143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

tekjuskattur.

204. mál
[11:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessari breytingartillögu, 9. tölulið, sem breytir 12. gr. frumvarpsins sem áður hafði gert ráð fyrir að 4. mgr. 58. gr. tekjuskattslaganna félli brott. Ég varaði við því við 1. umr. og efnahags- og viðskiptanefnd hefur fallist á, að góðra manna ráðum sem við fengum líka utan frá, að gera þess í stað breytingar á skilgreiningu tengdra aðila í einkahlutafélögum. Þetta er til þess að ekki verði aftur nánast óheft svigrúm fyrir eigendur eða ráðandi aðila í einkahlutafélögum að greiða sér út arð og í raun dulbúa launagreiðslur sem arðgreiðslur.

Með því að skilgreina í lögum tengslin eins og hér er gert má beita reglum um reiknað endurgjald til þess að setja því nokkrar skorður að menn fari ekki offari í þessum efnum eins og því miður var gert á löngu árabili og allir þekkja.

Þessi breyting er því tvímælalaust til bóta þótt betur mætti sjálfsagt gera.