143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar.

89. mál
[18:36]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Frú forseti. Mig langar að koma hingað upp til að lýsa yfir ánægju minni með þá tillögu til þingsályktunar sem hv. formaður velferðarnefndar, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hefur sett fram ásamt flutningsmönnum úr öllum flokkum, þar með talið mér.

Eins og þingmaðurinn nefndi áðan þá áttum við ákaflega gott samstarf í velferðarnefnd þegar við fjölluðum um tillöguna. Ljóst er að fólk er á sama máli og það mátti líka heyra á þeim gestum sem komu til okkar. Það ganga allir í takt í þessu efni en auðvitað finnst mörgum, og mér þar meðtalinni, hlutirnir ganga of hægt fyrir sig varðandi það að geðrænum sjúkdómum sé nógu vel sinnt hér á Íslandi. Það eru allir af vilja gerðir og við erum á réttri leið en það mætti ganga hraðar.

Vonandi verður þessi þingsályktunartillaga samþykkt og við getum farið að vinna að þessu öll saman.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra en vil enn og aftur þakka flutningsmanni tillögunnar fyrir og hlakka til að fá vonandi að greiða atkvæði um þessa þingsályktunartillögu sem fyrst í þinginu.