143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

Landsvirkjun.

165. mál
[01:52]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er mér sérstök ánægja að fá að mæla fyrir þessu máli, nú þegar óttustund nálgast í nóttinni, sem framsögumaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Þetta mál tókum við að sjálfsögðu til athugunar og fengum til okkar m.a. fulltrúa frá fjármálaráðuneyti og umsagnir frá Landsvirkjun, ríkisskattstjóra og Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja.

Málið á sér þá forsögu að frá því í apríl 2012 þegar Landsvirkjun varð meirihlutaeigandi í félaginu Þeistareykjum ehf. hefur félagið talist 100% dótturfélag Landsvirkjunar. Það kemur fram í greinargerð og gögnum málsins að megintilgangur Landsvirkjunar með kaupunum á hlutum í Þeistareykjum hafi verið að tryggja þau réttindi sem félagið fer með og stefna síðan að því að sameina það öðrum rekstri og starfsemi Landsvirkjunar.

Í 3. mgr. 9. gr. sameignarfélagssamnings Landsvirkjunar, sem er eins og kunnugt er sameignarfélag í eigu ríkisins, segir m.a. að ákvörðun um „sameiningu eða samruna félagsins við önnur félög eða fyrirtæki eða slit félagsins sé óheimil nema að fengnu samþykki Alþingis“. Það lá því fyrir að nauðsynlegt var að afla því samþykkis og heimildar á Alþingi að af samrunanum gæti orðið. Þá heimild hefur Alþingi reyndar þegar veitt með skýrum hætti, að talið var, með 4. gr. fjáraukalaga fyrir árið 2012, en þar kom inn nýr liður, nr. 7.20, sem og í 6. gr. sjálfra fjárlaganna fyrir árið 2012. Engu að síður fór það svo að með ákvörðun, dagsettri 14. febrúar 2013, hafnaði fyrirtækjaskrá fyrirhuguðum samruna Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. með vísan til þess að samruninn ætti sér ekki nægilega skýra lagastoð.

Að mati fyrirtækjaskrár hefur heimild sú sem veitt er í fjáraukalögum fyrir árið 2012 og fjárlögum sín lagalegu takmörk þar sem lög um Landsvirkjun heimila ekki slíkan samruna auk þess sem önnur almenn lög heimila ekki samruna sameignarfélaga og einkahlutafélaga. Í þessu ljósi er leitað eftir skýrri viðbótarheimild frá Alþingi með þeirri breytingum á lögum um Landsvirkjun sem hér eru til umfjöllunar.

Nefndin telur ljóst af öllum gögnum málsins og eftir umfjöllun sína að umrædd sameining Landsvirkjunar og Þeistareykja ehf. byggist á hagræðingarsjónarmiðum sem séu til þess fallin að styrkja rekstur félaganna til framtíðar, auk þess sem Alþingi hefur auðvitað þegar samþykkt sameininguna í fjárlögum og fjáraukalögum þó að svo hafi farið að fyrirtækjaskrá telji þá heimild ekki fullnægjandi lagastoð fyrir sameiningunni eins og áður var rakið. Þar af leiðandi er mikilvægt að sú lagagrein sem samþykkt verður innihaldi mjög skýra lagatilvísun. Við verðum að vona að það takist í þessari umferð hjá Alþingi að ganga nægjanlega tryggilega lagalega frá málinu. Í því ljósi leggur nefndin reyndar til nokkra breytingu sem gerir ákvæðið efnislega skýrara eins og ég mun fara yfir á eftir.

Það er okkar niðurstaða að með frumvarpinu svo breyttu fáist afdráttarlaus, skýr og ótvíræð lagaheimild fyrir samruna Þeistareykja ehf. og Landsvirkjunar sem við teljum öll rök mæla með.

Þó ber þess að geta að hv. þm. Pétur H. Blöndal undirritar nefndarálitið með fyrirvara og gerir þann fyrirvara við málið að Landsvirkjun hafi losað aðra meðeigendur undan ábyrgðum með því að kaupa þá út og að Þeistareykir ehf. geti þar af leiðandi núna farið að framkvæma án þeirrar takmörkuðu ábyrgðar sem út af fyrir sig áður var í því hlutafélagi, eða einkahlutafélagi eins og ætti reyndar að standa í álitinu.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, og er fyrri málsliður hennar í raun óbreyttur frá fyrri hluta fyrri málsliðar frumvarpsins, með leyfi forseta:

„1. gr. orðist svo:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Heimilt er að sameina Þeistareyki ehf. og Landsvirkjun með þeim hætti að Landsvirkjun taki yfir allar eignir, skuldir, réttindi, skuldbindingar og rekstur Þeistareykja ehf. frá og með 1. júlí 2013.

Ákvæði XIV. kafla laga um einkahlutafélög gilda um sameininguna að því marki sem við á. Þrátt fyrir skilyrði 51. og 54. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, gildir ákvæðið um sameiningu Þeistareykja ehf. og Landsvirkjunar þannig að samruninn hafi ekki í för með sér skattskyldu, hvorki fyrir Þeistareyki ehf. né Landsvirkjun.“

Þessi breyting er meðal annars gerð að fengnum ábendingum og að höfðu samráði við ríkisskattstjóra fyrir hönd fyrirtækjaskrár. Það er þá að bestu manna yfirsýn hafið yfir allan vafa að nægjanlegur skýrleiki er kominn á þessa frumvarpssmíð til þess að ekki eigi að vera neinn vafi á því að sameiningin geti átt sér stað og að ekki komi upp nein vandamál í sambandi við skattskil þegar af sameiningunni verður.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins, en undir nefndarálitið, dagsett 4. desember 2013, rita Steingrímur J. Sigfússon framsögumaður, Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Vilhjálmur Bjarnason og Pétur H. Blöndal með fyrirvara eins og áður sagði.