143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara yfir álit okkar í 2. minni hluta fjárlaganefndar við 3. umr.

Ég tek undir að stefnan um hallalaus fjárlög er metnaðarfull og geri ég ráð fyrir að við vonumst öll til þess að svo megi verða en við í 2. minni hluta höfum af því miklar áhyggjur að svo geti orðið, miðað við það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir.

Forsætisráðherra boðaði við þingsetningu mestu aðgerð í þágu skuldugra heimila sem átt hefði sér stað í veraldarsögunni. Síðar lýsti sami ráðherra því yfir að ríkisstjórn hans hygðist reisa hina íslensku millistétt upp úr ánauð skulda og skelfingar með áður óþekktum brögðum. Tillögurnar voru kynntar í lok nóvember og því var lýst yfir að ríkisstjórnin mundi leggja út í 150 milljarða kr. björgunarleiðangur fyrir íslensk heimili og allir ættu að geta unað sælir við sitt. Þegar betur var skoðað kom í ljós að tillagan snerist í raun um 80 milljarða kr. millifærslu af skattfé til efnameiri fjölskyldna landsins, þeirra sem réðu og ráða vel við að greiða skuldir sínar, minnst til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda, mest til þeirra sem síst þurfa þess. Stærstur hluti þessarar millifærslu fer því til íbúðareigenda á Reykjavíkursvæðinu eða stór-höfuðborgarsvæðinu þar sem við vitum að eignabólan hefur orðið hvað mest fyrir hrun og skuldirnar þar af leiðandi hæstar þar og fasteignaverðið hækkaði jú í takti við það, umfram verðlag frá hruni. Til viðbótar munu svo þeir sem hafa aukið svigrúm í bókhaldi heimila sinna fá sérstakan 70 milljarða kr. skattafslátt gegn því að greiða höfuðstól lána sinna hraðar niður.

Heimsmet í skuldaniðurfellingu gætum við því frekar kallað heimsmet í millifærslu, millifærslu á skattfé, frá landsbyggð til höfuðborgar, frá láglaunafólki til þeirra sem hafa hærri laun, frá eignalitlum fjölskyldum til þeirra eignameiri.

Hæstv. forseti. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands frá 11. desember segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Áætlanir ríkisstjórnar um lækkun verðtryggðra skulda heimila liggja nú fyrir í meginatriðum. Þær munu að öðru óbreyttu auka innlenda eftirspurn. Vegna þess að slakinn í þjóðarbúskapnum er óðum að hverfa mun meiri eftirspurn auka verðbólgu að óbreyttu taumhaldi peningastefnunnar. Meiri eftirspurn mun einnig auka innflutning og draga úr viðskiptaafgangi sem stuðlar að lægra gengi en ella.

Miðað við umfang aðgerðanna og dreifingu þeirra yfir tíma ætti þéttara taumhald peningastefnunnar að duga til þess að verðbólgumarkmiðið náist á næstu missirum, að öðru óbreyttu. Við útfærslu aðgerðanna ætti að huga að því með hvaða hætti megi draga úr neikvæðum hliðarverkunum þeirra á viðskiptajöfnuð og verðbólgu og minnka þannig þörfina á mótvægisaðgerðum peningastefnunnar.“

Það er því álit Seðlabanka Íslands að millifærslan muni leiða til aukinnar verðbólgu, lækkandi gengis krónunnar og hærri vaxta. Það kom líka fram á fundi bankans í gær með fjárlaganefnd. Að mati bankans þarf að sporna við augljósum neikvæðum afleiðingum millifærslunnar, þ.e. hærri verðbólgu, veikari krónu og neikvæðum viðskiptajöfnuði, því að það mun væntanlega kalla á vaxtahækkanir og auka þörfina á strangari peningastefnu.

Seðlabanki Íslands vinnur nú að viðamikilli úttekt á áhrifum millifærslunnar á íslenskt efnahagslíf.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur það mat á millifærsluna að hún muni valda aukinni verðbólgu og leiða til hækkunar á opinberum skuldum og þar af leiðandi versnandi lífskjara almennings. AGS segir tillögur stjórnvalda vera misráðnar og kalla á tugmilljarða útgjöld fyrir ríkissjóð á næstu árum.

Erlend matsfyrirtæki slá sömu tóna og Seðlabankinn varðandi neikvæðar afleiðingar millifærslunnar og benda á að fjármögnun hennar sé óljós og ekki í hendi. Þannig segir matsfyrirtækið Moody's að þó að millifærslan eigi ekki að hafa mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf muni ríkissjóður verða af framtíðarskatttekjum og þurfi að auki að leggja fram talsverða fjármuni, m.a. vegna áhrifa millifærslunnar á Íbúðalánasjóð sem auka muni skuldir ríkissjóðs.

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings tekur í sama streng í sínu áliti og bendir sömuleiðis á að millifærslan gæti haft neikvæð áhrif á fjárfestingu, hagvöxt og ytri umgjörð fjármála ríkisins auk þess að festa gjaldeyrishöftin enn frekar í sessi.

IFS er íslenskt þjónustu- og ráðgjafarfyrirtæki á sviði fjármála og greininga og hefur lagt mat á tillögur ríkisstjórnarinnar um millifærsluna, sem ég vitnaði í við 2. umr. Það dregur saman helstu niðurstöður sínar um áhrif þessara tillagna með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Tillögur sérfræðinganefndar á vegum forsætisráðuneytisins eru þær að lækka skuldir heimilanna um 80 milljarða kr. á fjórum árum, sem hefur strax áhrif á greiðslubyrði og veita skattleysi á viðbótarlífeyrissparnað til að greiða annars vegar inn á höfuðstól lána eða inn á húsnæðissparnaðarreikning. Alþingi á eftir að taka tillögurnar til efnislegrar umræðu og ekki er útilokað að tillögurnar breytist í meðförum þingsins. Áhrif aðgerðanna eru, að mati IFS:

Skuldir heimila lækki og greiðslubyrði lækkar.

Eftirspurn eftir vörum og þjónustu eykst vegna lægri skulda og greiðslubyrða heimila.

Veikara gengi krónunnar.

Aukin verðbólga.

Bætt afkoma sumra fyrirtækja.

Uppgreiðsluvandi Íbúðalánasjóðs eykst en vanskil gætu minnkað.

Óvissa um skuldastöðu ríkissjóðs eykst og þar með um lánshæfismat.

Uppgreiðsla lána eykur fjárfestingar í verðtryggðum skuldabréfaflokkum og lækkar ávöxtunarkröfu, en aukin óvissa um stöðu ríkissjóðs gæti dregið úr lækkun kröfunnar.

Draga mun úr veltu á fasteignamarkaði að þeirra mati næsta árið og jafnvel næstu þrjú til fjögur árin.

Óvissa ríkir um viðbrögð Seðlabankans við lakari verðbólguhorfum.“ — Það kom fram á fundinum að Seðlabankinn mun skila nánari og ítarlegri greiningu sinni í febrúar.

„Aukin eftirspurn eftir vörum og þjónustu mun setja þrýsting á verðbólgu. Greiðslubyrði lántakenda mun lækka en sparnaður mun aukast að einhverju leyti þó að skuldarar muni líklega draga úr öðrum sparnaði. Seðlabanki Íslands gæti þurft að beita stýritækjum sínum til að bregðast við aukinni verðbólgu, þar með talið hækkun stýrivaxta og inngripum á gjaldeyrismarkaði. Að mati IFS verða verðbólguáhrifin meiri á árunum 2015–2017. IFS spáði 3,5% verðbólgu árið 2014. Í þeirri spá var tekið tillit til óvissu um kjarasamninga og aðgerða ríkisstjórnarinnar. Engu að síður telur IFS rétt að hækka spána í 3,8% fyrir árið 2014.“

Nánari greining á áhrifunum og uppfærð hagspá er væntanleg frá IFS. Allt sem ég hef lesið hér er meira og minna bein tilvitnun í Seðlabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og í greiningu IFS. En IFS segir einnig, með leyfi forseta:

„Fjárfestingarþörf ÍLS og innlánsstofnana mun aukast sem gæti sett þrýsting á hækkun eignaverðs, aðallega verðtryggðra skuldabréfa. Uppgreiðsluvandi ÍLS eykst til muna og þar af leiðandi tap ríkissjóðs.

Aukin skuldsetning, hækkun stýrivaxta og hærri verðbólguvæntingar hafa neikvæð áhrif á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisskuldabréfa á markaði sem eykur fjármögnunarkostnað ríkissjóðs.“

IFS bendir einnig á að vægi séreignarleiðarinnar í tillögum stjórnvalda sé ofmetið, jafnvel tvöfalt á við það sem búast megi við að verði, að þeirra mati.

Hæstv. forseti. Sveitarfélögin í landinu munu verða fyrir skakkaföllum vegna boðaðra aðgerða stjórnvalda. Ekkert samráð var haft við sveitarfélögin vegna málsins, hvorki í aðdraganda þess, undirbúningi né í kjölfar þess að tillögurnar voru kynntar á yfirlýstu sviði Hörpu. Það kom líka fram á fundi sem ég sat í velferðarnefnd þar sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga kom á fundinn. Ekkert mat liggur fyrir af hálfu stjórnvalda á áhrifum millifærslunnar á sveitarfélögin sem virðist eiga að þvinga til þátttöku í aðgerðinni. Að mati Halldórs Halldórssonar, formanns stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, munu sveitarfélögin verða af 1,5 milljörðum kr. vegna aðgerðanna á árinu 2014 og enn meiru þegar fram í sækir. Miðað við stöðu sveitarfélaganna núna er ljóst að þau þurfa að bregðast við með því að draga enn frekar úr rekstri sínum og útgjöldum, sem við vitum að eru að stærstum hluta vegna skóla- og fræðslumála. Þar held ég að flestum þyki nú nóg um, eins og staðan er í dag.

Allir íslensku viðskiptabankarnir hafa uppi miklar efasemdir um millifærsluna og vara mjög við neikvæðum afleiðingum hennar. Um það segir meðal annars í yfirlýsingu greiningardeildar Íslandsbanka að þrátt fyrir að millifærslan geti hugsanlega aukið hagvöxt eitthvað í framtíðinni vegna áhrifa hennar á eignastöðu heimilanna og ráðstöfunartekjur, felist hliðarverkanir aðgerðanna í aukinni og þrálátri verðbólgu auk þess sem búast megi við hækkandi vöxtum, veikari krónu og versnandi viðskiptajöfnuði.

Í áliti greiningardeildar Arion banka segir að bankinn óttist að neikvæð efnahagsleg áhrif millifærslunnar séu vanmetin, sér í lagi verðbólguáhrifin. Um þetta segir í yfirlýsingu bankans, með leyfi forseta:

„Við erum hrædd um að efnahagsleg áhrif skuldaniðurfellingarinnar geti verið vanmetin, þá sérstaklega verðbólguáhrifin. Ástæðan felst fyrst og fremst í þjóðhagslíkaninu sem stuðst var við en það er byggt á áhrifum þeirra aðgerða sem þegar hefur verið ráðist í. Að okkar mati er þetta hæpinn samanburður enda eru heimilin er njóta niðurfellingarinnar ekki endilega eins aðþrengd og gilti t.d. um heimilin er fóru 110%-leiðina. Það svigrúm sem skapast við niðurfellinguna er ekki endilega nýtt í afborganir lána eða nauðsynjavörur og getur því aukið áhættuna á þenslu. Þá skiptir jafnframt máli hvort vannýtt framleiðslugeta í hagkerfinu sé rétt metin, en ef minni framleiðsluslaki er til staðar en áætlanir gera ráð fyrir er hætt við því að aukinn eftirspurnarþróttur skili sér hraðar út í verðbólgu. Sennilegast eru upphæðirnar sem um er að tefla þó ekki svo háar að þetta muni valda verulegum vandræðum.

Í raun virkar lækkun greiðslubyrðinnar að einhverju leyti líkt og launahækkun hjá þeim sem hana hljóta og því ýtir aðgerðin undir mikilvægi þess að stíga varlega til jarðar í komandi kjarasamningum. Það er þó fullsnemmt að segja til um hver endanleg áhrif leiðréttingarinnar verða enda aðeins um tillögur að ræða sem eiga eftir stranga og mögulega langa göngu í gegnum þingið áður en nokkuð verður gert.“

Landsbanki Íslands hefur eins og aðrir lagt mat á efnahagsleg áhrif millifærslunnar. Í yfirlýsingu hagfræðideildar bankans segir að mikið hafi verið gert úr því við kynningu aðgerðanna að þær væru fullfjármagnaðar og að áhrifin á ríkissjóð yrðu óveruleg en óvíst er að innstæða sé fyrir þeim fullyrðingum. Að mati bankans mun ríkissjóður þurfa að „bera kostnað upp á tugi milljarða króna á ári til að byrja með og verður auk þess fyrir verulegu tekjutapi þegar fram í sækir vegna skattafsláttar á hluta launatekna sem renna til niðurgreiðslu íbúðaskulda. Tekjurnar af væntanlegum bankaskatti eru ekki í hendi.“

Í áliti hagfræðideildar Landsbankans segir einnig:

„Þrátt fyrir að komandi aðgerðir séu umfangsmiklar, og verði kannski einhverjar umfangsmestu opinberu tilfærsluaðgerðir Íslandssögunnar, lítur út fyrir að heimilin reikni ekki með að áhrif þeirra verði mikil á þeirra stöðu.“ Þeir vitna til könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Morgunblaðið og segja:

„Í nýlegri könnun kom fram að innan við 10% svarenda töldu að aðgerðirnar hefðu mjög eða frekar mikil áhrif á fjárhagsstöðu sína. Um 66% svarenda töldu hins vegar að áhrifin yrðu lítil eða engin. Þetta er athyglisverð niðurstaða. Þrátt fyrir könnunin hafi verið gerð strax eftir kynningu aðgerðanna kom skýrt fram í kynningunni að þorri skuldugra heimila gæti vænst þess að fá einhverja niðurfærslu skulda sinna.“

Hér í nefndaráliti okkar er ágætismynd sem sýnir þessa niðurstöðu könnunar Félagsvísindastofnunar sem Landsbankinn vitnar í.

Talsvert hefur verið fjallað um aðgerðir stjórnvalda. Sú umfjöllun er öll á svipuðum nótum og hefur komið fram hér að framan. Efast er um réttmæti aðgerðanna og að þær muni ná yfirlýstum tilgangi sínum. Slík einhliða neikvæð umræða um íslensk efnahagsmál erlendis hefur neikvæð áhrif á framvindu mála hér á landi til lengri tíma. Það má gera ráð fyrir því að hún gæti dregið úr tiltrú erlendra fjárfesta og fyrirtækja á íslensku atvinnu- og efnahagslífi og þar með hagvexti og batnandi lífskjörum. Umsagnir erlendra aðila um íslenska stjórnmálamenn í þessu sambandi hljóta að vera þungbærar þeim sem til sín taka. Í því sambandi má minnast orða Lars Christensens, aðalhagfræðings Danske bank, sem ég kannski fer þá með á íslensku núna en þegar ég vitnaði í orð hans síðast fékk ég að heyra bjölluhljóm af því að ég notaði erlenda tungu. Hann lýsir íslenskum stjórnmálamönnum sem skammsýnum og að þeir hafi það eitt að markmiði með gerðum sínum að tryggja endurkjör sitt við næstu kosningar.

Að öllu þessu samanlögðu, og er þó langt í frá allt talið, er ljóst að aðgerðir stjórnvalda til að lækka skuldir íslenskra heimila fá falleinkunn hjá allflestum sem um þær hafa fjallað. Það sem er þó meira um vert er að íslensk heimili telja sig fæst munu njóta nokkurs úr þessum aðgerðum sem þó eru þeim ætlaðar.

Fjárlaganefnd barst erindi frá fjármála- og efnahagsráðuneyti varðandi leiðréttingu á framkvæmd aðgerðarinnar og hvernig mæta skuli útgjaldaskuldbindingum í fjárlögum næstu ára.

Tillögur ráðuneytisins þar að lútandi eru bæði óljósar og óútfærðar að stærstum hluta. Það liggur þó alveg skýrt fyrir að fjármögnun útgjaldanna er ekki trygg og upphæð sem ætluð er til lækkunar skulda er mun lægri en áður hefur verið haldið fram. Í erindinu kemur fram að ríkissjóður verði milligönguaðili milli skuldara og tekjulindarinnar, þ.e. bankaskattsins, en beri enga ábyrgð á málinu að öðru leyti. Í því felist engin ábyrgð eða skuldbinding af hálfu ríkisins á aðgerðinni.

Í þessu sambandi hljóta að vakna upp spurningar um stöðu málsins gagnvart skuldurum. Miðað við erindi fjármála- og efnahagsráðuneytisins virðist það vera mat stjórnvalda að engin skuldbinding fylgi yfirlýsingu ríkisstjórnar um að tryggja lækkun skulda. Spyrja má hvort það sé í samræmi við fyrri yfirlýsingar stjórnvalda, t.d. þegar neyðarlögin voru sett 2008 og tryggðu innstæður í föllnu bönkunum. Enn fremur þarf að svara spurningum um hver verði staða skuldara ef málum er þannig háttað að skuldir hvíla áfram á þeirra herðum og ekki liggur fyrir nein formleg skuldbinding af hálfu stjórnvalda um að lækka þær. Því verður að svara skýrt hvort ganga megi að eignum þeirra og hvort bjóða megi upp eignir þeirra vegna vanskila. Enn fremur þarf að skýra stöðu lánveitenda, hvort þeir megi innheimta lán sín með því að ganga að veðum eða hvort þeir geti sótt á ríkissjóð varðandi þann hluta sem til stendur að lækka.

Í erindi fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að skatt á fjármálafyrirtæki eigi að nýta til að greiða niður höfuðstól verðtryggðra lána, 20 milljarða kr. á ári í fjögur ár, samtals 80 milljarða kr. Það kemur hins vegar fram hjá ráðuneytinu að þessa upphæð eigi að nýta — og þetta vakti athygli okkar í gær, en við fengum örstuttan tíma til að fara yfir þetta blað, um það bil tíu mínútur þegar búið var að lesa það upp fyrir okkur — til greiðslu á vanskilum, vöxtum, verðtryggingu og rekstrarkostnaði vegna málsins. Með öðrum orðum má skilja að allur kostnaður vegna málsins falli innan þessara 80 milljarða kr. Hvað getum við þá gefið okkur? Verða þá eftir 60–65 milljarðar kr.? Það er þá orðið ansi langt frá upphaflegum sögðum orðum um mun stærri fjárhæðir sem lofað var í aðdraganda kosninganna síðastliðið vor.

Í erindi fjármála- og efnahagsráðuneytisins koma líka fram efasemdir um að tekjurnar sem ætlaðar eru til að standa undir aðgerðinni innheimtist að fullu eða að hluta til. Ráðuneytið vekur athygli á þessu og segir að ef það gerist verði að bregðast við með einhverjum hætti, sem er þó ekkert sagt um hvernig eigi að gera eða hvernig geti orðið. Munum við þá þurfa að taka peninga af öðrum skatttekjum eða ætlum við að skera niður á móti því sem ekki innheimtist? Með þessum efasemdum ráðuneytisins er málið allt sett í mikla óvissu sem ljóst er að muni hafa áhrif jafnt á lántakanda sem lánveitanda. Enn fremur er mikil óvissa um hvernig eigi að bregðast við áætluðu tekjutapi ríkissjóðs vegna þess hluta aðgerðarinnar sem snýr að séreignarsparnaði en ráðuneytið metur hann upp á u.þ.b. á 3,5 milljarða kr., þótt tekið sé fram að erfitt sé að áætla tekjutapið nákvæmlega.

Ráðuneytið gerir einnig ráð fyrir því að aðgerðin muni leiða til aukinnar neyslu þeirra sem njóta hennar. Það er réttmætt að ætla svo enda beinist aðgerðin að tekjuhærra fólki sem nú þegar hefur rými til neyslu og mun því nýta viðbótarsvigrúm að öllum líkindum til frekari neyslu. Að sama skapi er þetta sá hluti aðgerðanna sem líklegastur er til að kalla fram neikvæð áhrif, aukna verðbólgu og hækkun vaxta. Það hefur komið skýrt fram. Ekkert er hins vegar um það fjallað í erindi ráðuneytisins frekar en aðrar neikvæðar afleiðingar millifærslunnar.

Ráðuneytið gerir ráð fyrir að framlag til jöfnunarsjóðs muni aukast um 0,4 milljarða kr. vegna aukinna skatta á fjármálafyrirtæki en ekki er gerð grein fyrir því hver önnur áhrif aðgerðanna á sveitarfélög kunna að verða. Ljóst er að um milljarða er að ræða miðað við yfirlýsingar formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga sem getið er um hér áður. Ef ríkisstjórnin ætlar ekki að láta sveitarfélögin bera þennan kostnað má ætla að sá kostnaður falli einnig innan heildarupphæðarinnar.

Annar minni hluti getur ekki stutt þessar aðgerðir að svo stöddu. Þær munu þó fá frekari umræðu þegar frumvarp kemur inn á Alþingi á vorþingi og þá verður hægt að greina aðgerðirnar betur. Við fyrstu sýn leysa þær ekki vanda þeirra sem eiga við greiðsluvanda að stríða en geta hins vegar bætt eignastöðu margra sem ekki ættu að þurfa á hjálp ríkisins að halda. Hættan er sú að aðgerðirnar leiði til aukins ójafnaðar, enn fremur að skattfé sem nýta á með skilvirkum hætti í þágu almennings verði nýtt til að greiða niður skuldir fólks sem ekki þarf á hjálp að halda. Þetta þykir okkur einkennileg forgangsröðun á tímum þar sem innviðir almannaþjónustu eru skornir niður með blóðugum hætti vegna þess að ekki er nægilegt fé til ráðstöfunar.

Hæstv. forseti. Ég bendi á að áliti 2. minni hluta fylgir minnisblað fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem lagt var fyrir fjárlaganefnd í gær og ég hef vitnað hér töluvert til.

Það samkomulag sem stjórnarandstaðan á Alþingi knúði stjórnarmeirihlutann til að gangast inn á við lok 2. umr. fjárlagafrumvarpsins sneið sannarlega sára agnúa af frumvarpinu. Tillögu meiri hlutans um lækkun barnabóta og afnám desemberuppbótar handa atvinnuleitendum og stuðnings við brothættar byggðir voru snúnar niður á lokametrum umræðunnar en auk þess voru framlög til ýmissa sjóða lítillega aukin, svo sem eins og hönnunarsjóðs og myndlistarsjóðs. Þá voru heimildir til að innheimta komugjöld af sjúklingum á spítölum felldar niður en það er að sjálfsögðu grundvallaratriði sem þarfnast ítarlegrar umræðu í heildarsamhengi um þann kostnað sem sjúklingar bera og var sannkallað smyglgóss inni í fjárlagafrumvarpinu.

Hæstv. forseti. Fjárlögin munu hafa slæmar afleiðingar fyrir hag almennings í landinu. Nú þegar höfum við séð fjöldauppsagnir hjá Ríkisútvarpinu. Framlagning frumvarpsins varð til þess að afar hæfur stjórnandi Landspítala sagði upp störfum með þeim orðum að hann vildi ekki vera sá sem leiddi sjúkrahúsið fram af bjargbrúninni. Blóðugur niðurskurður á framlögum til nýrra og vaxandi atvinnugreina mun verða til þess að hefta viðgang þeirra og þróun og leiða til fækkunar starfa, og það hefur ítrekað komið fram mjög víða. Ákvörðun meiri hlutans um niðurskurð til þróunarmála og þróunaraðstoðar getur ekki talist siðleg þegar horft er til þess að Ísland er í hópi 20 ríkustu þjóða heims en hefur verið að styðja við ríki sem skipa neðstu sætin á lista yfir ríkidæmi þjóða. Svo mætti lengi áfram telja.

Undir lok umfjöllunar Alþingis um frumvarpið fyrir árið 2014 ákvað ríkisstjórnin að fara í viðbótarniðurskurð á aðalskrifstofum ráðuneyta til að mæta auknum útgjöldum annars staðar. Viðbrögð ráðuneyta við 5% viðbótarniðurskurði í rekstri þeirra benda til þess að ekkert mat hafi verið lagt á áhrif þess á rekstur ráðuneytanna. Í stöðluðum svörum þeirra allra kemur fram að óljóst sé hvernig brugðist verði við niðurskurðinum en ljóst að hann muni hafa mikil áhrif á rekstur ráðuneytanna. Það kemur fram hjá þeim öllum að óhjákvæmilegt sé í þessu sambandi að horfa til launaliða við niðurskurðinn. Nefna má að mennta- og menningarmálaráðuneytið bendir á að umfang niðurskurðarins nemi um sex til sjö stöðugildum. Ljóst hlýtur að vera að fjöldi starfa muni tapast við þennan niðurskurð sem þó leggst við önnur töpuð störf. Þar að auki hlýtur það að teljast meira en lítið undarlegt að ráðherrar sem sjálfir hafa lagt til viðbótarniðurskurð í ráðuneytum sínum hafi hvorki lagt mat á áhrif hans né geti svarað því hvernig verði brugðist við innan þeirra ráðuneyta.

Hæstv. forseti. Ríkissjóður mun verða fyrir miklu tekjutapi í kjölfar samþykktar þessa fjárlagafrumvarps og hliðarfrumvarpa þess. Það sama má segja um sveitarfélögin í landinu, bæði vegna boðaðra aðgerða stjórnvalda vegna skuldaniðurfærslu verðtryggðra skulda og aukins atvinnuleysis vegna fjárlagafrumvarpsins. Um það var fjallað í nefndaráliti við 2. umr. og er vísað til þess sem þar kemur fram hvað þetta varðar.

Einhverjar lagfæringar hafi verið gerðar á frumvarpinu á milli 2. og 3. umr. fyrir þrýsting stjórnarandstöðu og almennings, sem er vel, og við í minni hluta fjárlaganefndar stöndum að nokkrum þeirra, samanber verkefni eins og Brothættar byggðir, liðinn Listir, aukið framlag til háskólans til þess að kaupa örgreini, sem er nauðsynlegur vegna efna- og öskugreiningar þegar eldgos verður, 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna, svo fátt eitt sé tekið. Við studdum að sjálfsögðu að sjúkrahúsin yrðu ekki látin taka á sig þann niðurskurð sem fólst í því að draga til baka innritunargjöldin.

Þrátt fyrir þetta endurspeglar fjárlagafrumvarpið enn þá skýru hægri stefna sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Þar er öll áherslan á niðurskurð sem réttlættur er með nauðung um leið og sköttum er létt af þeim aðilum sem einna helst geta borið þá en þar nefnum við að sjálfsögðu helst sérstaka veiðigjaldið. Um leið er horfið frá fjárfestingum í vaxtargreinum á borð við rannsóknir, þróun, nýsköpun, ferðaþjónustu og skapandi greinar. Þær tillögur, sem 2. minni hluti lagði fram við 2. umr. og voru því miður felldar, byggjast á blandaðri leið tekjuöflunar og aðhalds auk þess sem áhersla er lögð á að hefja uppbyggingu almannaþjónustu til að efla á nýjan leik velferðarkerfi landsmanna, skólakerfi og heilbrigðisþjónustu, enn fremur að örva fjárfestingu þannig að hér á landi verði stuðlað að sjálfbærum vexti og aukinni verðmætasköpun án þess að ganga um of á takmarkaðar auðlindir landsins. Það er í takt við umræðu á alþjóðavettvangi þar sem æ fleiri taka undir þau sjónarmið að nauðsynlegt sé að örva hagkerfið í þrengingum og ekki sé einfaldlega hægt að spara sig út úr kreppu. Ég fór mjög ítarlega yfir þau álit í fyrri ræðu í minni. Þessi fjárlög stefna því miður í aðra átt.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram um þá vinnu sem við höfum átt í fjárlaganefnd og hefur verið misstrembin, skulum við segja, því miður verið unnin á of miklum hraða og óneitanlega mjög erfitt að vinna samhliða algerlega fjáraukalagafrumvarp og fjárlögin. Ekki nóg með það, heldur var tíminn svo knappur og breytingarnar gerðust svo ört að maður náði nánast ekki að halda utan um það og pappírum var jafnvel skipt út á fundum. Það er mjög miður og eykur að sjálfsögðu líkurnar á því að okkur verði á mistök sem við vildum síður að yrði. Viljum við það? Með þetta að veganesti held ég að við förum inn í nýja árið með ósk um það, sem ég tel að við viljum öll í fjárlaganefnd, að geta skilað frá okkur góðri og ábyrgri vinnu.

Ég vil að lokum þakka fyrir samstarfið í nefndinni. Eins og ég segi er það búið að vera misstrembið en hefur þó skilað því að samkomulag hefur náðst um suma hluti en því miður ekki aðra eins og gengur og gerist. Ég vil sérstaklega líka þakka starfsmanni okkar í minni hlutanum á fjárlagasviðinu sem hefur reynst ómetanlegur í mjög mörgu sem upp hefur komið og þegar við höfum þurft á nánari aðstoð að halda.