143. löggjafarþing — 36. fundur,  13. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ræða þetta tvískipt, annars vegar virðisaukaskattsmál ferðaþjónustunnar sem slíkrar sem stokka þarf upp algerlega eins og þau leggja sig. Ég komst bara ekki í allt hér á árunum en það var svo sannarlega ekki vegna þess að ég vissi ekki um þörfina fyrir það. Þetta er ómögulegt ástand í dag þegar menn skila reikningum þar sem þrjú virðisaukaskattsþrep koma við sögu. Það er þannig að fólksflutningar eru undanþegnir virðisaukaskatti hjá okkur sem leiðir til þess að jöklaferðir, hestaferðir, hvalaskoðunarferðir eru á 0% virðisaukaskatti. Svo kemur maturinn og veitingaþjónustan með 7% og svo kannski eitthvað annað með 25,5%. Svo skila menn samsettum reikningi, og hvar ímyndið þið ykkur að látið sé líta út fyrir að aðalverðið liggi?

Það er því vandamál þarna og þetta þarf að stokka upp. Það held ég að allir viðurkenni.

Svo er það stóra dæmið. Já, að mörgu leyti væri æskilegt að komast í eitt þrep. Við gætum sennilega farið þá með virðisaukaskatt niður undir eða verið með hann um eða rétt við 20%, en það er óhjákvæmilegt að fara í umtalsverðar millifærsluaðgerðir til mótvægis (Forseti hringir.) vegna hækkunar matvæla og þeirra hluta til að það komi ekki sem högg á lífskjör tekjulægri fjölskyldna. Það er flókin aðgerð, (Forseti hringir.) það hefur veruleg verðlags- og félagsleg áhrif eða tengingar sem þarf að huga að.