143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hlý orð frá hv. þingmanni. En hvort eitthvað í frumvarpinu og þeim breytingartillögum sem hafa komið fram bæti stöðu þeirra sem minnst mega sín, þá verð ég því miður að segja að svarið er nei. Þeir eru greinilega skildir eftir vegna þess að það er talin meiri ástæða til að rétta aðra hópa. Menn verða bara að horfast í augu við það.

Ég er algjörlega ósammála því. Það sem ég tel mikilvægt að gera og er þegar í undirbúningi er að við reynum að ná þverpólitískri samstöðu um að berjast gegn fátækt. Það var unnin gríðarlega góð skýrsla árið 2012 sem hét Farsæld. Baráttan gegn fátækt á Íslandi. Í henni voru góðar hugmyndir um að breyta hugarfari þjóðarinnar gagnvart þeim sem eru fátækir. Það er alltaf eins og það sé eitthvert sjálfskaparvíti. Það er ekki alltaf þannig, það eru viðhorfin í samfélaginu sem dæma fólk til hliðar í samfélaginu. Því þurfum við að breyta.

Við þurfum líka að fara ofar með lægstu kjör í landinu. Þess vegna verður að styðja verkalýðshreyfinguna í því að það komi krónutöluhækkanir á lægstu laun. Við í Samfylkingunni erum með sérstaka púllíu upp á 4 milljarða til að vinna í þeim málum sérstaklega og finna leiðir til þess að bæta kjör þessa hóps.