143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um desemberuppbót fyrir fólk í atvinnuleit. Á tillögunni eru fulltrúar minni hlutans jafnframt flutningsmenn með meiri hlutanum, en oddviti minni hlutans kom hér upp í atkvæðaskýringu fyrr í dag vegna þeirra færslna sem birtast á þessu þingskjali. Ég ætla að ítreka hér það sem kom fram í máli hæstv. félagsmálaráðherra. Þetta fé fer út úr Starfsendurhæfingarsjóði á þessu ári, en það skal áréttað og það kemur hér inn sem lögskýringargagn með tillögunni í þessari ræðu minni að mismunurinn á milli desemberuppbótar og þeirrar upphæðar sem birtist þarna í lokareikningi fyrir árið 2013, það fé verður fært til baka. Þetta er óráðstafað eigið fé sem þarna er til staðar þannig að enginn ber skarðan hlut frá borði í þessu.