143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[19:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé hárrétt ábending að þingnefndin eigi að fara yfir það hvernig samskipti við aðila vinnumarkaðarins hafa verið varðandi vinnumarkaðsúrræði og námsúrræði og fá það á hreint hvort þetta var gert í einhverju samráði eða ekki. Manni býður auðvitað í grun, í ljósi þess sem komið hefur fram með mörg önnur mál, að þetta sé algerlega einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar, samanber að það virðist vera algerlega einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar án nokkurs samráðs við aðila vinnumarkaðarins að ríkið kippi algerlega að sér höndunum með greiðslur í starfsendurhæfingu og það hefur líka verið upplýst að ríkisstjórnin hafi ekki talað eitt orð við sveitarfélögin um milljarða og aftur milljarða tekjutap þeirra sem mundi leiða af skuldaniðurfellingartillögunum. Maður óttast að þetta sé af sama meiði, þetta sé hrein og klár einhliða ákvörðun. Á henni eru tveir skavankar. Það er annars vegar pólitískt í samskiptum stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins sem er náttúrlega ekki gott. Hins vegar er það spurningin um hvernig þetta er gert lögformlega, hvort það stenst að láta Atvinnuleysistryggingasjóð greiða út fjármuni í önnur verkefni en hann hefur í raun fjárheimildir til — hann á að greiða atvinnuleysisbætur en með sérstökum heimildum var fært fé í hluti eins og þetta, til að greiða bara eitthvað allt annað, stytta nám til stúdentsprófs. Hvaða heimildir eru til þess? Ég gæti trúað að það þyrfti að flytja svokallað „þrátt fyrir“-ákvæði við lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð ef honum ætti að vera þetta heimilt.

Varðandi Landspítalann þá tek ég einfaldlega undir það að allir muna ástandið þar í byrjun árs. Það var rækilega um það fjallað í ríkisstjórn. Tekin var ákvörðun um að tryggja spítalanum fjármuni til að takast á við ástandið. Það er lögmæt og gild stjórnvaldsákvörðun, ákvörðun um aukafjárveitingu. Ég lít svo á að fjármálaráðherra hvers tíma sé skylt að leggja slíka ákvörðun fyrir Alþingi vegna þess að það er rétt að bera undir Alþingi hvort það vilji veita aukafjárveitingu. (Forseti hringir.) Alþingi hefur hins vegar leyfi til að hafna því. Fjármálaráðherra getur lagt til að þessu verði hafnað en þetta átti að vera í frumvarpinu hans.