143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Að kvöldi dags að íslenskum tíma fimmtudaginn 5. desember síðastliðinn barst heiminum sú frétt að látinn væri 95 ára að aldri frelsishetjan og mannréttindafrömuðurinn Nelson Mandela. Ég hygg að ekki sé ofmælt að í hugum okkar margra sé hann merkasti og virðingarverðasti einstaklingur sem við höfum verið með á dögum og eigum jafnvel nokkru sinni eftir að verða samtíða.

Mér finnst við hæfi að hér úr ræðustól á Alþingi Íslendinga sé minning hans heiðruð og honum þakkað fyrir að vera ekki aðeins Suður-Afríku sú gæfa sem hann var heldur heiminum öllum sú fyrirmynd mannvisku og réttlætisboðskapar sem raun bar vitni. Lífshlaup hans var einstætt og koma fá nöfn upp í hugann sem líkleg eru til að skipa sambærilegan sess á spjöldum sögunnar nema ef vera skyldi nafn Mahatma Gandis.

Herra forseti. Einhvern tíma hefur verið risið úr sætum á Alþingi af minna tilefni. Þó að það sé utan allra hefða vil ég leyfa mér sem aldursforseti þessarar samkundu að leggja til að þeir alþingismenn sem finna sig í því rísi úr sætum og við heiðrum minningu Nelsons Mandela með andartaks þögn. — [Þingmenn risu úr sætum.] Takk fyrir.