143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og tek undir með síðustu tveimur hv. þingmönnum um mikilvægi þess að stjórnvöld hverfi frá því að veita atvinnuleitendum ekki desemberuppbót. Ég held að það sé enginn bragur á því að Alþingi Íslendinga skilji við fjáraukalögin með þeim hætti á þessu þingi.

Það eru ekki bara atvinnuleitendurnir, það er líka verið að skrúfa skattana upp á skrýtnum stöðum. Það er verið að leggja á sjúklingaskatta á meðan tækifæri er til þess að lækka skattana á fólk í hátekjuþrepi og sömuleiðis er verið að auka skattheimtu af háskólanemendum án þess þó að það skili sér í skólakerfið.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um innritunargjöldin á spítalana sem hann nefndi vegna þess að ein af röksemdunum fyrir því að ekki hafa verið tekin gjöld af fólki sem lagt er inn á spítala hefur verið sú að stundum er það ákvörðun annars en sjúklingsins þannig að hann tekur ekki sjálfur ákvörðun um að stofna til þessara útgjalda. Hvernig sjá menn það fyrir sér þegar læknirinn hefur tekið ákvörðunina, verður þá sjúklingurinn samt rukkaður? Hvernig verður það ef sjúklingurinn er í þannig ástandi við innlögn á spítala, á þá að spyrja hann hvort hann fallist á að greiða innritunargjaldið? Sér hv. þingmaður fyrir sér að því verði í veruleikanum, í hversdeginum, í framkvæmdinni yfir höfuð við komið eða munu menn bíða við sjúkrabílinn og athuga hvort sjúklingar séu með kreditkort eða hvernig er þetta eiginlega hugsað?