143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[11:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér kemur fram það, sem ég sagði í gær, að leiðrétting ríkisstjórnarinnar á eigin mistökum í fjáraukalögunum í gær fól ekki í sér neina stefnubreytingu. Hér er bara áframhaldandi niðurskurður á þeim framlögum sem ætluð voru og fyrirgreiðslu við rannsóknir, nýsköpun og þróun. Það er heldur hjákátlegt að heyra talsmann meiri hlutans, hv. þm. Pétur H. Blöndal, tala hér um að nú séu verðlagshækkanir á gjöldum allt í einu í lagi og nú allt í einu borgi sig ekki að láta atvinnulífinu í té skattaívilnanir. Árum saman höfum við heyrt að einmitt slíkar aðgerðir séu til þess fallnar að auka tekjur ríkissjóðs og bæta afkomu hans en ekki auka á hallann.