143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þörf og góð spurning og mikilvæg. Ég hef heyrt þetta líka, að reiknilíkönin taki sinn tíma í það að breytast. Ég held að það sé vegna þess að það er bara ekki nógu margt fólk að krukka í þau. Ef fólk er að krukka í þau er það væntanlega fólk sem við erum að borga úr ríkissjóði laun til að krukka í þau sem þýðir að við, Alþingi eða ríkisstjórn, þurfum að ákveða að krukka skuli í þau.

Nýlega var til dæmis háttvirtur Menntaskólinn í Reykjavík afskaplega óánægður með fjárframlögin sem komu til hans og hann reyndi að krukka í þau. Hann hefði haft tækifæri til þess og þarna voru margir ungir, snjallir krakkar, ég get lofað því að þar voru forritarar þeirra á meðal og áhugasamt fólk, ekki endilega forritarar heldur fólk sem hefur gaman af því að skoða hluti, bara forvitið fólk, með tíma, áhuga og ástæðu. Ef það hefði haft tækifæri og betra tækifæri er ég sannfærður um að það hefði komið með hugmyndir um betrumbætur.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, það þarf alltaf að endurskoða svona líkön. Þetta eru jú vélheilar í raun og veru og koma ekki í stað gildismats, koma ekki í stað dómgreindar manneskju. Það verður aldrei, vonandi ekki. Þess heldur er mikilvægt að við höfum nóg af fólki með dómgreind og skilning til að vera sífellt að endurskoða líkönin. Ef þau eru bara aðgengileg þeim sem vinna með þau er næstum því öruggt að mínu mati, jafnvel hjá einkaaðilum hugsanlega, að þau sitji bara eftir og uppfærist ekki í takt við tímann. Því mikilvægara er að opna þau eftir fremstu getu og leggja fókus í að gera þau gegnsærri og aðgengilegri almenningi.

Það er einn lokapunktur um gegnsæi sem mig langar að benda á sem er sá að gegnsæi kemur ekki sjálfkrafa. Það er ekki eins og ríkið hafi fyrir því að fela gögnin, það kostar vinnu og tíma að gera hlutina gegnsæja, þess vegna þurfum við að setja fókus á það til þess að af því verði. Það þarf enga spillingu, það er nóg að gera ekki neitt.