143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi samningur skapar samt sérstakan farveg til að eiga pólitískan díalóg af þessu tagi. Til að mynda felur vinnusamkomulagið sem Íslendingar og Kínverjar eru búnir að setja stafi sína undir, en ráðherrar landanna hafa ekki enn staðfest, í sér þann möguleika fyrir hæstv. utanríkisráðherra, ef hann svo kýs, að hafa fulltrúa ASÍ í þeirri sendinefnd sem fer af Íslands hálfu til að framkvæma það samkomulag annað hvert ár. Það stendur ekki bara í textanum, heldur hefur verið gert uppskátt gagnvart Kínverjum að til þess geti komið. Mér er ekki kunnugt um að þeir hafi gert nokkrar athugasemdir við það. Það skiptir máli að geta haft í slíkum sendinefndum fulltrúa frá verkalýðshreyfingunni á Íslandi til að setja fram sín sjónarmið um vinnuvernd.

Þarna eru tvenns konar þættir undir. Annars vegar þurfum við auðvitað að tryggja það í gegnum þessi samkomulög sem þarna tengjast hvort öðru að Kínverjar fari að þeim samþykktum sem þeir hafa sjálfir gengist undir frá Alþjóðavinnumálastofnuninni og hins vegar er það mannréttindavinkillinn sem er alveg sérstakur. Pólitískur díalógur í krafti þess farvegar sem forsætisráðherrar landanna eiga sín á milli annað hvert ár er líka kjörinn til þessa.

Hv. þingmaður hefur fyrirvara við afstöðu sína sem, eins og hann útskýrði og reyndar einn annar hv. þingmaður líka, felst í því að það er ekki búið að staðfesta samninginn og þá verð ég að segja að það er ekki einu sinni bitamunur. Textinn er skýr og embættismenn beggja vegna hafa staðfest hann.

Hæstv. utanríkisráðherra er hér og þess vegna væri gaman ef hann upplýsti um afstöðu ASÍ til lokagerningsins. Það væri gaman að heyra það og fróðlegt því að öðrum þræði (Forseti hringir.) hefur verið blæbrigðamunur á skoðunum manna út frá afstöðu ASÍ.