143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ekki hefur verið afgreidd tillaga um að greiða út desemberuppbót á atvinnuleysisbætur á þessu ári er sú að Atvinnuleysistryggingasjóður er tómur. Farið var í ýmis átök á þessu ári. Sjóðurinn hafði 17,3 milljarða til ráðstöfunar. Hann varði þeim í atvinnuleysisbætur með einum eða öðrum hætti, m.a. var ákveðið að fara í sérstakt atvinnuátak fyrir námsmenn. Það kostaði 250 milljónir. Nú er sjóðurinn í 150 milljóna mínus. Þessi ákvörðun mundi senda hann í mínus 400 milljónir. Peningurinn er ekki til. Við höfum sett 28 milljarða í vinnumarkaðsmál á þessu ári, í vinnumál, atvinnuleysismál og önnur, og yfir 100 milljarða á undanförnum árum. Þetta snýst ekkert um það hvort fólk er tilbúið til að gera vel við þá sem eiga um sárt að binda, eru að leita að atvinnu en finna ekki. (Gripið fram í: Víst.) Þetta snýst um að við vorum búin að ákveða hvaða fjármagn ætti að fara í málaflokkinn og fjármagnið er búið, um það snýst málið. Ef menn ætla alltaf að koma í lok árs (Forseti hringir.) og bæta við vegna þess að þeir vilja gera meira þá eru (Forseti hringir.) menn að tala fyrir agaleysi í ríkisfjármálum. (Gripið fram í.) (SII: … fjármálaráðherra.)