143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það hefur verið farið í ýmislegt hér í atkvæðaskýringu, það sem verið er að greiða atkvæði um. Ég verð að vekja athygli á einu. Það var mikil umræða eftir að meiri hluti hv. fjárlaganefndar vakti athygli á því að kannski væri ekki í anda fjárreiðulaga og verklaga ramma fjárlagagerðar þær millifærslur sem voru gerðar hjá menntamálaráðuneytinu. Um það urðu mjög miklar umræður og var það sérstaklega hv. stjórnarandstaða sem vitnaði mjög í meirihlutaálit hv. fjárlaganefndar, en þetta er tekið út hér eða gerð tillaga um það. Á móti kemur að það var einnig umræða um fjarskiptasjóð, það fara að sjálfsögðu lögbundnar greiðslur inn í þann sjóð en lagt var til ekki yrði greitt út úr honum. Því var mótmælt mjög og það er sett inn aftur, þ.e. þetta er merkt sem sérstök útgreiðsla úr fjarskiptasjóði og stjórnarandstaðan minntist einkum á það, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það er ekki í anda fjárreiðulaga eða verklaga við ramma fjárlagagerðar. Með þessari tillögu erum við að brjóta það prinsipp sem menn börðust hér fyrir (Forseti hringir.) og allir verða að vera meðvitaðir um það, nema menn greiði út úr (Forseti hringir.) fjarskiptasjóði á árinu 2013 og í dag, (Forseti hringir.) eins og menn vita, er 19. desember.