143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek undir að auðvitað er alltaf betra að fara í efri lögin frekar en á gólfið en þetta hefur kannski tengst svolítið því að starfsfólkið, eins og hjúkrunarfræðingar og aðrir, eigi að fara á milli. Sumt hefur verið gert á þeim stöðum þar sem aðgangur er greiðari en annars staðar hefur þetta verið erfiðara.

Mig langar að spyrja hv. þingmann líka um annað af því að hún sat með okkur, eins og hún kom inn á í ræðu sinni, nokkra fundi í fjárlaganefnd, þ.e. með það að færa á milli óskyldra liða, hvað henni þyki um þá tillögu að flytja 50 millj. kr. úr Hafnabótasjóði yfir í hælisleitendur, sem auðvitað þarfnast fjár, en að sama skapi hafa sveitarfélögin líka kvartað mjög mikið yfir hafnarframkvæmdum.

Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann, af því að hún ræddi við annan þingmann um tekjuáætlun ríkissjóðs, hvort hún sé ekki sammála því sem ég ræddi um í gærkvöldi — hún sat í þingsalnum og hlustaði — hvað varðar Tækniþróunarsjóð, að þeir skila okkur tugum milljarða til baka aftur en þar er verið að skera svolítið hressilega niður, að það sé ekki góð ákvörðun.