143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ýmislegt áhugavert í ræðu hv. þingmanns. Ég er sérstaklega að velta fyrir mér þessari desemberuppbót sem við höfum verið að ræða hérna. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum vissulega að veita hana. Ég átti í svolitlum vandræðum með það fyrst vegna þess að á sama tíma heldur alltaf í mann að staða ríkissjóðs er algjörlega bölvanleg þrátt fyrir gott framtak fyrri ríkisstjórnar til að reyna að laga það og að hún hafi unnið marga sigra þar. Einhvern veginn hafði ég það hreinlega samt ekki í mér að taka af fólki það að geta tekið þátt í jólunum.

Ég er ekki sérstaklega kristinn maður en mér þykir ægilega vænt um jólin vegna þess að þetta er eini tími ársins þar sem við sleppum okkur einhvern veginn í góðmennsku. Ef maður ætlar að fara að líta á þetta eins og tölva eða einhvers konar últra rökhyggjumaður væri þetta kannski ekki allt æðislega rökrétt. Það er heldur ekki punkturinn, heldur snýst það um að hugsa aðeins með hjartanu af og til, a.m.k. einu sinni ári. Manni finnst það ekki til of mikils ætlast.

Þetta er fyrsta atkvæðagreiðslan þar sem ég hef raunverulega orðið sorgmæddur yfir niðurstöðunni og þó var ég viðstaddur atkvæðagreiðsluna í hagstofumálinu í sumar. Það tók á, en þetta var alveg ægilegt.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann vegna desemberuppbótarinnar. Ég hitti háttvirtan mótmælanda fyrir utan um daginn sem sagðist hafa fengið 3 þús. kr. í desemberuppbót og sagði að öryrkjar fengju þetta. Ég var að velta fyrir mér hver hefðin væri í þessum efnum, hverjar upphæðirnar hefðu verið og hvenær hefði verið tekið upp á þessu.

Er það eitthvert nýmæli að við veitum atvinnulausum eða öryrkjum ekki desemberuppbót? Hvernig hefur þessu verið háttað í gegnum tíðina?