143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og fleirum sem hér hafa talað um að lög sem eiga að bæta vinnuna við fjárlög almennt ættu allir þingmenn á Alþingi Íslendinga að geta staðið að.

Hv. þingmaður kom að því áðan að hann teldi að tillögur í fjáraukalögum kæmu sumar til vegna þess að vanáætlað væri í ákveðna liði. Nú höfum við fjáraukalög sem aðrar þjóðir, t.d. Svíar, hafa ekki. Álítur þingmaðurinn að verið sé að vanáætla í ákveðna liði til að fjárlögin líti betur út? Ég er þá ekki að tala um fyrrverandi ríkisstjórn heldur bara ríkisstjórnir almennt. Þetta sé gert til að fjárlögin sjálf líti betur út og síðan sé hægt að lagfæra hlutina í fjáraukalögum. Það virðist vera ákveðinn „tendens“ í því, ef maður mætti sletta, virðulegi forseti.