143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:13]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir skýrslugjöfina og tækifærið til þess að ræða þessi mikilvægu mál í þinginu og sömuleiðis vil ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað af miklu viti og hófsemd. Ég þakka þessa góðu umræðu.

Menntun og uppeldi er sennilega eitthvað það mikilvægasta sem við eigum og eitthvert mikilvægasta verkefni samfélagsins. Skólakerfið, sú menntun og það uppeldi sem við bjóðum börnunum okkar er sennilega eitthvað það mikilvægasta veganesti sem samfélagið sjálft getur búið sér fram í tímann. Niðurstöður PISA-könnunar eru, eins og komið hefur fram hjá svo mörgum hér í dag, vissulega vonbrigði þó svo að það séu líka mjög jákvæðir punktar í þessum niðurstöðum sem lúta að líðan nemenda og öðrum þáttum sem eru fyrir utan þau þrjú grunnsvið sem verið er að mæla, þ.e. lestur, stærðfræði og náttúrufræði. PISA-prófið sýnir okkur fyrst og fremst niðurstöður úr þessum grunnþáttum en það er líka mjög mikilvægt að við drögum lærdóm af því sem niðurstöðurnar skila okkur.

Ég vil minnast á lestur, sem fleiri þingmenn hafa talað um hérna, en ég vil sérstaklega tala um niðurstöðurnar í náttúrufræði. Þar hafa íslenskir nemendur frá upphafi verið áberandi neðar en í öðrum greinum og sú þróun heldur áfram. Við þurfum augljóslega að leggja meira á okkur þegar kemur að náttúrufræðikennslu og við vitum að það er skortur á sérmenntuðum kennurum í náttúrufræðikennslu.

Til allrar hamingju er skólakerfið á Íslandi stórt, flókið og mikið system, það er lifandi kerfi sem situr ekki bara og bíður eftir þeim stóradómi sem PISA-niðurstöðurnar eru. PISA-niðurstöðurnar eru fengnar í skólakerfum Íslands alveg eins og samræmd próf, annað innra mat eins og niðurstöður úr Skólavoginni, eins og verkefnið um ytra mat á skólastarfi sem gefið hefur mjög góða raun í Reykjavík og er nú verið að víkka út um allt landið. Mælingar á líðan barna eru notaðar í skólaþróun og er mjög mikið til af góðum rannsóknum, góðum skýrslum. Ég bendi t.d. á vef skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar á reykjavik.is, en þar má nálgast mjög margar góðar rannsóknir.

Sá sem hér stendur átti í fyrra lífi líf sem borgarfulltrúi og var þá svo heppinn að sitja í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar og taka þátt í að fylgjast með skólaþróuninni. Ég get fullyrt að þar er mjög gott starf unnið. Ég vil sérstaklega staldra við vinnu sem ég átti þátt í þar í starfshópi um námsárangur drengja, en þar unnum við mikið starf í á annað ár undir stjórn Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur borgarfulltrúa. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu 2011 þar sem við fórum nokkuð djúpt í greiningar á námsárangri drengja og skoðuðum leiðir til úrbóta.

Þá kom í ljós að það eru margar leiðir til þess að glæða áhuga drengja á námi sem notaðar eru erlendis en líka í skólunum okkar og má vel læra af. Það eru oft tiltölulega einföld atriði eins og t.d. að það skiptir drenginn mjög miklu máli í upphafi kennslustundarinnar að hann viti hvað hann eigi að vera búinn að læra í lok hennar, en það skiptir stúlkurnar að því er virðist ekki jafnmiklu máli, það er ekki lykilatriði. Þetta getur verið spurning um hvort drengurinn fylgist með í þessum tíma eða ekki.

Það er hættulegt að líta svo á að tölvuleikir séu af hinu illa og ef við getum útrýmt þeim verði allt gott. Það eru heldur ekki góð skilaboð til drengjanna okkar sem lifa innan um tölvuleiki og spila þá að það sem þeir læra í tölvuleikjum sé einskis nýtt.

Að lokum vil ég taka undir með öðrum þingmönnum sem talað hafa um mikilvægi samspils skóla og heimilis; við ölum okkur ekki upp, við skólum ekki börnin okkar bara í stofnuninni, þetta er samvinnuverkefni skólanna og heimilanna, og það hvernig við (Forseti hringir.) styðjum við skólastarfið og hvernig við tölum um skólann við eldhúsborðið skiptir ekki síður máli en hvernig skólinn er inn á við.