143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi í ræðu minni fjalla um fjárlagafrumvarpið eins og það stendur nú í 2. umr. og er vert að taka fram í upphafi að frumvarpið er lítt þekkjanlegt frá því sem það var þegar það var lagt fram hér í haust og virðist sem svo að verkleysi þessarar ríkisstjórnar sé svo við brugðið að þó að hún hafi fengið viðbótarfrest til að skila fjárlagafrumvarpi sem nemur þremur heilum vikum í haust umfram það sem venja er til hefur það ekki dugað henni til að leggja heilsteypt fjárlagafrumvarp fram 1. október.

Það var tímamótastund í kjölfar umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á fyrsta degi þings þegar forsætisráðherra sat með mér í viðtali eftir tíufréttir sjónvarps og hrökk til baka með helstu þætti fjárlagafrumvarpsins og afneitaði þeim í beinni útsendingu áður en búið var að mæla fyrir fjárlagafrumvarpinu. Slíkt hefur aldrei áður gerst í íslenskri stjórnmálasögu. Þess vegna kemur það manni ekki á óvart að gerðar séu einhverjar breytingar á fjárlagafrumvarpinu en þær eru þó ekki slíkar að afurðin verði fegurri.

Mig langar líka að kynna tillögur okkar samfylkingarmanna um breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Þar erum við með fjölþættar breytingartillögur sem ég mun rekja hér. En áður en lengra er haldið langar mig að víkja örlítið að desemberuppbótinni, hún hefur verið rædd hér nokkuð oft. Það er með ólíkindum að sjá það hjartalag og þá lyndiseinkunn sem lýsir sér hjá stjórnarliðum með því að fella tillögu um desemberuppbót til atvinnulausra í atkvæðagreiðslu fyrr í vikunni. Vegna þess að bakgrunnur þessa máls var umræðuefni í andsvörum milli hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Helga Hrafns Gunnarssonar hér áðan vildi ég upplýsa um og minna á að þar sem desemberuppbót er ekki lögákveðin fyrir atvinnulaust fólk kemur það sjónarmið alltaf upp við lok árs hvort atvinnulausir eigi ekki að njóta jafnstöðu á við aðra á vinnumarkaði og bótaþega að þessu leyti. Það var ekkert sérstakt vandamál þegar atvinnuleysi var agnarlítið hér á velsældarárunum. En þegar við stóðum í fyrsta sinn frammi fyrir því vandamáli haustið 2009 ákváðum við að finna fé til að greiða út desemberuppbót.

Vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra skattyrtist við mig í vikunni og kallaði fram í að þá hefðum við nú tekið lán fyrir því þá verður að segjast alveg eins og er að við gerðum það, já, rétt eins og við tókum lán fyrir helmingnum af ríkisrekstrinum, slík var staðan. Það var alveg eins hægt að halda því fram að ekki væru til peningar til þess að greiða markaðsgjald til Útflutningsráðs eða leggja peninga í Fjármálaeftirlitið eða hvað eina annað í ríkisrekstrinum. Það voru enginn sérstök efnisrök til þess að segja að þetta velferðarmál væri ekki hægt að fjármagna fremur en alla aðra þætti ríkisrekstrarins sem voru líka að stórum hluta fjármagnaðir með lántöku. Slíkur er einfaldlega veruleiki ríkisstjórnar sem býr við þær aðstæður sem þá voru. Mér finnst alltaf best að taka dæmi af heimilishaldi til þess að koma með líkingu sem allir skilja; staðan sem við vorum í haustið 2009 var áþekk því að vera með heimili með útgjöld upp á 500 þús. kr. og tekjur upp á 300 þús. kr. Það heimili verður auðvitað að lifa á yfirdrætti, það verður að stofna til skulda og draga saman í útgjöldum. Það tók nokkur ár að ná árangri í niðurskurðinum og í tekjuaukningu til þess að brúa þetta bil.

Ég vil þess vegna segja að það er mjög mikilvægt að okkur takist að berja hér stjórnarflokkana til hlýðni í því að ná fram desemberuppbót í þetta sinn. Það eru engin efnisrök fyrir því þegar djarfar fyrir jöfnuði í ríkisfjármálum vegna erfiðra ákvarðana á yfirstandandi kjörtímabili að þá skuli menn virkilega ákveða að nú fyrst séu ekki til peningar til þess að greiða desemberuppbót fyrir atvinnulausa. Það er þvert á móti þannig að það ætti frekar að vera svigrúm til þess núna en það var 2009, 2010, 2011 og 2012. Við fundum svigrúmið þá, það hlýtur að vera hægt að finna það núna, því að ekki er sorfið svo að öllum óþarfa í þessu fjárlagafrumvarpi að ekki sé mögulegt að finna þar svigrúm. Það er ekki heldur svo að þrautnýttir séu allir þeir tekjustofnar sem réttlætanlegt er að sækja fé í að ekki sé hægt að afla fjár í þetta verkefni. Bara svo eitt dæmi sé tekið þá þarf ekki að hækka bankaskattinn sem ríkisstjórnin hækkar hér um tugi milljarða og ekki sér fyrir endann á, við vitum ekki einu sinni hvað ríkisstjórnin ætlar að hafa hann háan þegar hann verður lagður að fullu á. Það þyrfti ekki að breyta álagningarprósentu hans nema um fimmta aukastaf og líklega hálfan fimmta aukastaf til þess að afla fjár í þetta verkefni.

Virðulegi forseti. Aðalefni ræðu minnar hugðist ég hafa tillögur okkar samfylkingarmanna um breytingar á fjárlagafrumvarpinu og tengdum frumvörpum. Við leggjum fram heildstæðar tillögur í þinginu nú og munum leggja þær fram eftir því sem mál afgreiðast úr nefndum um viðbótarútgjöld upp á rúma 15 milljarða og tekjuöflun upp á tæpa 15 milljarða. Til viðbótar því gerum við ráð fyrir að okkur nýtist með sama hætti og ríkisstjórninni þær viðbótartekjur sem nú er gert ráð fyrir vegna betri efnahagshorfa. Tillögur okkar munu því ekki auka á fjárlagahallann, þær munu tryggja sanngjarnari skiptingu landsins gæða en tillögur ríkisstjórnarinnar.

Í fyrsta lagi leggjum við áherslu á að bæta kjörin og að tryggja venjulegu launafólki og lágtekjufólki betri aðstæður en gert er ráð fyrir í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir. Í fyrsta lagi viljum við að skattalækkun til fólks á meðaltekjum verði útfærð með öðrum og skynsamlegri hætti en ríkisstjórnin leggur til í fjárlagafrumvarpi og tekjufrumvörpum. Eins og kunnugt er hefur ríkisstjórnin lagt til 0,8% lækkun á skatti í miðþrepi. Sú breyting mun skipta fólk litlu máli meðan það er á lágum tekjum. Það er lækkun upp á 500 kr. fyrir þá sem eru með 330 þús. kr., það er lækkun upp á 1 þús. kr. fyrir fólk með 400 þús. kr. en það er lækkun upp á yfir 4 þús. kr. þegar menn eru komnir með yfir 770 þúsund.

Tillaga okkar er að hafa skiptinguna skynsamlegri, að verja þessu fé — við erum sammála ríkisstjórninni um að það er mikilvægt að mæta þörfum millitekjuhópa og það skiptir máli að létta á skattbyrði millitekjuhópanna. En tillaga okkar er sú að nýta þessa 5 milljarða frekar í það að hækka upphafsþrep millitekjuskattþrepsins úr 250 þús. kr. í 350 þús. kr. Sú breyting mundi valda því að fólk mundi mjög hratt hagnast mikið eftir 250 þús. kr., fólk með rétt 255 þúsund fengi 500, fólk með 350 þúsund fengi fulla 2.700 kr. viðbót en síðan ekki söguna meir. Allir með 250 þús. kr. til 600 þús. kr. mundu fá meira út úr þessari breytingu en með útfærslu ríkisstjórnarinnar.

Með þessu værum við líka að festa í sessi fjölþrepaskattkerfi, en við í Samfylkingunni erum bjargfastlega þeirrar skoðunar að það skipti miklu máli að hafa fjölþrepaskattkerfi. Núna er upphafsþrep miðjuskattþrepsins rétt tæpar 250 þús. kr. en lægstu laun í landinu eru rétt röskar 200 þús. kr. þannig að fólk á mjög lágum tekjum borgar í dag skatt í millitekjuþrepi. Það er óásættanlegt. Ef við viljum halda í sessi og verja fjölþrepaskattkerfi skiptir máli að millitekjuþrepið hækki, að upphafsfjárhæðir þess hækki. Það eru samkvæmt okkar breytingartillögu einungis 25% tekjuhæstu einstaklinganna sem munu fara verr út úr þessari breytingu þannig að þorri almenns launafólks mun hagnast á þessu.

Við leggjum líka til að fallið verði frá öllum gjaldskrárhækkunum í samræmi við frumkvæði fulltrúa Samfylkingarinnar í sveitarstjórnum um allt land. Reykjavíkurborg hefur gengið á undan með góðu fordæmi og kynnt áform um að falla frá öllum gjaldskrárhækkunum. Við höfum lagt á það áherslu í Samfylkingunni vítt og breitt um landið að fylgja því eftir sem kostur er. Við fluttum tillögu um sama efni í bæjarstjórn Kópavogs sem var samþykkt og í Hafnarfirði hefur verið forgangsraðað í þágu barnafjölskyldna og þannig mætti lengi telja.

Það er vissulega sjónarmið að það sé eðlilegt að verðbæta almennt gjaldskrár ríkisins og það er alveg rétt sem bent hefur verið á að það var óheppilegt þegar við tókum hér við í kjölfar hruns að gjaldskrár höfðu ekki verið verðbættar frá aldamótum vegna þess að það var bara svo mikið góðæri að það hafði enginn haft fyrir því að gera það árum saman. En alveg með sama hætti er það ekki eðlilegt að jafnaði að hækka gjaldskrár miðað við vænta verðbólgu á komandi ári. Á næsta ári er gert ráð fyrir samkvæmt verðbólguspá fjárlagafrumvarpsins 3,8% verðbólgu. Ríkið hyggst í samræmi við það hækka sínar verðskrár um 3,8%. En spá um 3,8% verðbólgu er ekki byggð á því að allir hækki um 3,8%. Hún er auðvitað byggð á því að sumt hækki meira af óviðráðanlegum ástæðum og vonandi eitthvað annað um minna. Ef ríkið og sveitarfélög, sem hafa að jafnaði áhrif á upp undir helming hagkerfisins, byrja á að taka til sín 3,8% hækkun þá verður vegið meðaltal hækkana alveg örugglega meira en 3,8%. Þess vegna skiptir það svo miklu máli að halda aftur af þessari þróun. Þess vegna er það skynsamlegasta aðgerðin fyrir okkur núna í þágu lágtekjufólks að draga úr álögum með því að frysta gjaldskrár. Við greiðum líka fyrir gerð kjarasamninga með því, aðilar vinnumarkaðarins kalla eftir frumkvæði í þessa veru og það er auðvitað mikilvægt að halda aftur af verðþenslu núna, ýmsar blikur eru á lofti og greiningaraðilar hafa áhyggjur af skuldatillögum ríkisstjórnarinnar og ýmsu öðru í því efni.

Látum það liggja á milli hluta hvaða áhrif skuldatillögurnar munu hafa, en í ljósi viðvörunarorðanna, í ljósi þess að við erum föst í höftum er alveg örugglega skynsamlegt að gera allt sem við mögulega getum til að halda aftur af verðþrýstingi. Og ef verðbólguspáin er 3,8%, ríkið og þorri sveitarfélaga heldur að sér höndum, ja, þá skyndilega kunna verðbólguvæntingar á markaði að minnka því að þá segir ríkið alla vega ekki við markaðinn: Ja, við búumst bara við 3,8%, heldur segir ríkið við markaðinn: Við erum að reyna að pressa þetta niður. Þetta eru því mjög jákvæð skilaboð gagnvart markaðnum að öðru leyti og mundi hafa jákvæð áhrif fyrir fólkið í landinu. Hækkun á gjaldskrám leggst auðvitað þyngst á þá sem minnstar hafa tekjurnar, vegna þess að með gjaldskránum innheimtum við skatta alveg óháð því hversu há laun fólk hefur og hverjar aðstæður fólks eru að öðru leyti.

Við leggjum líka til í samræmi við þetta sérstakar aðgerðir sem nýtast munu tekjulágum heimilum. Það er engin tilviljun að við gerum ráð fyrir að þær nemi um 5 milljörðum kr., því að það er auðvitað það sem skattalækkunin á meðaltekjuþrepið kostar. Og við erum sammála ríkisstjórninni um að skynsamlegt sé að létta sköttum á fólk í meðaltekjuþrepinu en komum með breytingartillögu um hvernig við teljum skynsamlegra að gera það, en það þýðir auðvitað að við teljum eðlilegt að mæta líka fólkinu í neðsta hlutanum.

Af þessum 5 milljörðum teljum við eðlilegt að verja 1 milljarði til að hækka húsaleigubætur. Það er 23% hækkun húasleigubóta. Með því höldum við áfram á þeirri vegferð sem við hófum í góðu samstarfi við verkefnisstjórn allra flokka um nýsköpun í húsnæðismálum og í góðu samstarfi við sveitarfélögin um að byggja nýtt kerfi húsnæðisbóta þar sem jafnaður yrði í áföngum munurinn á milli húsaleigubóta og vaxtabóta. Hlutfall lágtekjuheimila á leigumarkaði er mjög hátt og mun þessi aðgerð því nýtast lágtekjufólki beint fyrir utan það að þessi aðgerð er forsenda þess að við búum til alvöruleigumarkað. Allar greiningar benda til þess að ef ekki verður ekki búið til heildstætt kerfi húsnæðisbóta og þessi aðstöðumunur jafnaður milli þeirra sem eiga og þeirra sem leigja, sé tómt mál að tala um alvörumarkað með leiguhúsnæði á Íslandi. Mér skilst að það sé ekki bara niðurstaðan úr þeirri miklu vinnu sem lagt var í á síðasta kjörtímabili undir forustu Samfylkingarinnar, heldur sé sama mynd að koma í ljós í vinnuhópnum sem vinnur að þessu verkefni undir forustu hæstv. félagsmálaráðherra Eyglóar Harðardóttur, og sveitarfélögin hafa komist að sömu niðurstöðu. Þetta er því skynsamleg leið og hún mun ekki bara nýtast lágtekjufólki, hún mun líka varða veginn til framtíðar fyrir uppbyggingu leigumarkaðar.

Síðan gerum við ráð fyrir að 4 milljörðum verði varið í styðja við hópa í lægsta tekjuþrepi svo sem með breytingum á barnabótum, vaxtabótum, bótum almannatrygginga eða með öðrum sértækum aðgerðum. Við útfærum það ekki sérstaklega, það þarf auðvitað frekari vinnu og greiningar við við að útfæra það með sem skilvirkustum hætti en ég ætla bara að nefna eitt dæmi: Skerðingarmörk barnabóta eru í dag lægri en lágmarkslaun. Skerðingarmörk einstaklings vegna barnabóta eru 200 þús. kr., bæturnar byrja að skerðast við 200 þús. kr. áður en maður er kominn upp í lágmarkslaun. Það er því augljóslega rétt að verja fé til þess að hækka skerðingarmörk barnabóta þannig að fólk með lágar tekjur njóti fullra barnabóta ofar í tekjustiganum.

Virðulegi forseti. Við leggjum áherslu á sóknarstefnu í velferðarmálum og í atvinnumálum. Við teljum rétt að verja fé í verkefni sem geta tryggt okkur heilbrigðan vöxt og arð á næstu áratugum. Í breytingartillögum okkar leggjum við til að 5 milljarðar fari í heilbrigðiskerfið. Fjárlagafrumvarpið, eins og það lítur út núna með breytingum við 2. umr., dregur að nokkru leyti til baka þann misráðna niðurskurð til heilbrigðiskerfisins sem gert var ráð fyrir í upphaflegu fjárlagafrumvarpi, en þeirri stefnu er ekki snúið við með nýjum breytingartillögum meiri hlutans. Við leggjum til að gengið verði lengra í því efni.

Við höfnum alfarið nýjum sjúklingasköttum. Það innlagnargjald sem nú hefur verið útfært er í okkar huga ekkert skárra en hið upphaflega gistináttagjald sem sett var á sjúklinga í upphaflegu fjárlagafrumvarpi. Og það er auðvitað saga til næsta bæjar og mikil frétt að ríkisstjórn, sem ekki treystir sér til að leggja gistináttagjald á erlenda ferðamenn hafi látið sér detta það í hug í fjárlagafrumvarpi að leggja gistináttagjald á veikt fólk. Þau hörðu viðbrögð sem sú hugmynd fékk hafa valdið því að ríkisstjórnin hefur skipt um stefnu og snúið af þeirri braut og tekið aftur upp hugmyndina um innritunargjöld.

Það er ekki val sjúklings að leggjast inn. Eins og kom ágætlega fram í orðaskiptum hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Helga Hjörvars áðan er mikið umhugsunarefni hvar og hvernig leggja á þetta gjald á. Er hægt að leggja slíkt gjald á fólk sem ekki á val um að leggjast inn? Á að leggja þetta gjald á við innlögn fólks í bráðri lífshættu á gjörgæsludeild? Hvern á að spyrja um álagningu gjaldsins? Einstaklinginn í hjartaáfalli? Ættingja hans? Hverja? Er réttlætanlegt að leggja gjöld á fólk vegna aðstæðna þess þegar það getur ekki veitt upplýst samþykki við álagningunni? Er yfir höfuð raunsætt að halda að gjaldið innheimtist með þeim hætti sem stjórnarmeirihlutinn gerir ráð fyrir í ljósi þess að Landspítalinn nær ekki í dag að innheimta þau gjöld til fulls sem honum er nú þegar gert að innheimta af veiku fólki?

Við höfnum líka sérstakri skattlagningu á námsmenn og leggjum til að fallið verði frá hækkun skráningargjalda. Á móti leggjum við einfaldlega til að Háskóla Íslands verði veittar 220 milljónir og honum þar með bættur skaðinn. Hugmyndin um að leggja á námsmannagjöld og láta þau renna í ríkissjóð að stærstum hluta er auðvitað svo siðferðilega skökk sem hugsast getur af hálfu stjórnarmeirihlutans. Af sama toga er hugmyndin um að taka til sín sífellt stærri hluta útvarpsgjaldsins. Með öllum þessum aðgerðum þar sem gengið er á markaða tekjustofna, þar sem gefið er til kynna að fólk sé í reynd að greiða fyrir tiltekna þjónustu, eins og með skráningu í háskóla eða útvarpsgjald, fyrir þjónustu Ríkisútvarpsins, en peningarnir fara síðan bara í ríkissjóð, þá er verið að grafa undan almennum stuðningi fólks við slíka markaða tekjustofna, veikja opinbera þjónustu og grafa undan tekjujöfnunarhlutverki hins almenna tekjuskattskerfis, því að öll eru þessi gjöld þess eðlis að þau eru lögð á óháð tekjum og aðstæðum fólks.

Það er afstaða okkar í Samfylkingunni að leggja eigi þungann í gjöldum á einstaklinga í gegnum hið almenna tekjuskattskerfi. Það er afstaða okkar að hér eigi að vera þrepaskattskerfi, að fólk eigi að njóta þar fyrirgreiðslu í samræmi við aðstæður og það eigi að leggja af mörkum eftir efnum. Það hefur verið afstaða jafnaðarmanna til skattkerfisins í 150 ár og ég held að það séu engar fréttir fyrir þingheim að hún hefur ekki breyst.

Virðulegi forseti. Við viljum enn fremur efla atvinnuþróun og fjárfesta í framtíðinni. Þess vegna gerum við ráð fyrir að staðið verði til fulls við sóknaráætlun síðustu ríkisstjórnar og áætlanir hennar um aukin framlög til skapandi greina, rannsókna og tækniþróunar. Við höfum mikið rætt um það hér á síðustu dögum hversu miklu það skiptir fyrir efnahagsþróun okkar að styðja með þessum hætti við þekkingu og rannsóknir og er svo sem óþarfi að orðlengja það.

Við viljum líka alvörusókn í byggðamálum og teljum því mikilvægt að styðja og styrkja byggðatengd verkefni og veita aukið fjármagn til jöfnunar búsetuskilyrða. Í því skiptir miklu að tryggja jöfnun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum og án þess að leggja sérstakan skatt á Reykvíkinga, eins og mér skilst að hæstv. iðnaðarráðherra sé nú að láta sér detta í hug, að slíkt frumvarp sé á leiðinni hér í þingið, heldur með almennum aðgerðum. Við fjármögnum þessar byggðaaðgerðir eins og aðrar byggðaaðgerðir úr ríkissjóði en leggjum ekki sérstaka skatta, sérstök gjöld á raforkunotkun Landspítalans til þess að niðurgreiða húshitunarkostnað á köldum svæðum. Það þarf nú alveg sérstaklega skakkt hugarfar til að láta sér detta slíka hluti í hug.

Við viljum líka með auknum fjárveitingum tryggja aðgengi að dreifnámi sem skipt hefur sköpum fyrir menntaþróun á landsbyggðinni og tryggja fjarskiptasjóði fé til að byggja upp háhraðatengingar um allt land, sem er auðvitað forsenda menntunar og atvinnuþróunar á landsbyggðinni. Það er sárgrætilegt að fara um norðanvert Snæfellsnes og sjá þar frábæran framhaldsskóla, Framhaldsskólann í Grundarfirði, sem byggir hugmyndir sínar á notkun upplýsingatækni, og heyra að þar þarf að taka símann af nemendum þegar þeir koma í hús þannig þeir geta ekki notað snjallsímana sína, sem allt námið gengur út á að kenna þeim að nota, vegna þess hversu háhraðatengingin er léleg. Og að koma í fiskvinnslu á Rifi, sem selur ferskan fisk á alþjóðlegan markað og sendir með flugi og svo liggur háhraðatengingin niðri heilu og hálfu dagana. Það er hvorki hægt að reka atvinnulíf né skóla á landsbyggðinni nema með uppbyggingu í fjarskiptum. Það er grundvallarforsenda rétt eins og uppbygging á vegum.

Við viljum líka standa við áætlun um þróunarsamvinnu sem samþykkt var vorið 2011 af öllum þingmönnum nema einum. Ábyrgð þeirra þingmanna sem greiddu þeirri þingsályktunartillögu atkvæði er mikil. Ábyrgð þeirra þingmanna, eins og hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar, sem flutti meira að segja mjög góða og efnisríka ræðu um mikilvægi þróunarsamvinnu hér vorið 2011, er mikil, að hverfa frá þeirri áætlun. Sú áætlun var samþykkt vorið — ég ítreka það; vorið 2011 þegar allir vissu hvernig staða ríkissjóðs var og hvernig hún yrði á næstu árum. Ekkert hefur komið fram í ríkisrekstrinum á þessu ári sem réttlætir að vikið sé frá þeirri áætlun eða sem veldur því að hægt sé að draga þá ályktun að forsendur hennar eigi ekki lengur við eða að frá þeim megi hvika. Það var vitað hvernig líklegt væri að efnahagsþróunin yrði á næstu árum þegar hún var samþykkt vorið 2011 með atkvæðum allra þingmanna nema eins. Ég höfða enn og aftur til ábyrgðar þeirra þingmanna sem greiddu þeirri áætlun atkvæði sitt.

Virðulegi forseti. Við viljum líka halda áfram með áform um lengingu fæðingarorlofs í eitt ár í áföngum og teljum það mjög mikilvægt að hvika ekki frá þeim áformum eða að hætta á þeirri vegferð.

Að síðustu, hvað varðar útgjalda- og uppbyggingaráform okkar viljum við veita rúmlega 500 milljónum til framhaldsskólanna til að taka á rekstrarvanda þeirra og tryggja þróunarstarf um betra skólastarf.

Það er nú eðlilegt þegar ég er búinn að flytja þessa björtu framtíðarsýn um hvert umbótaverkefnið á fætur öðru, aðgerðir til þess að bæta kjör venjulegs launafólks, aðgerðir til þess að létta undir með þeim sem minnst hafa milli handanna, aðgerðir til þess að tryggja meðaltekjuhópum sanngjarnar skattalækkanir og aðgerðir til uppbyggingar í velferðarmálum og atvinnumálum, að menn spyrji: Hvaðan ætlar maðurinn síðan að fá peninga í þetta allt saman?

Eins og ég rakti hér í upphafi fylgja tillögum okkar um útgjöld tillögur um nýjar tekjur upp á rétt tæplega það sem nemur útgjaldatillögunum. Til viðbótar gerum við líka ráð fyrir, eins og ég rakti í upphafi, að okkur nýtist viðbótartekjur sem nú er gert ráð fyrir í nefndaráliti og tillögum meiri hlutans vegna betri efnahagshorfa þannig að jöfnuður í ríkisfjármálum ætti ekki að vera í hættu heldur þvert á móti.

Helstu tekjuliðirnir sem við gerum ráð fyrir og eru nýir eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi áætlum við 3,5 milljarða vegna útboðs á leiguheimildum til makrílveiða. Það er búið að ákveða að kvótasetja makríl og ég tel það skynsamlega ákvörðun, það er mikilvægt að gefinn verði út kvóti í makrílveiðum. En með sama hætti og það er skilningur á því að takmörk séu fyrir því að hægt sé að bjóða upp kvóta í tegundum þar sem kvóti hefur lengi gengið kaupum og sölum og útgerðir hafa skuldsett sig til fjárfestingar í kvóta, er alveg ljóst að í tilviki makrílkvótans hefur engin útgerð skuldsett sig til kaupa á þeim kvóta. Hins vegar hafa útgerðir vissulega lagt í kostnað við veiðarfæri, við breytingar á skipum og við uppbyggingu vinnslulína og hafa með því greitt fyrir því að við höfum fengið veiðireynslu sem skiptir okkur miklu máli. Þess vegna er alls ekki ósanngjarnt að þau fyrirtæki sem sinnt hafa makrílveiðum á undanförnum árum njóti þess og að einhver hluti makrílkvótans verði tekinn til hliðar fyrir þau fyrirtæki sem hafa með þeim hætti sinnt þessum veiðum á undanförnum árum og byggt upp veiðireynsluna.

Hvert á það hlutfall að vera? Á það að vera 100%, eins og hæstv. ríkisstjórn virðist gera ráð fyrir? Er óhugsandi annað en að þeir sem byggðu upp veiðireynsluna fái allan kvótann gefins? Ég segi nei og vísa til fordæmis hæstv. ríkisstjórnar. Hún hyggur nú á að kvótasetja á nýjan leik úthafsrækju. Úthafsrækjuveiðar voru gefnar frjálsar fyrir nokkrum árum vegna þess að úthafsrækja var ekki veidd lengur. Hún var svo að segja öll tegundatilfærð vegna þess að menn nýttu sér heimildir til tegundatilfærslu til að breyta rækjukvótanum sínum í eitthvað annað, í bolfiskafla, og rækjan var ekki veidd.

Eftir að úthafsrækjuveiðarnar voru gefnar frjálsar hafa mörg fyrirtæki lagt mikinn kostnað í að halda úti skipum upp á von og óvon til að veiða. Ekki blés byrlega fyrir þessum fyrirtækjum framan af, en þau hafa byggt upp mikla veiðireynslu á síðustu árum, fjöldamörg störf. Mér finnst það eðlilegt að þau njóti þess í einhverju. Ríkisstjórnin hefur í frumvarpi sínu um kvótasetningu úthafsrækjuveiðikvótans gert ráð fyrir að veiðireynsla síðustu ára vegi einungis 30%. Ríkisstjórnin er hins vegar svo gjafmild að hún ætlar ekki að taka 70% til sín, til ríkisvaldsins, til almennings í landinu, heldur ætlar hún að gefa þeim útgerðum, sem áttu einu sinni rækjukvóta og voru fyrir löngu síðan hættar að veiða hann, þessi 70%. Ríkisstjórnin sjálf er með öðrum orðum búin að segja að í tilviki úthafsveiðikvótans eigi nýleg veiðireynsla að vega 30%. Mér finnst það frekar naumt skammtað hjá ríkisstjórninni og vildi sjá meira í tilviki makrílkvótans. Þess vegna segjum við að a.m.k. 30% yrðu tekin frá fyrir þá sem hafa verið að byggja upp veiðireynsluna á síðustu árum. Afgangurinn yrði síðan leigður út.

Það er erfitt að setja tölu á hverju slíkt útboð mundi skila. Miðað við forsendurnar sem ráða má af útboði Færeyinga á makríl í fyrra voru þetta 7 milljarðar. En ég held að allir séu sammála um það sem hafa horft á að Færeyingar fóru heldur bratt í sitt útboð og það var ekki skynsamlegt að bjóða út aðgang að auðlindinni til lægstbjóðanda. Það þarf að hafa einhverjar hömlur á því að tryggja að öflug fyrirtæki sem virði allar reglur og fari vel með auðlindina og virði kjarasamninga og gangi vel fram og borgi sína skatta og skyldur, hafi forgang með einhverjum hætti, þannig að það þarf að útfæra þetta vel. Þess vegna setjum við á þetta 3,5 milljarða, helminginn af því sem hefði komið út úr því að beita færeysku aðferðinni, og gerum ráð fyrir því að færustu sérfræðingum og fulltrúum hagsmunaaðila verði falið að útfæra í sameiningu aðferðafræði sem mundi skila skynsamlegri aðferð til að leigja þetta út þannig að þjóðin fengi sem mest en án þess að við eltum mistök Færeyinga, því að það er alveg rétt að óheft útboðsleið er ekki skynsamleg.

Virðulegi forseti. Við áætlum síðan tekjur vegna hækkunar sérstaks veiðigjalds um 2,1 milljarð til samræmis við tillögu okkar í minni hluta atvinnuveganefndar síðastliðið sumar. Það er auðvitað lág tala, 2,1 milljarður, það skýrist af því að það er þegar búið að leggja á veiðileyfagjald fyrir tímabilið fram til 31. ágúst, 2/3 hluta ársins. Það er því þriðjungur af því sem fengist hefði af alvöruveiðigjaldi allt næsta ár. Þegar er búið að leggja á hið sérstaka afsláttargjald ríkisstjórnarinnar og við komumst ekki hjá því að virða þá ákvörðun. Þess vegna gerum við bara ráð fyrir 2,1 milljarði af alvörugjaldi síðasta ársþriðjunginn.

Þá koma fram efasemdir um hvort of nærri sé gengið að útgerðinni. Ég tel svo ekki vera og afkomutölur sjávarútvegsins, sem birtar voru í fyrradag á vef Hagstofunnar, staðfesta það algjörlega þegar í ljós kemur að á síðasta ári, þegar útgerðin hefur greitt þetta skelfilega veiðigjald, skilar hún samt metafkomu. Hún setur heimsmet í afkomu sjávarútvegs. Það er þó alla vega eitt heimsmet komið sem við getum stært okkur af þó að sum önnur heimsmet virðist láta á sér standa. Það er því alveg hafið yfir vafa að sjávarútvegurinn mundi þola ríkari álagningu veiðigjalds til samræmis við það sem við lögðum upp með í atvinnuveganefnd í sumar.

Virðulegi forseti. Síðan gerum við ráð fyrir því að virðisaukaskattur á gistinætur fari á ný úr 7% í 14%, eins og búið var að boða og leggja á í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég held að afkomutölur og fjöldi ferðamanna sýni það öðru fremur að það sé svigrúm fyrir greinina að hækka verð og það geti verið mjög þjóðhagslega skynsamlegt að hjálpa greininni með þeim hætti til að auka arðinn sem fenginn er frá hverjum og einum ferðamanni. Það var auðvitað mjög afkáralegt af hálfu ríkisstjórnarinnar að fella skattinn úr gildi örstuttu áður en hann átti að koma til framkvæmda þegar búið var að veita greininni árs fyrirvara á álagningu hans, en þar með hafði henni gefist ærið tækifæri til að fella hann inn í eigin verðlagningu. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fella hann niður var því bara ákvörðun um að auka enn á arðinn í ferðaþjónustunni á þessum uppgangstímum í greininni.

Við gerum ráð fyrir því að hafa bankaskatt 6 milljörðum hærri en ríkisstjórnin hyggst gera. Ef bankaskattur er jafn örugg tekjulind og ríkisstjórnin telur, að það sé sjálfsagt að nota hann hér bæði til að brúa bil í ríkisfjármálum og til þess að standa undir 80 milljarða útgjöldum á næstu árum sem ríkið er tilbúið að byrja á að axla skuldbindingar út af áður en skatturinn hefur innheimst, þá hlýtur að vera um mjög öruggan skatt að ræða. Það eru engin efnisrök fyrir því að nýta hann bara til skuldaniðurfellingar, það er full ástæða til að nýta hann líka til tímabundinna samfélagsverkefna af því að þetta er auðvitað tímabundinn skattur og það er ekki hægt að reikna með honum varanlega inn í íslenska hagkerfið. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að gefa í í atvinnuþróunarverkefnum, í byggðaþróunarverkefnum, í uppbyggingarverkefnum vítt og breitt um landið, að gefa í í fjárfestingu í fjarskiptum vítt og breitt um landið, að gefa í í uppbyggingu rannsókna og þróunar og nýta til þess bankaskattinn vegna þess að þetta eru allt í eðli sínu tímabundin verkefni og það er fínt að nýta tímabundnar tekjur í tímabundin verkefni. Við göngum hins vegar út frá því að frítekjumark verji minni fjármálafyrirtæki.

Að síðustu gerum við ráð fyrir 3 milljarða heimtum úr sérstöku átaki til að herða skatteftirlit. Umfang hins svarta hagkerfis hefur líklega sjaldan verið meira en nú, um það ber öllum saman. Við höfum fengið marga fulltrúa á fund þingnefnda á undanförnum mánuðum og missirum; fulltrúa Vinnumálastofnunar, sem tala um svarta atvinnustarfsemi, við fáum fulltrúa skattyfirvalda sem telja ljóst að hægt sé að ná miklum árangri með því að leggja aukinn mannafla í eftirlit. Ég hef sjálfur reynslu af því sem félagsmálaráðherra að fjögurra manna deild í Vinnumálastofnun skilaði 800 milljónum á einu ári í átaki gegn bótasvikum. Það er því margt hægt að gera með því að útrýma svartri atvinnustarfsemi og gera átak til að draga úr henni nú.

Mér gefst því miður ekki tími til að ræða margt sem ég ætlaði að ræða, eins og heildarmynd fjárlaganna eins og þau eru núna, hinar fráleitu hugmyndir meiri hlutans um að skerða vaxtabætur og ýmislegt fleira, en ég mun ræða það í síðari ræðu minni.