143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:11]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Eftir þá uppákomu sem hér varð vil ég byrja á að biðja hv. þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins afsökunar á að nota stór orð. Ég hefði náttúrlega átt að tala um formgalla en ekki lögbrot og bið hana afsökunar á því. En eftir stendur að ég er orðin leið á þeirri röksemd — og það er ekki bara hún sem það á við heldur tíðkast það mjög í samskiptum fólks og líka hér í þessu húsi — að af því að eitthvað hafi verið gert áður þá sé í lagi að gera það aftur.

Virðulegi forseti. Við tölum hér um fjáraukalög og erum í raun öll sammála um að í hinum besta heimi þyrfti ekki að leggja fram fjáraukalög. Við erum ekki komin þangað enn en ég held við nálgumst það takmark og því ber að fagna. Í lögum um fjáraukalög segir að valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana sem ekki sé gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skuli leita heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Til þessa hefur oft verið vitnað í dag og í gær og ábyggilega ótal sinnum áður í umræðum um fjáraukalög.

Þeir áttu, að því er mér fannst, góða umræðu um fjáraukalög í gær, hv. þingmenn Pétur H. Blöndal og Höskuldur Þórhallsson. Sá síðarnefndi lýsti fyrirkomulagi í Svíþjóð þar sem engin fjáraukalög eru en gert er ráð fyrir ófyrirsjáanlegum útgjöldum, svo sem eins og náttúruhamförum eða launahækkunum ríkisstarfsmanna — og þá vil ég nú kannski skjóta því inn, forseti, að þegar ég var að setja þetta niður þá hvarflaði það að mér að í huga sumra aðila í þjóðfélaginu væri stundum talað um það tvennt í sama tóni, þ.e. að hækkun á launum ríkisstarfsmanna eða launþega á almennum markaði jafnist næstum því á við náttúruhamfarir. Mér finnst oft og tíðum hugsunin vera á þann veg þegar fólk sækir um kjarabót í þessu landi. En þetta var nú útúrdúr.

Það mun reyndar vera svo í mörgum löndum að ekki eru fjáraukalög heldur er áætlað fyrir óvæntum útgjöldum og upphæðir settar inn fyrir því í fjárlögunum sjálfum. Reyndar var það tekið upp í fjárlagagerð hér á síðasta kjörtímabili að einhver upphæð var sett inn fyrir ófyrirséðum útgjöldum þó að hún hafi náttúrlega verið lág. Það var nýtt og ég held að menn ættu að þróa þá aðferð áfram enda er ég hlynnt sænsku leiðinni í þessum efnum. Mér finnst samt þegar var rætt um þetta, og stundum hefur verið rætt um þetta hér í þingsal, að ég hafi heyrt einhverja þingmenn lýsa sig andvíga því fyrirkomulagi að áætla fyrir ófyrirséðum útgjöldum í fjárlögunum sjálfum og þá á þeirri forsendu að slíkum fjárheimildum yrði bara eytt í eitthvað, eins og sagt er, eða í einhver gæluverkefni fjármálaráðherra eða annarra sem kæmust með puttana í þær heimildir.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsti þannig þeirri skoðun sinni að sækja eigi um fjárveitingar sem ekki eru í fjárlögum til þingsins í hvert sinn. Fjáraukalögin yrðu þá svona lifandi plagg, ef svo má segja. En ég verð nú að segja að frá mínum sjónarhóli held ég að það sé ekki góð aðferð. En ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við skiptumst á skoðunum um hvernig best er að haga þessu. En það er ekkert skrýtið þó að menn séu þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera svigrúm innan fjárlaga — þó að það sé, eins og ég hef sagt, ekki mín skoðun — en það er einmitt vegna þess hversu frjálslega hefur verið farið með fjármuni ríkisins í fortíðinni. Í góðærinu svokallaða, eða kannski ættum við frekar að kalla það í þenslunni, sem hér ríkti fyrir hrun, var heldur lítill agi í ríkisfjármálum. Það kemur einmitt fram í inngangi að fjáraukalögunum núna að á árunum 1998–2008 var meðaltal frávika í fjáraukalögum 5% frá frumútgjöldum. Og á tímabilinu 2009–2013 var það 1,5%. Í þessu frumvarpi er það þó komið niður í 1%, og ég held að við eigum að fagna því.

Virðulegi forseti. Ég verð að geta þess — þó að það þreyti suma sem nú bera ábyrgð á stjórn ríkisins og eru til dæmis í forustu fyrir vinnu fjárlaganefndar að minnst sé á að hér hafi orðið hrun — að efnahagskerfið hrundi fyrir fimm árum og ríkissjóður rambaði á barmi gjaldþrots. Nú einungis fimm árum eftir það hefur verið lagt fram frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014 sem gerir ráð fyrir að þau verði hallalaus. Ég fagna því auðvitað þó að ég hefði kosið að í mörgum efnum hefðu verið farnar aðrar leiðir en þær sem lagðar eru til. Ég mun gera nánari grein fyrir því í umfjöllun um fjárlagafrumvarpið þegar það verður til umræðu, sem mér skilst á upplýsingum hæstv. forseta að verði á föstudaginn.

Einmitt sú staðreynd að stjórn og stjórnarandstaða eru sameinuð í því að hægt sé að stefna að hallalausum fjárlögum hlýtur að vera vitnisburður um að mikið hafi áunnist á síðasta kjörtímabili. En þrátt fyrir mun meiri og betri aga í ríkisfjármálum en við höfum áður þekkt þá liggur enn fyrir að samþykkja þarf fjáraukalög vegna þess að hallinn á fjárhag ríkisins er meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013, það liggur fyrir. Það er út af fyrir sig lítið upp úr því að hafa að karpa mikið um hverju er um að kenna en ég ætla samt að rifja það upp að hluti hallans er af því, og því verður aldrei neitað, að stjórnarmeirihlutinn kaus að afsala sér tekjum sem höfðu verið samþykktar. Þar ber fyrst að nefna 3,2 milljarða kr. vegna veiðigjalds og 500 milljónir kr. vegna lækkunar virðisaukaskatts á gistingu úr 14% í 7% og þá upphæð mætti jafnvel hækka, kannski um svona 10%, vegna þess að ferðamannastraumur hingað til lands síðustu fjóra mánuði ársins er mun meiri en gert var ráð fyrir þegar áætlanir um tekjur af þessum skatti voru reiknaðar.

Virðulegi forseti. Þessi vísa verður aldrei of oft kveðin. Því að ef gjöld á atvinnuvegi, sem eru í blússandi gangi og aflögufærir, eru lækkuð verður fólk, einstaklingar, venjulegt fólk, að borga hærri skatta eða að skera verður niður eins og sést í þessu frumvarpi. Ég ætla að taka dæmi og ég ætla einungis að tala um, svona til að byrja með alla vega, þá liði sem minni hluti fjárlaganefndar leggur til að verði í frumvarpi til fjáraukalaga. Minni hluti fjárlaganefndar leggur til fjögur atriði og það eru allt gjöld sem annaðhvort koma af mörkuðum tekjustofnum eða höfðu verið samþykkt í fyrri ríkisstjórn, af löggiltu stjórnvaldi sem sagt.

Þar er fyrst að nefna fjarskiptasjóðinn sem er upp á 195 milljónir kr. Ef fólk á að vilja búa úti á landi þá verður að tryggja að fjarskiptin séu í lagi. Annað gengur ekki þegar við nálgumst árið 2020, og það gengur heldur ekki árið 2013. Mér finnst það líka spurning hvort hægt er að segja að við bjóðum upp á fyrsta flokks ferðaþjónustu um allt land ef fólk sem er á ferðalögum kemst ekki í tölvusamband. Ég tel það því eitt af höfuðverkefnum sem þarf að ráðast í, til að tryggja að fólk vilji búa áfram úti á landi, til að unga fólkið vilji vera þar áfram og geti stundað marga þá atvinnu sem nú er hægt að stunda með því að hafa gott tölvusamband. Ég veit ekki alveg hvaða orð ég á að nota yfir það, virðulegi forseti, mér dettur helst í hug orðið „heimskulegt“ — mér finnst heimskulegt að láta sér detta í hug að fella þetta niður. En þessir peningar, þessar 195 milljónir kr., eiga að koma af mörkuðum tekjustofni.

Minni hlutinn leggur síðan til 125 milljónir kr. sem eru vegna veirusýkinga, inflúensu og veikinda sem komu upp hér á landi og kostuðu Landspítalann heilmikla peninga í upphafi ársins, bæði vegna þess að fleiri sjúklingar þurftu að vera í einangrun en áður hafði þekkst og einnig voru veikindi starfsfólks meiri. Fyrrverandi ríkisstjórn samþykkti þessa aukafjárveitingu til Landspítalans og mér finnst ótrúlegt, sérstaklega í ljósi þess hve menn tala mikið um að bjarga heilbrigðiskerfinu, sem ekki er vanþörf á, að þetta sé tekið út úr fjáraukalagafrumvarpinu, mér finnst ótrúlegt að það sé ekki þar inni.

Virðulegi forseti. Í þriðja lagi er 140 milljóna kr. framlag til húsaleigu heilbrigðisstofnana úti á landi. Þá vísa ég aftur til þess að í þeim vandræðum sem heilbrigðisstofnanir eru í finnst mér ótrúlegt að menn ætlist til þess að þessar stofnanir taki 140 milljónir kr. af venjulegum rekstri til að geta staðið undir húsaleigunni.

Virðulegi forseti. Loks að því sem oft hefur verið nefnt fyrr í dag og það er Atvinnuleysistryggingasjóður, upp á 240 milljónir kr. Ég heyrði hæstv. ráðherra, sem fer með þessi mál, Eygló Harðardóttur, segja það í útvarpinu í dag að hún legði áherslu á að þessir peningar fengjust. Hér er tækifærið. Það er tækifæri fyrir hana að hvetja sína flokksmenn til þess að samþykkja þessa tillögu minni hlutans. Það er reyndar algjörlega ótrúlegt að fólki detti í hug að taka desemberuppbótina af fólki sem er á atvinnuleysisbótum.

Virðulegi forseti. Þessi fjögur atriði eru sem sagt dæmi um hluti sem taka þarf til hliðar. Og menn segja: Það er út af því að við höfum ekki peninga til þess. Aftur vísa ég til þess að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn vísaði frá sér tekjum sem átti að taka frá atvinnuvegum sem eru mjög aflögufærir, í raun á blússandi fart.

Ég ætla líka að víkja að þeirri uppákomu, sem ég vil svo kalla, sem varð hér í gær, þegar hæstv. utanríkisráðherra upplýsti að meiri hluti fjárlaganefndar hefði tekið út úr fjáraukalagafrumvarpinu fjárveitingu upp á 46,7 milljónir kr. vegna tapaðrar kröfu á hendur starfsmanni; og þeir gerðu þetta án þess að ráðgast við samherja sinn og félaga, hæstv. utanríkisráðherra. Hæstv. ráðherra upplýsti einnig að umrædd upphæð, af því að oft er gott að setja tölur í samhengi, samsvaraði því sem kostar að reka sendiskrifstofuna í Nuuk á einu ári. Og hvað vill meiri hluti fjárlaganefndar að utanríkisráðuneytið geri? Loki þeirri skrifstofu? Bara sisona. Það kostar nú líka peninga. Ég veit ekki hvað er ófyrirséð ef ekki það að krafa tapast á starfsmann sem farið hefur út fyrir sómasamleg mörk í því hvernig fólk á að haga sér.

En þessu er ólíkt farið með forsetaembættið. Það fær 14 millj. kr. fjárveitingu vegna eftirfarandi þátta: endurnýjunar á bílakostnaði og tölvubúnaði, opinberra heimsókna forseta til annarra landa, heimsóknar Margrétar Danadrottningar vegna hátíðarhalds í tilefni af því að 350 ár eru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar, smíði á fálkaorðum sem fram fer á nokkurra ára fresti og viðhalds á gestahúsi við Laugaveg. Ekki er nú að sjá að neinn þessara liða sé ófyrirséður eða flokkist undir óvænt útgjöld.

Hæstv. forseti. Ég vil biðja afsökunar á því að vera að endurtaka þessa upptalningu hér því að það hefur verið gert nokkrum sinnum. En þetta er í raun svo fáránlegt að ekki er hægt að komast hjá því að endurtaka þetta svolítið oft, svona rétt eins og þetta með að ríkisstjórnin afsalaði sér veiðigjöldunum og lækkaði virðisaukaskatt á gistihúsin. En kannski má velta því fyrir sér hvort þessi afgreiðsla fjárlaganefndar sé í anda þess, eins og stundum er sagt, að það sé sitthvað Jón og séra Jón; það er sitthvað utanríkisráðuneytið og forsetaembættið í þeirra huga væntanlega.

Eins og aðrir hafa gert á undan mér fagna ég því að horfið hefur verið frá lækkun á framlögum til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs en það er einmitt áríðandi að veita fé til þessara sjóða til að hægt sé að byggja upp ný atvinnutækifæri. Þá vil ég líka taka fram að þegar menn mæla með þessu er ekki verið að stefna atvinnugreinum hverri á móti annarri, eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir oft þegar menn mæla með því að hækka framlög í þessa sjóði sem gera okkur vonandi kleift að byggja upp nýja atvinnuvegi og renna fleiri stoðum undir atvinnulífið í landinu — eins og glumið hefur í eyrum mínum frá því að ég var stelpa og það eru býsna mörg ár síðan það var.

Virðulegi forseti. Ég vil vera svo bjartsýn að vona að sú breyting sem orðið hefur varðandi Rannsóknasjóðinn og Tækniþróunarsjóð sé vísbending um hvers vænta megi til breytinga á fjárlagafrumvarpinu á milli umræðnanna og að þar verði horfið aftur til fjárfestingaráætlunarinnar hvað varðar framlög til þessara sjóða og vonandi einnig til annarra fjárveitinga sem eru í fjárfestingaráætlun bæði til skapandi greina og sóknaráætlunar.

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um það sem ýmist er kallað bix eða skítamix, og alls konar orð notuð yfir það, hvernig verið er að færa fjárveitingar, sérstaklega í menntamálaráðuneytinu, úr Nám er vinnandi vegur, og flytja það yfir í áætlanir sem hæstv. menntamálaráðherra hefur um að breyta skólakerfinu í landinu. Hann hefur þó aldrei gert þinginu neina grein fyrir því og mér finnst nokkuð einkennilega að því farið. Og ekki síður að síðan á ekki að nota þessa peninga fyrr en á næsta ári.

Ýjað var að því hér í gær að þetta stæðist hugsanlega ekki lög. Ég vil nú kannski ekki nota svoleiðis orð meira í dag, búin að gera nóg af því, heldur fara að dæmi fyrrverandi fjármálaráðherra og segja eins og hann sagði að þetta væri formgalli, afgreiðsla fjárlaganefndarinnar hér í dag. Þetta er kannski líka formgalli á fjáraukalagafrumvarpinu. En það er náttúrlega mjög umhugsunarvert og eiginlega með ólíkindum að menn láti frá sér ummæli eins og þau sem koma fram í (Forseti hringir.) nefndarálitinu, þ.e. að þetta sé ámælisvert en að horfa eigi (Forseti hringir.) fram hjá þessu í þetta sinn. Það virðist reyndar vera svolítið í tísku núna, að horfa fram hjá (Forseti hringir.) einu og öðru í (Forseti hringir.) þetta sinn.