143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[01:48]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Það er kannski eitt atriði sem ég vildi fá að bregðast við. Það er gífurlega erfitt fyrir einstaklinga og fjölskyldur að fara í gegnum mikla fjárhagsörðugleika. Það er kannski fátt sem slítur fólki meira en akkúrat það. Það getur leitt til veikinda, líkamlegra og andlegra, skilnaða, mikils álags fyrir fjölskylduna í heild, börnin, þannig að það er ekki skrýtið þegar fólk fer í þess háttar átök að margt getur reynst mjög erfitt, sérstaklega samskipti við opinberar stofnanir. Ég tel að umboðsmaður skuldara hafi verið að reyna að vanda sig eins og hægt er við mjög erfið verkefni. Það hefur komið í ljós að í langflestum þeim málum sem hafa farið í gegnum úrskurðarnefndina varðandi greiðsluaðlögun er verið að staðfesta ákvarðanir umboðsmanns skuldara. Þar eru náttúrlega mjög skýr ákvæði í lögum um hvað getur gert það að verkum að málum er t.d. vísað frá greiðsluaðlögun.

Hins vegar skal alveg viðurkennast að afgreiðsluhraði mála hefur verið algjörlega óásættanlegur. Það tengist náttúrlega því að þarna hefur farið í gegn gífurlegur málafjöldi. Það hefur gert að verkum að þjónustan hefur alls ekki verið eins og við hefðum viljað hafa hana. Við vonum svo sannarlega að við munum aldrei sjá aftur viðlíka málafjölda og hefur farið þar í gegn á undanförnum árum.