143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[13:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt, við höfum ekki alltaf verið sammála um þetta stóra mál, flugvallarmálið í Reykjavík. Ég held að það skipti mjög miklu máli, ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að flugvöllur skuli vera í Reykjavík. Það er sérstakt fagnaðarefni að borgarstjórn Reykjavíkur skuli sameinast í því verkefni með ríkinu að fullkanna alla kosti í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst að menn eigi að horfa á þann árangur sem náðist í þessu samkomulagi, að fá fólk til þess að setjast að því borði og fullkanna kosti á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikill árangur. Það er líka mikill árangur fyrir ríki og Reykjavíkurborg að hafa komist að þeirri niðurstöðu að völlurinn fái að vera áfram í óbreyttri mynd, tvær brautir, fram að þeim tíma sem skiptir svo miklu máli.

Á tímabili leit út fyrir að það mundi ekki gerast en því hefur verið afstýrt. Ég hvet líka þingheim til að leyfa fólki að fara í gegnum þessa umræðu og athuga hvort við getum fundið lausn, líkt og mér finnst borgarstjórn hafa gert í þessu verkefni, þrátt fyrir ólíkar skoðanir á málinu. Ég skil alveg þær ólíku skoðanir. Mér finnst stundum eins og menn séu orðnir svo vanir að rífast um þetta mál að við höldum áfram að rífast um það þrátt fyrir að verið sé að leita sátta í því.

Ég hvet okkur til þess að leyfa þessari nefnd, sem er undir forustu Rögnu og í sitja fulltrúar ríkis, Reykjavíkurborgar og flugrekstraraðilans á svæðinu, Icelandair, með aðkomu og samráði við alla þá sem hafa komið að málinu, að klára störf. Það verður leitað álits og farið í samráð við almenning líka og ég hvet okkur til þess að gefa þessu þann tíma sem þarf. Það eru nokkrir mánuðir sem menn þurfa til þess að fara yfir þetta og menn geta tekist á um það meðan á því stendur hvort flugvöllur skuli vera áfram í Reykjavík og jafnvel tekið einhvern slag í því í kosningabaráttunni í vor. Ég geri ekki neinar athugasemdir við það, ég er fyrst og síðast að brýna okkur í því að leyfa þessu verkefni að klárast. Ég er þeirrar skoðunar, bæði af vettvangi borgarstjórnar og þingsins, að hægt sé að finna sátt um flugvöll í Reykjavík. Ef það tekst er það stórkostlegur árangur (Forseti hringir.) sem tryggir að við förum ekki í gegnum það kjörtímabil eftir kjörtímabil, (Forseti hringir.) stjórnmálaflokk eftir stjórnmálaflokk, meiri hluta eftir meiri hluta, (Forseti hringir.) að rífast um þetta mál.