143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

álver í Helguvík.

[15:17]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður rifji hér upp forsögu þessa máls og einmitt fari til baka að atkvæðagreiðslunni um fjárfestingarsamninginn varðandi þetta verkefni sem var á dögum minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í mars, minnir mig, 2009. Þá var staðan þannig að fjárfestingarsamningurinn var samþykktur, þökk sé atkvæðum þáverandi stjórnarandstöðuflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en ráðherrabekkurinn var í öllum litum, rauður, grænn og gulur, og beinlínis stefna, að minnsta kosti annars stjórnarflokksins, að berjast gegn þessu verkefni.

Við munum eftir ummælum hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún beinlínis lagði það til að HS Orka yrði þjóðnýtt þegar deilur komu upp um eignarhaldið þar. Við munum eftir ákvörðun þáverandi hæstv. umhverfisráðherra um sameiginlegt umhverfismat á línum er tengjast þessu verkefni meðal annars þannig að það lá alltaf fyrir að ekki var stuðningur beggja stjórnarflokkanna við þetta ákveðna verkefni og það hafði hindranir í för með sér. Ég leyfi mér að fullyrða það.

Ég vil hins vegar segja við hv. þingmann að ég hef aldrei efast um hennar stuðning og hef sagt það áður úr þessum ræðustól að ég hef fulla trú á því að í hennar tíð sem iðnaðarráðherra hafi verið reynt af hennar hálfu að greiða götu þessa verkefnis, en ekki fór betur en á horfðist.

Þær fréttir sem hv. þingmaður vísar hér til núna frá forstjóra Century Aluminum eru að mínu mati ekki góðar (Forseti hringir.) og ég hef ekki fengið þessi skilaboð beint frá (Forseti hringir.) forstjóranum. Ég vil hins vegar segja, vegna þessa máls, að ég tel að öll staða sé betri en núverandi staða. Eyða þarf óvissunni varðandi þetta verkefni og taka ákvarðanir af eða á um þetta þannig að við getum þá farið að einbeita okkur að öðru.