143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðuna þó að hún hafi verið nokkuð brotakennd og ruglingsleg á köflum. Eitt mátti þó hv. þingmaður eiga, síðasti hluti ræðunnar var nánast samhljóða ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem hann flutti hér í gærkvöldi. Þar sem þingmaðurinn fór svo hörðum orðum um þá aðgerð ríkisstjórnarinnar að draga saman í þróunaraðstoð — og hún sagðist skammast sín, virðulegi forseti, fyrir þennan lið í fjárlögunum — vil ég benda hv. þingmanni á að hér er verið að draga saman þróunaraðstoð og framlög Íslands nema nú, samkvæmt þessum tillögum, 0,23% af vergum þjóðartekjum.

Virðulegi forseti. Þessi sami þingmaður átti aðild að ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili. Árin 2011 og 2012 voru framlög til þróunarmála hjá vinstri ríkisstjórninni, velferðarríkisstjórninni, 0,21%. Skammaðist þingmaðurinn sín þá? Það þýðir ekkert að segja að það gangi eitthvað betur hér því að við erum að notast við sama mælikvarða og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili, prósentutölu af vergum þjóðartekjum.

Virðulegi forseti. Það er nefnilega svo að oft bítur sannleikurinn í skottið á þeim sem fer illa með hann.