143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé mjög flókið að svara því. Það er greiðandinn. Það hlýtur að vera þolandi málsins sem getur fært fram þau sjónarmið að á honum sé brotinn réttur að þessu leyti, þ.e. með því að fara með þessa gjaldtöku upp fyrir bestu fáanlegar upplýsingar um raunkostnað sem hljóta að vera úr bókhaldi háskólanna. Nú er þetta þannig gert, það er ekkert úr lausu lofti gripið, að legið var yfir því á sínum tíma og búin til tiltölulega vönduð aðferðafræði til mats á því hver væri raunkostnaður háskólanna við innritun og það sem henni tengdist og síðan ekkert annað. Háskólarnir eiga ekki að geta blandað neinu öðru inn í það, ekki ýkt upp kostnaðinn. Þetta eru reglur þar sem er skilgreint nákvæmlega hvaða þættir það eru sem mega flokkast undir innritunarkostnað.

Þessar upplýsingar rakst ég á fyrir einum eða tveimur dögum hvað varðar Háskóla Íslands. Það vakti svo athygli mína þegar ég fór að framreikna kostnaðinn til áætlaðs verðlags á árinu 2014 að talan var lægri en þessi hækkun. Það munar ekki mjög miklu, en það er eitthvað undir 75 þús. kr. Það gengur ekki að gefa sér að það megi taka bara eitthvert meðaltal. Þetta hlýtur að vera spurning um að hver og einn námsmaður sem er greiðandi gjaldsins í sínum háskóla sé ekki gerður að skattstofni með innritunargjöldum, hann borgi raunkostnaðinn við innritunina og annað ekki því að á því byggist lögheimildin til þessarar gjaldtöku.

Mér sýnist málið liggja þannig að námsmenn í Háskóla Íslands hafi hér málstað en trúlega ekki í öðrum opinberum háskólum af því að raunkostnaðurinn er hærri þar.