem treystir sér ekki einu sinni til að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Við Evrópusinnar teljum að áfergjan sé svona mikil vegna þess að andstæðingar telji að samningurinn verði of hagfelldur, en það segi ég nú af kerskni, herra forseti. En ákaflega er þetta óskynsamleg stefna og svo er hún dýrkeypt í þokkabót.

Í áliti minni hlutans er farið ágætlega yfir afstöðu minni hlutans til frumvarps til fjáraukalaga. Ég er ákaflega ánægð með það álit og vil þakka hv. þingmönnum Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Bjartrar framtíðar í fjárlaganefnd fyrir það. Ég vil líka taka undir þær breytingartillögur sem þær leggja fram og varða — nú þarf ég að fara eftir minni, herra forseti, því að mér brá svo þegar ég var komin á mælendaskrá að ég náði ekki að hafa með mér alla pappíra. Fjórar viðbótartillögur eru frá minni hlutanum, mjög hófsamar. Ein þeirra lýtur að því að Landspítalanum séu bættar upp 125 milljónir sem fyrri ríkisstjórn heimilaði þeim að nýta þegar neyðarástand skapaðist á sjúkrahúsinu. Það skapaðist vegna nóróveirusýkingar og inflúensu; aðstæður á sjúkrahúsinu voru mjög erfiðar og veita þurfti fjármuni til þess. Það varðar almennt öryggi í landinu að Landspítalinn geti treyst því að skapist þar neyðarástand sé honum gert kleift að bregðast við því. Það ætlar ný ríkisstjórn að svíkja og það er með ólíkindum. Hún ætlar að svíkja það loforð fyrri ríkisstjórnar og mun það auka á hallarekstur Landspítalans á yfirstandandi ári.

Þá leggur minni hlutinn til að fjármunir verði settir í fjarskiptasjóð, 195 milljónir, til að gera fjarskiptasjóði kleift að fara í uppbyggingu á 4G-neti í hinum dreifðu byggðum landsins, en það er ein af mikilvægari byggðaforsendum í dag að fólk sé í góðu fjarskiptasambandi. Það að hafa ekki tryggt aðgengi að internetinu er eitthvað sem við sem búum hér á höfuðborgarsvæðinu getum varla ímyndað okkur, hvernig það er í nútímasamfélagi. Ég er mjög ánægð með að þær komi með þessa tillögu.

Þá er verið að setja inn á heilbrigðisstofnanir, almennan rekstur, draga úr hallarekstri þar sem nemur 140 milljónum vegna húsaleigu, uppbóta fyrir húsaleigu. Svo komum við að síðasta liðnum, sem eru 240 milljónir. Það er helmingurinn af IPA-styrkjunum, sem ríkisstjórnin er búin að afsala okkur á þessu ári — það eru 5,3 milljarðar í heildina, en 500 milljónir á þessu ári. Þetta er helmingurinn af tekjunum sem við hefðum haft af virðisaukaskatti á ferðaþjónustu og lítið brot, innan við 10%, af því sem hægri stjórnin afsalaði sér í veiðigjöldum á yfirstandandi ári. Það eru 240 milljónir í desemberuppbót til þeirra sem eru án atvinnu og eru á atvinnuleysisskrá og þurfa að reiða sig á framfærslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta voru fjárframlög sem fyrri ríkisstjórn kom á og tryggði að yrðu greidd út af Vinnumálastofnun í desember hvert ár.

Núverandi ríkisstjórn, eins og ég benti á áðan, virðist helst leita að kjötmeti til að skera niður hjá þeim sem minnst hafa úr að spila. Það er með ólíkindum að ekki hafi verið hægt að finna fé, 240 milljónir, til að tryggja áframhaldandi greiðslu desemberuppbótar til fólks án atvinnu. Miðað við þær fjárhæðir sem hin unga hægri ríkisstjórn hefur treyst sér til að afsala sér þá er þetta til skammar og ég trúi því ekki að margt af því ágæta fólki sem situr í meiri hluta á Alþingi ætli að taka þátt í þessari aðgerð með ríkisstjórn sinni. Það er margt undir í þeim efnum en það hlýtur að vekja upp óþægilegar tilfinningar hjá meiri hlutanum í þinginu að hafna því.

Miðað við það ráðaleysi sem núverandi ríkisstjórn sýnir í ríkisfjármálum mun hin dogmatíska nálgun þeirra á hallalaus fjárlög leiða til þess að við verðum hér með viðvarandi fjárlagahalla allt þetta kjörtímabil, herra forseti.