143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og vek athygli á því að við erum ekki að fjalla um gagnrýni minni hlutans, við erum að fjalla um gagnrýni meiri hlutans, alþingismanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, á tillögur ríkisstjórnarinnar.

Ég vil inna hv. þingmann eftir mati hans sem fyrrverandi fjármálaráðherra á öðru atriði sem meiri hluti fjárlaganefndar gagnrýnir harðlega í málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar og það eru framlög til Íbúðalánasjóðs. Meiri hluti fjárlaganefndar gagnrýnir harðlega að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir skuli ekki hafa gripið til fullnægjandi ráðstafana til þess að takast á við þann vanda sem uppi er í Íbúðalánasjóði. Ég held að það væri gott að fá sjónarmið hv. þingmanns um Íbúðalánasjóð enda þekkir hann vel til hans og þeirra áhrifa sem sjóðurinn kann að hafa á lánshæfi ríkissjóðs ef ekki er vel á haldið.