143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. En ég vil jafnframt spyrja, af því að mér heyrðist hv. þingmaður segja eins og það hefði verið möguleiki, að ef stjórnarmeirihlutinn hefði ekki samþykkt breytingar á veiðigjaldinu hefði ríkissjóður orðið af mörgum milljörðum. Ég skildi hv. þingmann þannig að það hefði verið einhver möguleiki en ég trúi því nú varla. Mig langar til að hv. þingmaður rifji upp með mér hvernig lögin um veiðileyfagjaldið voru sett upp og hvaða tæknilegu vandamál þar voru á ferðinni.

Það var einmitt nefndin sem átti að reikna út veiðileyfagjaldið sem hafði ekki heimildir í lögum til að ná í þær upplýsingar sem til þurfti til að reikna út veiðileyfagjaldið, sem var þannig hugsað: Það er einhver ákveðinn arður sem fyrirtækin fá, það var meira að segja reiknað með að hann væri ríflegur, 10%, ef ég man rétt, frekar en 8%, og síðan yrði horft á þann umframarð sem skapaðist vegna sérleyfisins á auðlindum þjóðarinnar og þeim arði yrði síðan skipt á milli þeirra sem hafa sérleyfið og ríkissjóðs fyrir hönd eigenda auðlindarinnar. Það sem þurfti þá að gera á sumarþinginu var að veita nefndinni heimildir til að afla þeirra upplýsinga.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta sé ekki rétt og hvort það hafi í raun verið nauðsynlegt að nota ferðina til þess að lækka gjaldið um alls 9,6 milljarða og þar af 6,4 milljarða á árinu 2014 (Forseti hringir.) og hvort sú lækkun hafi ekki haft áhrif á forgangsröðun í ríkisfjármálum.