143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna áðan og taka undir það sem hún fór yfir allra síðast. Ríkisstjórnin kvartar mikið yfir búinu sem hún tók við en það kemur fram í þessu fjáraukalagafrumvarpi að samkvæmt endurmati lækki, með leyfi forseta, „heildarútgjöld í frumvarpinu um 1,9 milljarða kr. miðað við gildandi fjárlög. Frumútgjöld hækka á hinn bóginn um 5,5 milljarða kr. en mismunurinn skýrist af bata í vaxtajöfnuði ríkissjóðs.“

Það sem mikilvægt er í þessu samhengi er:

„Gangi þessi niðurstaða eftir verður frávikið á útgjaldahliðinni frá fjárlögum með minnsta móti og er það til marks um þá aðhaldssemi sem beitt var við undirbúning frumvarpsins.“

Mér finnst þetta meðmæli með fyrrverandi ríkisstjórn þegar hér er mikið talað um að hún hafi skilað mjög slæmu búi.

Varðandi forgangsröðunina sem var rædd áðan vegna stöðu atvinnulausra tek ég undir og hvet velferðarnefnd til að kalla inn þar til bæra aðila og fara ofan í þessi mál. Það er í rauninni ótækt að minni hlutinn á hverjum tíma þurfi að koma með tillögur sem varða desemberuppbót atvinnulausra.

Hv. þingmaður hefur verið formaður fjárlaganefndar og hér hefur mikið verið rætt um gagnsæi stjórnmála. Hér eru tillögur upp á 300 milljónir sem á að búa til nýjan lið úr sem er samantekið af liðum innan skólakerfisins sem af einhverju tilefni hafa ekki verið nýttir. Að auki á að nýta hann á milli ára. Man hv. þingmaður eftir einhverju slíku tilfelli þegar hún var formaður fjárlaganefndar, þessi fjögur ár sem hún hefur setið á (Forseti hringir.) þingi?