143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:53]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðu hennar þó að hún sé ekki alveg búin, ég veit að hún getur talað lengi. Ég vil líka þakka henni fyrir samstarfið í velferðarnefnd. Ég verð ekki var við þennan stóra mun þar á því hvort við erum til hægri eða vinstri. Ég veit ekki betur en að við séum öll að vinna þar af heilum hug að öllum þeim velferðarmálum sem þangað koma inn.

Mér finnst þessi breytingartillaga líkjast jólabókaóskalista barnanna. Hingað kemur listi upp á 15,5 milljarða. Oft er talað um forgangsröðun. Ef við erum að tala um að forgangsraða þá hefði ég viljað sjá einhvers staðar hérna að Samfylkingin legði til einhverja skerðingu, einhverja aðhaldssemi. Það er voðalega gaman og gott að koma með lista upp á einhverja milljarða, myndlistarsjóður 40 milljónir, Miðstöð íslenskra bókmennta 40 milljónir, tónlistarsjóður 30 milljónir og svo er talið upp í milljörðum hérna þannig að þetta er orðin keppni um hvort það verða 3, 4 eða 5 milljarðar.

Ég spyr því: Hvar er forgangsröðunin? Á bara að bæta í? 15 milljarða óskalisti.