143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

177. mál
[12:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég rita undir nefndarálitið með fyrirvara og ætla aðeins að gera grein fyrir því að hverju hann snýr. Hann snýr í raun að 1. gr. frumvarpsins og því að gera það að almennum rétti lífeyrissjóðanna sem bundið hefur verið við aðeins hluta þeirra fram að þessu, að heimilt sé að gera það að skilyrði að fengnu áliti trúnaðarlæknis lífeyrissjóðs fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem geti bætt heilsufar hans. Við skiljum, held ég, öll hugsunina sem að baki liggur, þetta er vel meint en menn hafa haft áhyggjur af því hvernig þetta yrði framkvæmt. Því var það vel að efnahags- og viðskiptanefnd færi vel ofan í saumana á þessum þætti málsins og brást við athugasemdum um málið með sérstakri breytingartillögu eins og framsögumaður gerði grein fyrir. Ég tel í raun og veru að með því sé komið mjög vel til móts við þær áhyggjur eða þau sjónarmið sem til að mynda Öryrkjabandalag Íslands sendi nefndinni í umsögn sinni. Að því tilskildu að þannig sé í framhaldinu staðið að framkvæmdinni að að þessum sjónarmiðum sé gætt get ég vel fellt mig við að löggjöfin verði svona úr garði gerð.

Kosturinn við breytinguna er að þetta er ekki jafn einhliða réttur lífeyrissjóðanna og að óbreyttu hefði verið, þ.e. að sjóðfélaginn sem í hlut á eigi ákveðið skjól í lagaákvæði, að skylt sé að gæta að aðstæðum hans áður en þetta skilyrði er virkjað gagnvart honum. Framsögumaður fór hér yfir það hverjir í hlut gætu átt, svo sem eins og íbúar í dreifðum byggðum þar sem ekki er mikið framboð af slíkri endurhæfingu. Það gæti kostað ferðalög og fyrirhöfn að sækja sér hana. Einnig nefndi hann t.d. innflytjendur. Það má jafnvel bæta við vissum hópum þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða, það getur verið meira en að segja það í slíkum tilvikum að gera það að skilyrði að viðkomandi fari í endurhæfingu sem getur verið honum örðug vegna aðstæðna hans, búsetu eða félagslegra eða persónulegra aðstæðna.

Ég er mjög ánægður með breytingarnar og þá góðu samstöðu sem tókst í nefndinni um að gera þessar lagfæringar á málinu. Ég geri hvorki athugasemdir við 2. né 3. gr. frumvarpsins, þ.e. að lífeyrissjóðum sé heimilt að taka við skuldabréfum þó að þau séu ekki skráð á skipulögðum markaði ef launagreiðandi vill greiða inn á skuldbindingar sínar með slíkum bréfum. Það er að sjálfsögðu í höndum lífeyrissjóðanna að meta af viðtöku þeirra en ekki lagðar á það neinar kvaðir ef sjóðirnir svo meta að þeir vilji taka þau bréf til tryggingar greiðslum.

Eins er um framlengingu ákvæðanna í 3. gr. sem eðlilegt er að framlengja við núverandi aðstæður. Það minnir á það að alllengi hefur verið í gangi vinna við að endurskoða fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og takmarkanir eða ákvæði sem um það gilda í lögum. Það væri ákaflega æskilegt að mínu mati að fara að sjá fyrir endann á þeirri endurskoðun og fá inn tillögur um heildstætt fyrirkomulag þeirra mála. Það er varla vansalaust hvað það hefur dregist. Augljóst er að þessi mál eru á margan hátt í allt annarri stöðu nú í hagkerfinu eins og þar er um hnúta búið með fjármagnstakmörkunum og kannski takmörkuðum fjárfestingarkostum. Þess vegna hefði verið gott að þessari endurskoðun væri lokið þannig að fyrir lægi hvaða svigrúm lífeyrissjóðirnir fá, hvað þeim verður heimilt og hvað ekki miðað við takmarkanir löggjafans. Auðvitað er mikilvægt að fé lífeyrissjóðanna nýtist í hagkerfinu og það ávaxtist, geri gagn, ef svo má að orði komast. Það er vel líklegt að einhverjar breytingar aðrar og meiri en þær takmörkuðu sem menn hafa gert til bráðabirgða undanfarin missiri gætu þurft að koma til og hefur ýmislegt verið nefnt í þeim efnum eins og kunnugt er.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar.

Varðandi breytingartillögur frá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni og fleirum er ég almennt sammála því að ástæða sé til að virkja betur til þátttöku og gæslu lífeyrissjóðanna sjóðfélagana. En hafa verður í huga hvernig þetta fyrirkomulag er til komið, það á sér sínar sögulegu rætur að aðilar vinnumarkaðarins hafa alltaf lagt áherslu á sinn þátt í því að koma þessu kerfi af stað með samningum sín í milli og á hinum almenna vinnumarkaði og tekið það hlutverk sitt alvarlega að þeir séu sérstakir gæslumenn lífeyrissjóðakerfisins. Það er auðvitað ákaflega mikilvægt að lífeyrissjóðirnir njóti jafnframt trausts og trúnaðar sjóðfélaga sinna, eigendanna.

Þess vegna hefði ég talið að það væri skynsamlegt hjá lífeyrissjóðunum og æskilegast að þeir hefðu sem mest sjálfir haft frumkvæði að því að breyta samþykktum sínum og opna stjórnir og starfsemi sjóðanna meira fyrir beinni þátttöku sjóðfélaga. Ég hef hvatt þá til þess á þeim vettvangi þegar ég hef verið gestur þeirra á umliðnum árum. Einhverjir þeirra hafa, eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson nefndi, að eigin frumkvæði farið í þessa átt. Hins vegar er það nú ekki alveg vandalaust fyrir löggjafann að mínu mati að kveða einhliða upp úr um þetta fyrirkomulag án samráðs við starfandi lífeyrissjóði í landinu og langæskilegast væri að slíkt væri gert í góðu samkomulagi þannig að ég vil eftir sem áður hafa fyrirvara á um liðsinni við þessa breytingartillögu eins og hún er hér útfærð þó að ég deili að mörgu leyti þeim sjónarmiðum sem hún er sprottin úr.