143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Atvinnuleysi varð heldur meira á þessu ári en áætlað var og núna er verið að greiða atkvæði um að atvinnulausir beri sjálfir þann kostnað. Það er verið að hafna því að greiða sérstaka desemberuppbót eins og gert hefur verið frá hruni.

Það eru um 6.600 manns án atvinnu sem ættu að fá ef áætlanir hefðu gengið eftir rúmar 50 þús. kr. Ég skil vel að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sé ekki í þeirri aðstöðu að styðja tillögu okkar fyrst hún er ekki einu sinni með þingmennina í salnum með sér, en ég tek undir orð hennar að þetta verði skoðað á milli umræðna og það verði tryggt hér að þeir sem eru með framfærslu sína af atvinnuleysistryggingum fái desemberuppbót eins og aðrir. Við í Samfylkingunni munum ekki liggja á liði okkar.