143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:54]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hvernig hefði mátt gera það? Alltaf þegar við erum að tala um þessi mál hef ég bent á að lykilmenn í því að ná sátt um sjávarútveginn á Íslandi séu útgerðarmenn. Og þegar verið er að semja um hluti og reyna að komast að niðurstöðu þá verða menn alltaf að gefa aðeins eftir. Ég held að hægt hefði verið að útfæra þetta og það kom reyndar fram hjá minni hlutanum á sumarþinginu að hægt hefði verið að koma til móts við hin minnstu fyrirtæki án þess að það hefði það mikil áhrif.

Ég fagnaði því að gjaldið var hækkað á uppsjávarfyrirtækin, þó að ekki séu allir sammála því, það var mjög gott skref. En þarna fóru 3 milljarðar út úr kerfinu sem kannski hefði ekki þurft að gerast. Ég get ekki sagt hv. þingmanni nákvæmlega hvernig hefði átt að gera þetta en ég held að með samningum og góðum vilja hefði það verið hægt.