143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Til að menn fari ekki á of stífum gormum inn í þetta fundarhlé þá tel ég óþarfa að hafa stærri orð uppi en efni standa til. Mér sýnist ósköp augljóst hvað hefur gerst. Það hafa átt sér stað mistök, það er augljóslega ekki ásetningsbrot, held ég, hjá meiri hluta fjárlaganefndar að fara á svig við þingsköp. Það hafa orðið mistök sem liggja nokkuð skýrt fyrir. Þar af leiðandi þarf bara að leiðrétta þau. Þetta mundi væntanlega á lagamáli, trúlega getur formaður fjárlaganefndar af sinni þekkingu staðfest það, flokkast undir það að vera formgalli, meinbugur á þessari afgreiðslu fjárlaganefndar út úr nefndinni og þar af leiðandi er hún ógild. Þarna hafa átt sér stað mistök og þau þarf að leiðrétta. Það er gert með því að nefndin kemur aftur saman til fundar og afgreiðir málið formlega þegar prentuð drög að nefndaráliti liggja fyrir. Það er þetta sem málið snýst um.