143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (frh.):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda hér áfram með ræðu mína við 2. umr. fjárlaga fyrir 2014. Ég var búin að fara yfir almennt um ríkisfjármál, tillögur Samfylkingarinnar og átti eftir að fara yfir tillögur meiri hlutans fyrir 2. umr. Ég hef leyft mér að orða það svo að meiri hlutinn í þinginu sé í stríði við stjórnsýsluna, Ríkisútvarpið, þróunarsamvinnu og landsbyggðina og svo við tölum nú ekki um listir og menningu sem virðist vera sérstakt áhyggjuefni núverandi ríkisstjórnar.

Þetta eru náttúrlega miklir pappírar sem fylgja í þessum umræðum. Ég er hérna með skýringar við breytingartillögurnar og er að hugsa um að fletta í gegnum þær og fara yfir helstu þætti sem valda mér áhyggjum og sem mér finnst vanta skýringar á, bæði frá formanni hv. fjárlaganefndar en ekki síður hæstv. ráðherrum og ítarlegri lýsingar á hvernig þeir ætla að ná þeim markmiðum sem hér eru sett fram.

Til að gæta sanngirni, herra forseti, eru sumar af þessum tillögum sannarlega til bóta, ekki síst hvað varðar heilbrigðiskerfið. Ég tel þó nauðsynlegt, vegna þess að þetta eru mjög umfangsmiklar breytingar, að velferðarnefnd fái kynningu á því hvernig þetta eigi að fara fram. Við munum reyna að sjá til þess að fyrir 3. umr. séum við búin að fá heilsteypt yfirlit yfir það enda eru þarna ekki bara Landspítalinn og FSA undir heldur ótal heilbrigðisstofnanir um allt land, sameiningaráform og fleira. Ég lýsi sem sagt yfir ánægju með að verið sé að bæta í, þó að ég hefði viljað sjá meira, og ég held að það sé mikilvægt fyrir velferðarnefnd að fá yfirlit yfir hvaða áhrif þetta hefur og hvernig þessu er ætlað að virka og veit ég að það verður ekkert vesen í velferðarnefnd út af því.

Það sem vekur athygli er að meiri hluti fjárlaganefndar kemur fram með þá ákvörðun um miðjan desember að skera niður í stjórnsýslunni, í ráðuneytum ríkisins, herra forseti, um 5% til viðbótar við þann niðurskurð sem áætlaður var. Nú er það svo að við erum að koma út úr fjögurra ára erfiðu tímabili og þetta eru sjöttu fjárlögin, ég held að það sé rétt hjá mér, þar sem gerð er aðhalds- og niðurskurðarkrafa. Á yfirstandandi ári var reyndar engin aðhaldskrafa í heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum en ráðuneytin hafa sannarlega verið sameinuð og endurskipulögð. Ég er ekki með nákvæma tölfræði hér, herra forseti, yfir niðurskurð í stjórnsýslunni en hv. þm. Guðbjartur Hannesson sem var velferðarráðherra á síðasta kjörtímabili, ég hef orð hans fyrir mér í þessu, taldi að um 20% niðurskurður hefði farið fram í sameinuðu heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti frá hruni.

Nú vil ég leyfa mér að fullyrða að í þessum ráðuneytum hafi fyrir hrun ekki viðgengist eitthvert sérstakt bruðl. Vel má vera að það hafi mátt skipuleggja starfið betur og hagræða í rekstri, því að það er yfirleitt hægt að gera. Ríkisstjórnin fyrrverandi ákvað í hagræðingarskyni að breyta einmitt skipan ráðuneyta en meginmarkmið þeirra breytinga höfðu þó ekki með fjármuni að gera heldur skipulag vinnunnar. Það taldist eðlilegt og er almennt talið mikilvægt t.d. að heilbrigðis- og félagsmálin séu í einu ráðuneyti enda eru snertifletir þessara málaflokka svo fjölmargir. Sama má segja um atvinnuvegaráðuneyti sem gefur tækifæri til markvissari atvinnustefnu. Það hefur verið vandi hér á landi að ekki hefur verið heildstæð stefna í atvinnumálum, heldur fyrirgreiðsla ef svo má segja við einstakar atvinnugreinar. Þessu breytti fyrri ríkisstjórn. En nú kemur hér viðbótarkrafa upp á 5%.

Herra forseti. Nú á maður að gæta orða sinna og vera ekki með ofsafengnar yfirlýsingar, en mér finnst þetta gefa í skyn að fólk kunni ekki alveg að fara með vald sitt. Fjárveitingavald gefur gríðarlegt vald. Það að geta deilt út fé og ákvarðað hvernig eigi að nota það gefur gríðarleg völd. Og þegar þú hefur mikil völd þarftu að fara vel með valdið. Því má ekki misbeita til þess að ná fram þröngum hagsmunum, því má ekki misbeita til þess að senda skilaboð. Ég tel að 5% niðurskurður á ráðuneytin, ekki í fjárlagafrumvarpinu heldur í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar fyrir 2. umr, séu ógeðfelld skilaboð út í stjórnsýsluna.

Til dæmis hér í dag, herra forseti, er enginn af ráðherrunum viðstaddur umræðuna. Þeir voru hér í góðum umræðum við 1. umr. (Gripið fram í: Velferðarráðherra er í húsinu.) — Það er gott, það væri ágætt að fá félags- og húsnæðismálaráðherra í salinn. Það væri sök sér ef þetta hefði verið ákveðið í aðdraganda fjárlagagerðarinnar og þetta hefði verið niðurstaða sem fólk var búið undir, en hvaða verkefni eru það sem mega víkja? Þetta er 1/20 af rekstrarfé ráðuneytanna sem hafa verið undir strangri aðhaldskröfu um árabil, hafa verið að hagræða vegna hagræðingarkröfunnar sem kom fram í fjárlagafrumvarpinu. Ég endurtek, herra forseti, að að sjálfsögðu eru ráðuneytin ekki undanþegin niðurskurði frekar en aðrar stofnanir. En þegar tekin er geðþóttaákvörðun korteri fyrir áramót um niðurskurðarkröfu upp á 1/20 af rekstrarfé ráðuneyta læðist að manni sá grunur að hér sé verið að senda út skilaboð í stjórnsýsluna og verið að misbeita því valdi sem felst í fjárveitingavaldinu.

Það skiptir máli að ráðherrarnir gefi okkur upplýsingar um hvernig þeir ætla að ná fram þessum niðurskurði, hvaða verkefni verða látin víkja og hversu mörgum þarf að segja upp. Stjórnsýslan, ráðuneytin eru tæki okkar til þess að ná fram markmiðum sem sett eru og ákvörðunum sem teknar eru með lagasetningu á Alþingi og þingsályktunum. Nú tökum við okkar helstu tæki og ætlum að skera þau niður með mjög einkennilegum hætti, með geðþóttaákvörðun við 2. umr. fjárlaga.

En forsetinn á ekki að sæta þessu, því að hér kemur fram að það hefur verið skorið niður hjá honum frá hruni og hann á bara að fá það bætt. Það þarf að bæta forsetaembættinu þetta upp, annað er ekki hægt. Þetta er líka áhugaverð áhersla. Hann þarf náttúrlega að fara í opinberar heimsóknir sem hann þurfti að fresta. Þetta er náttúrlega hlægilegt og fyndið, herra forseti, en þetta er ógeðfellt þegar maður hugsar það dýpra.

Nú verður þetta svolítið brotakennt af því að ég er að fletta í gegnum tillögurnar, en ég er búin að fara dálítið yfir stjórnsýsluna. Annað sem vekur athygli er að þeir vaxtarbroddar sem höfðu ekki þegar verið skornir í fjárlagafrumvarpinu eru teknir hér. Atvinnuuppbygging og fjölgun vistvænna starfa — burt. Það er ekki þörf á slíku. Svo er haldið áfram að skera í RÚV. Hv. formaður fjárlaganefndar var nú búinn að senda RÚV tóninn og hóf síðan grimman niðurskurð á þeirri stofnun, enda hvað er annað að gera þegar þú ert með óljósa stefnu — það má helst greina andvaxtarstefnu — og almennan yfirgang og flumbrugang en að veikja aflið sem á að veita þér lýðræðislegt aðhald. Auðvitað gerir maður það. Þú vilt ekki vera spurð óþægilegra spurninga, herra forseti. Þú vilt ekki svara fyrir aðgerðir sem þú getur ekki rökstutt. Þá bara hótarðu smávegis og svo skerðu niður. Og svo er bara haldið áfram og sagt: Af því að féð á að fara í háskólastarfsemi. Við fáum reyndar ekkert að vita í hvaða starfsemi, það er bara sagt að framlag ríkisins á hvern nemanda á háskólastigi sé minna og það sé alvarlegt mál. Ég er sammála því að auka þurfi fjárveitingar til háskólastigsins og það þarf að gera á grundvelli áætlana, það þarf bara að setja þær fram. Við erum með ýmsa málaflokka og við þurfum að leggja fram áætlanir og finna út úr því hvernig við getum veitt fjármagn til þeirra. Og við þurfum líka að endurskipuleggja ýmsa hluti.

Meiri hlutinn lagði fram einhverja áætlun í þeim efnum og mikið af því byggir á vinnu fyrri ríkisstjórnar, sumt er nýtt og annað er óskhyggja, en við þurfum alltaf í rekstri apparats eins og ríkisins að vera tilbúin til að endurskoða. En ef við tökum ákvarðanir um að taka fé af stofnunum umfram það sem málefnalegt getur talist verður það að byggja á alvörustefnumótun og markmiðssetningu. Hérna er litla Ríkisútvarpið, 215 milljónir í niðurskurð til viðbótar.

Svo kemur að niðurskurði í þróunarsamvinnu og þróunaraðstoð. Eins og kom fram þegar ég ræddi tillögur Samfylkingarinnar leggjum við til aukningu í þennan málaflokk í samræmi við samhljóma ákvörðun Alþingis. Það var einn þingmaður á móti, hv. formaður fjárlaganefndar. Ég ætla að lesa þetta, herra forseti, því að þetta er ekki skemmtilegt.

Hér er lagt til að Þróunarsamvinnustofnun Íslands verði skorin niður um 9,2 milljónir og þróunaraðstoð stofnunarinnar um 174,8 milljónir. Undir liðnum Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi er skorið niður um 3,4 milljónir hjá FAO, Háskólar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi skornir niður um 81,3 milljónir, UNDP, það er mannfjöldasjóðurinn, tekur á sig 5,3 milljónir, UNICEF 21,7 milljónir og UN Women sömuleiðis um 21,7 milljónir, Allt saman stofnanir sem ég heimsótti í New York í haust. Ég skammast mín að þetta séu tillögur frá Íslandi. (Gripið fram í: Já?) Hér er 32,5 milljóna niðurskurður til mannúðarmála og neyðaraðstoðar, 22 milljónir til Alþjóðabankans, 10 milljónir skornar niður í umhverfis- og loftslagsmálum, 34,3 milljónir í samstarf við frjáls félagasamtök, 24,3 í íslenska friðargæslu, 19,5 í þróunarmál og hjálparstarfsemi. En við ætlum að auka fjárveitingar í markaðssetningu á íslenskum matvælum á erlendri grundu upp á 18 milljónir.

Við vorum nokkrir hv. þingmenn úr Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu sem höfðum það tækifæri að heimsækja Sameinuðu þjóðirnar í haust. Þar heimsóttum við m.a. UN Women og UNICEF. UN Women er talin hafa þriðju öflugustu deild í heimi hér á landi fyrir metnaðarfullt starf og UNICEF þekkja allir. Við vorum verulega stolt af því að vera Íslendingar þegar við heimsóttum þessar stofnanir. UNDP, þar sem við skerum niður 5,3 milljónir, nýtir þessa fjármuni til þess að aðstoða konur með svokallaða fistula þegar þær verða fyrir skaða í kynfærum og þvagfærum við fæðingar á börnum. En við ætlum að skera þá fjármuni niður (Forseti hringir.) og nota kannski í markaðssetningu á matvælum erlendis.

Virðulegi forseti. Ég mun þurfa að setja mig aftur á mælendaskrá því að ég hef á engan hátt (Forseti hringir.) lokið máli mínu um þetta.