143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er sá tekjuöflunarliður á ferð sem snýr að hækkun sérstaks veiðigjalds og gjaldtöku á grundvelli landaðs makrílafla sem við teljum að geti skilað um 4,7 milljörðum kr. aukalega í tekjur í ríkissjóð á næsta fjárlagaári, þ.e. leigugjald fyrir makríl þar sem greitt er fast gjald í krónum talið fyrir hvert landað kíló og síðan hækkun á sérstaka veiðigjaldinu í samræmi við stórgóða afkomu sjávarútvegsins sem kæmi til framkvæmda frá og með 1. september næstkomandi á fyrsta fjórðungi næsta fiskveiðiárs. Þriðjungur tekna hækkaðs veiðigjalds á því fiskveiðiári mundi koma ríkissjóði til góða á fjárlagaárinu 2014. Það er alls ekki ofáætlað að tekjur upp á um 4,7 milljarða kr. sé hægt að sækja í þessa átt án þess að valda sjávarútveginum nokkrum þeim búsifjum sem hann ræður ekki auðveldlega við.