143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við viljum öll sýna forsetaembættinu rausnarskap en hins vegar verður forsetaembættið að gæta hófs eins og allir aðrir. Við erum lítil þjóð og höfum ekki efni á að halda uppi sama rausnarskap og ríkar og stórar þjóðir. Auðvitað tel ég að forsetaembættið ætti að ganga þar á undan. Ég man ekki nákvæmlega eftir þessum 30 milljónum en það er bætt við um 30 milljónum í fjárlögum fyrir þetta ár. Það er ekkert flóknara en það, virðulegi forseti, að það var farið út í að kaupa bíl sem ekki er fjárveiting fyrir. Þá á bara að fresta því að kaupa bílinn þangað til það er til fjárveiting fyrir honum. Það tel ég að forsetaembættið eigi að gera eins og aðrir.

Þegar ríkisstjórnarskipti verða er náttúrlega mjög líklegt að þar verði einhverjar tilfæringar, einhverjir ráðherrar hætta, fara á biðlaun, aðstoðarmenn sömuleiðis. Það væri ábyggilega skynsamlegt að gera ráð fyrir einhverri slíkri upphæð í fjárlögum en ef ég bara held mig við raunveruleikann held ég að það væri svolítið gaman að hlusta á umræðu um það fjárlagafrumvarp þegar lögð væri til 40 milljóna fjárveiting vegna ríkisstjórnarskipta. Já, nú er ríkisstjórnin búin að gefast upp, hún gerir ekki ráð fyrir að verða kosin aftur. Það yrði snúið mjög mikið út úr því ef við erum bara raunsæ. (Forseti hringir.) Það er auðveldara um að tala en í að komast, held ég.