143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það stendur nú þannig af sér í minni daglegu tilveru að ég geng fram hjá þessari holu íslenskra fræða á hverjum morgni og ég er sammála hv. þingmanni um það að þetta er dapurleg táknmynd þeirrar stefnu eða stefnuleysis sem ríkisstjórnin hefur. Þarna er ekki bara um að ræða afturhaldsstefnu að því er varðar hina lamandi hönd ríkisstjórnarinnar á nánast allt sem heitir frumkvæði og framtak heldur er það táknrænt að auki vegna þess að menningin er þarna fótum troðin. Eins og hv. þingmaður segir er í raun og veru líka troðið á sprotum alls staðar með því að kalla til baka stuðning við rannsóknir og þróun, sem ég held að allir í nútímastjórnmálum átti sig á að verður að hlúa að ef við ætlum ekki beinlínis að horfa á menningarlegan og efnahagslegan samdrátt og afturför í íslensku (Forseti hringir.) samfélagi um árabil.