143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru mörg slagorðin búin að vera í þessari umræðu. Eitt er „fyrir heimilin í landinu“. Það þarf miklu meiri tíma ef á að reyna að ræða það málefnalega en gefst í stuttu andsvari. Í fyrsta lagi er þetta ekki aðgerð sem tekur til allra heimila í landinu og er órafjarri því. Þegar upp verður staðið gagnast hún tiltölulega þröngum hópi heimila, þeirra sem eru með verðtryggð lán, þeirra sem ekki höfðu fengið neina úrlausn áður. Við getum sagt að það sé sanngjarnt, en þetta gengur líka í verulegum mæli til heimila sem eru í ágætri stöðu, eiga ágætar eignir, eru með háar tekjur, en vissulega með einhver verðtryggð lán á þeim eignum. Þetta gerir ekkert fyrir leigjendur. Það er eins og hver annar brandari að tala um að þeir fái einhverja úrlausn þarna.

Halda menn að fólk í Félagsbústöðum sé almennt líklegt til þess að fara að leggja 4% tekna sinna til hliðar í séreignarsparnað í því skyni að reyna að komast yfir húsnæði einhvern tímann seinna? Þetta gerir ekkert fyrir þann stóra hóp, sem er hátt í fjórðungur, sem skuldar ekki í sínu húsnæði, að uppistöðu til eldra fólkið sem er búið að borga skuldir sínar, það fær ekkert út úr þessum aðgerðum. Það eru líka heimili. Leigjendur búa líka á heimilum. Eldra fólk býr líka á heimilum. Landsbyggðin býr á heimilum og fólk þar fær sáralítið út úr þessari aðgerð, ósköp einfaldlega vegna þess að fasteignaverð er þar miklu lægra og skuldir fylgjandi miklu lægri. Þetta er fyrsta klisjan sem þarf að koma í burtu, að þetta snúist um öll heimilin í landinu. Það gerir það ekki.

Var ekki forsendubresturinn jafn fyrir alla? Nei, hann var það ekki. Eingöngu ef þú horfir á þetta þrönga tímabil. En það voru ekki allir að taka sín lán eða byggja sín hús á því tímabili. Ég held að eðlilegra sé að líta yfir líftíma lána og horfa til þess hvort eitthvað hafi gerst sem hefur breytt stöðunni fyrir mann sem tók verðtryggt lán 1995. Er hann að ráðstafa eftir þetta hærra hlutfalli tekna sinna, ef hann er með meðaltekjur, í afborganir af láninu en hann gerði áður? Nei, hann er að ráðstafa lægra (Forseti hringir.) hlutfalli teknanna. Þar er enginn forsendubrestur í þeim skilningi.