143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu sem við erum að fara að greiða atkvæði um er fjöldi verðlagshækkana á tekjur og gjöld sem koma að fjárlagafrumvarpi næsta árs. Það hefur komið fram að aðilar vinnumarkaðarins vara eindregið við miklum hækkunum hjá ríkinu og skora á opinbera aðila að halda að sér höndum í verðlagshækkunum. Þetta hefur mikil áhrif á komandi kjarasamninga sem eru opnir og komnir til ríkissáttasemjara. Reykjavíkurborg hefur sýnt gott fordæmi og fallið frá gjaldskrárhækkunum. Ég tel að ríkisvaldið eigi að hlusta á aðila vinnumarkaðarins því að þetta getur orðið til þess að erfitt verði að ná kjarasamningum og að slíkar hækkanir verði verðbólguhvetjandi og þannig haldi áfram sú víxlverkun launa og verðlags í þjóðfélaginu sem við þekkjum svo vel.