143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:00]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek eftir því að nefndarfólk úr fjárlaganefnd er ekki komið til fundar. Ég vona að það standi ekki svo á að fjárlaganefnd sé enn á fundinum sem hún hélt í kvöldmatarhléinu. Það væri frekar óheppilegt í ljósi þess að hér eru fjáraukalög á dagskrá og það væri náttúrlega æskilegt að forustufólk fjárlaganefndar væri viðstatt umræðuna. Ég treysti því að ekki sé verið að funda ofan í fund fjárlaganefndar og vænti þess og vona að við sjáum fjárlaganefndarfólk birtast innan skamms í þingsalnum.

Það eru nokkur atriði sem ég vil gera ítarlegar að umtalsefni eða taka upp sem ný frá því sem ég ræddi í ræðu minni í gærkvöldi um þetta mál. Ég tek undir með fleiri ræðumönnum og vil þar nefna fyrst desemberuppbót til atvinnuleitenda. Við áttum um þetta nokkur orðaskipti hér í gærkvöldi og gærdag og þá voru flestir þátttakendur í umræðunni sammála um að það væri eiginlega þyngra en tárum tæki ef menn ætluðu að heykjast á því núna að greiða atvinnuleitendum á skrá desemberuppbót. Þeir eru sem betur fer miklum mun færri en þegar ástandið var hér verst 2009, 2010 og 2011 og það væri ótrúlegt ef menn réðu ekki við að greiða desemberuppbót sem þó hefur verið gert undanfarin þrjú ár.

Það er enn fátt um svör frá hæstv. ríkisstjórn og aðstandendum frumvarpsins og það litla sem kemur er frekar neikvætt. Ég sá ekki betur en að einhvers staðar væri haft eftir hæstv. félagsmálaráðherra í dag að það liti ekki vel út með að í þetta yrðu settir fjármunir. Það þarf að gera í þessu fjáraukalagafrumvarpi þannig að fjárheimildirnar stofnist á þessu ári og hægt sé, þótt seint sé, að greiða bæturnar fyrir jól. Ég verð að segja alveg eins og er að ég trúi þessu ekki enn þá. Ég yrði ekki hissa þó að kostnaðurinn yrði á annað hundrað milljónum minni núna en hann var þegar hann var mestur, t.d. 2010. Er það virkilega svo að okkur hafi hrakað svona svakalega að nú ráðum við ekki við þetta? Ekki hefur staða þessa hóps batnað þannig að hægt sé að tala um það, ég tala nú ekki um þeirra sem hafa verið án atvinnu í tvö eða þrjú ár.

Mér finnst einhvern veginn að við eigum skilið að fá hér skýr svör um þetta. Er þetta endanlega út úr myndinni eða er enn verið að leita leiða til að þetta nái fram að ganga?

Sömuleiðis hafa hér orðið áhugaverðar umræður um miklar tilfærsluæfingar, sem ég verð að játa að ég hafði ekki alveg áttað mig á fyrr en glöggir menn vöktu athygli á þeim, og snúa að ráðuneyti menntamála. Þar á að taka fjármuni úr ýmsum liðum og að hluta til fjármuni sem ég veit ekki betur en að séu upprunalega sprottnir úr atvinnuleysistryggingagjaldinu og áttu að renna með samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda inn í menntakerfið til að greiða götu fólks til náms. Það held ég að hafi verið vel heppnað, þær viðamiklu aðgerðir sem farið var í á síðasta kjörtímabili til að auðvelda ungu fólki að fara frekar í nám en að mæla göturnar. Var ýmislegt gert í þeim efnum, bæði það að tryggja öllum undir 24 ára aldri vist í framhaldsskólum og einnig að greiða götu atvinnuleitenda, ungs fólks af atvinnuleysisskrá, inn í skólana.

Þarna tóku aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld höndum saman. Þetta voru viðamiklar aðgerðir og þó að eitthvað hafi dregið úr aðsókn í einhvern hluta þessara aðgerða er ekki þar með sagt að það sé ríkisins einhliða að ákveða að taka nú þessa fjármuni og færa þá yfir í allt önnur verkefni.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur litla grein gert hér fyrir stefnu sinni sem greinilega er þarna drifkrafturinn, það sérstaka áhugamál hæstv. menntamálaráðherra að stytta nám til stúdentsprófs. Hann ætlar að safna sér í mikla og digra sjóði sem hann hafi yfir að ráða til að keyra þetta áhugamál sitt fram sem við vitum að er umdeilt. Meðal margra skólamanna eru verulegar efasemdir um ágæti þessa. Ég hef til dæmis heyrt þau sjónarmið sums staðar úti á landi að það þurfi að horfa á þann vinkil í þessum málum að það séu ekki endilega alls staðar sömu aðstæður til að nýta sér þetta. Fyrir utan það hlálega að þeim sem hafa á því áhuga og sem það hentar að hraða skólagöngu sinni með þessum hætti standa eiginlega allar leiðir færar í þeim efnum. Í velflestum framhaldsskólum landsins er það í boði og meira að segja hægt að hefja undirbúning að því strax í grunnskóla með því að taka áfanga á framhaldsskólastigi samhliða námi í 9. og 10. bekk. Þessi umræða er á köflum dálítið sérkennileg þegar að þessu er gáð og veruleikinn sá að það er heilmikill sveigjanleiki í því hversu hratt menn kjósa að ljúka námi sínu á framhaldsskólastigi eða grunnskóla- og framhaldsskólastigi til samans. Munar iðulega tveimur árum í lífaldri hjá þeim sem taka þetta hraðast og hinum sem taka það hægar. Við höfum líka óskað eftir því að hæstv. menntamálaráðherra kæmi hér og svaraði aðeins fyrir þennan hluta málsins.

Ég hef áður minnt á Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og óánægju mína með að hann verði svona grátt leikinn á næsta ári eins og augljóslega allt stefnir í, þ.e. öll áform um einhverja tekjuöflun á móti þeirri miklu skerðingu sem hann á að sæta af hálfu núverandi ríkisstjórnar eru fuglar í skógi. Það er svo sem orðið alveg opinbert leyndarmál að það verður ekki af neinni slíkri gjaldtöku eða viðbótartekjuöflun á næsta ári. Það mun þýða að aftur dregur allan þrótt úr uppbyggingu og fjárfestingu í innviðum til að takast á við stóraukinn fjölda ferðamanna og það er afar dapurlegt.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson heiðraði samkvæmið með því að halda hér loksins ræðu, einn fárra stjórnarliða sem það hefur gert, og það var ágætt. Honum voru mjög hugleiknir þeir gríðarlegu erfiðleikar sem ríkisstjórnin stæði frammi fyrir við að koma saman fjárlögum. Mátti helst á honum skiljast að þetta væri svakalegasta verkefni sem menn hefðu nokkurn tímann séð framan í. Það er nú það, hann hefði átt að vera í þessum sporum 2009, blessaður maðurinn. Hvað hefðu menn mátt segja þá þegar þeir horfðust í augu við að minnsta kosti 150–170 milljarða halla á ríkissjóði eins og orðið hefði ef ekki hefði verið farið í aðgerðir til að stemma stigu við því? Það voru dálítið svakalegar tölur, en ég get ekki tekið undir að þetta sem hér er á ferðinni sé þannig að fullhraustum karlmönnum eigi að fallast hendur og vera gráti nær í ræðustól eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson yfir því hvað þetta sé erfitt.

Þetta er meðal annars erfitt vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur afsalað ríkissjóði umtalsverðum tekjum strax á þessu ári og verulegum tekjum á hinu næsta. Það sem skiptir þó meira máli er að ríkisstjórnin er pólitískt heft. Það er ekki til í hugmyndafræði hennar að það sé að einhverju leyti hægt að mæta þessum vanda með tekjuöflun. Það er bara ekki til. Eina úrræðið er alltaf niðurskurður, samanber æfingarnar á síðustu klukkutímum og sólarhringum þegar ríkisstjórnin skiptir um tillögur einu sinni til tvisvar á dag. Þrautalendingin er þá að til þess að geta lagt einhvers staðar eitthvað með í fjármunum sé að fara í til dæmis flatan niðurskurð á ráðuneytum og nokkrum stofnunum. Það er rosaleg hugkvæmni. Áttu þetta ekki að vera svo nýmóðins og flottar og róttækar hagræðingartillögur sem enda í 5% flötum niðurskurði?

Ríkisstjórnin afsalaði sér meðal annars verulegum tekjum af sérstöku veiðigjaldi og í dag sendi Hagstofan frá sér gögn um afkomu veiða og vinnslu á árinu 2012. Hvað kemur í ljós? Að afkoma sjávarútvegsins er fyllilega jafn góð og hún var á metárinu 2011 eftir þá hækkun veiðigjalds sem þó kom til greiðslna á árinu 2012. Framlegð sjávarútvegsins fyrir veiðigjöld hefur sennilega verið um 87 milljarðar kr. á árinu 2012. Eftir veiðigjöld upp á um það bil 7,5 milljarða er framlegðin sú sama árið 2011, 79,7 milljarðar. Muna menn hér sönginn um að allt mundi fara á hliðina, allt færi á hausinn, ef einhver veiðigjöld yrðu lögð á sjávarútveginn. Hvað mega endurskoðunarfyrirtæki og fleiri segja sem tóku þátt í hræðsluáróðrinum um að þetta mundi sliga sjávarútveginn þegar Hagstofan birtir núna gögn um staðreyndir mála sem sýna að þessi hækkun veiðigjalda á árinu 2012 nam ekki nema rétt um það bil viðbótarframlegðinni sem góð (Forseti hringir.) afkoma á því ári færði inn í greinina? Þarna hefðu menn getað gert betur (Forseti hringir.) og þyrftu ekki að setja þann smánarblett á Alþingi, herra forseti, að leggja til við þing og þjóð (Forseti hringir.) að við drægjum úr þróunaraðstoð og neyðarhjálp til þess að geta gert aðeins betur við Landspítalann.