143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[17:45]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stuðninginn. Það yrði eflaust á könnu Matvælastofnunar að hafa eftirlit með því að merkingar séu réttar og að halda utan um þessi mál. Það mundi þurfa heimasíðu og einhverjar upplýsingar og síðan væri það Matvælastofnun sem mundi fylgjast með þessu.

Í ljósi þess að þessi merking er orðin frekar útbreidd í Bretlandi, ég held að um 60% fyrirtækja þar á markaði noti hana, þá munum við líka sjá hana hér. Ég er þegar farin að sjá matvæli þar sem þessar merkingar eru á umbúðum, það er mjög áhugavert. Við njótum þessa því að sumu leyti en markmiðið er að fá íslenska framleiðendur til að taka þátt.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir með hraðann, það er einmitt einn þáttur í þessu. Það er svo mikilvægt að merkingin sé framan á vörunni og síðan eru litirnir þannig að þú meðtekur upplýsingarnar um leið í staðinn fyrir að þurfa að snúa vörunni við og sjá þá að það eru 4 g af salti í hverjum 100 g — og hvað? Ég er í sjálfu sér engu nær þótt ég hafi þær upplýsingar nema ég hafi virkilega kynnt mér málið.