143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[11:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að gera almenna grein fyrir því hér hvernig við nálgumst þetta mál. Við munum ekki greiða atkvæði með þeim þætti frumvarpsins sem snýr að meðferð svonefndra afleiðusamninga og breytingartillögum við það, einfaldlega vegna þess að það gafst alls ónógur tími til að fara rækilega ofan í saumana á því.

Að sjálfsögðu ber að taka viljann fyrir verkið, ég veit að efnahags- og viðskiptanefnd reyndi hvað hún gat að skýra málið en það var gert á ansi skömmum tíma. Ég hef þar af leiðandi ekki sannfæringu fyrir því að í öllum tilvikum sé verið að leggja upp í skynsamlega breytingu hvað þetta varðar og treysti mér ekki til að styðja það.

Við munum því sitja hjá við töluliði 1–6 í breytingartillögunni og 1.–8. gr. í frumvarpinu en styðja það að öðru leyti.