143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er aðeins eitt atriði í þessum breytingartillögum hér við 3. umr. fjárauka sem ég vil fagna sérstaklega og það er að meiri hluti skuli hafa séð að sér varðandi fjarskiptasjóð, að þær tekjur sem koma út fyrir 4G-útboð muni renna til uppbyggingar og styrkja netsamband á landsbyggðinni eins og talað hefur verið um. Ég hef tekið eftir því að nokkrir þingmenn, án þess að ég nefni nöfn, hafa viljað setja það í eitthvað annað, fjárhagsvanda Farice ehf. og allt það, en hér er skýrt kveði á um, og það vil ég árétta með atkvæðaskýringu minni um leið og ég lýsi því yfir að ég styð tillöguna, að fjárhæðin er ætluð til þess að styrkja fjarskiptasamband, netsamband, háhraðatengingar á landsbyggðinni, þær 195 milljónir sem meiri hlutinn færir núna til fjarskiptasjóðs í staðinn fyrir að taka þær inn í ríkissjóð eins og talað var um við 2. umr. fjáraukans.