143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi Hamar þá erum við að leggja fram breytingartillögu á fjárlögum. Fjárlögin voru lögð fram án þess að sú framkvæmd væri inni. Verði tillagan samþykkt kallar það að sjálfsögðu á það að eitthvert framhald verði á því að ganga frá þeim lausu endum þannig að það geti náðst allt til enda. Það er þá verkefnið fram undan verði tillagan samþykkt. Það er rétt að fyrst þarf að fara í verkfræðiteikningarnar og ákveðinn kostnaður er við það. Þegar það er klárt er verkefnið komið á það stig að hægt er að fara að bjóða út og ég vona svo sannarlega að hægt verði að klára þann skóla á næstu árum vegna þess að við vitum hversu mikilvægt það er að efla verknámið. Á Suðurlandi er svo sannarlega ásókn í það og mikil þörf er á að bæta aðstöðuna.

Varðandi sameininguna á heilbrigðisstofnunum vitum við að það verkefni er mjög erfitt og viðkvæmt. En ég treysti því að heilbrigðisráðherra sem fer með þann málaflokk undirbúi þær sameiningar vel og ef hægt er að ná fram hagræðingu með því að breyta yfirstjórn þá finnst mér það svo miklu betri aðferð en að taka til á gólfinu, ef maður má orða það svo, vegna þess að starfsfólkið á staðnum mun vera áfram á staðnum. Spurningin er bara hvort hægt sé að ná fram hagræðingu varðandi yfirstjórnina, utanumhald og slíkt. Ráðherrann hefur sagt að það sé hægt. Auðvitað hlustum við á sjónarmið heimamanna og í einhverjum tilfellum kann að vera að endurskoða þurfi einhver af þeim áformum sem uppi eru. En ég trúi því að þetta sé hægt og ég trúi því að það sé alltaf best að fara fyrst í efsta lagið og vinna sig svo niður.