143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki alveg þessa umræðu sem fer fram hér. Ég hef þegar óskað eftir því að forseti fresti fundi og úrskurði í málinu því að í 29. gr. þingskapalaga segir skýrt að kynna eigi og leggja fram drög að nefndaráliti. Það var nákvæmlega það sem formaður fjárlaganefndar gerði úti á nefndasviði. Það liggja fyrir allar breytingartillögur sem eru meginuppistaðan í nefndarálitinu og það hefur minni hlutinn undir höndum auk þess sem minnihlutafulltrúum var boðið að fá þau drög sem voru komin af nefndaráliti, en því var hafnað eða það afþakkað.

Ég ætla að segja annað. Þetta er afar einkennilegt vegna þess að á fundinum var málið tekið til formlegrar afgreiðslu með handauppréttingu og þá gerðu fulltrúar minnihlutaflokkanna í fjárlaganefnd engar athugasemdir. Málið er því komið út úr nefndinni. Vegna þess að verið er að ásaka (Forseti hringir.) formann fjárlaganefndar um lögbrot úr þessum ræðustól óska ég eftir því að fundi verði frestað og sá skilningur minn staðfestur (Forseti hringir.) á 29. gr. að drög að nefndaráliti dugi til að taka málið út.