143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í dag ræðum við um fríverslunarsamning við Alþýðulýðveldið Kína. Hann mun renna greiðlega í gegnum þingið án nokkurra vandkvæða, enda allir flokkar nema Píratar hlynntir því að samþykkja samninginn. Segja má að við séum að fullgilda silkileið norðursins, en undirbúningur hennar hófst fyrir allnokkru síðan. Kapphlaupið um auðlindir á norðurslóðum er hafið þar sem gullæði mun renna á fólk og fyrirtæki, þar sem Íslendingar halda að þeir fái brauðmola af borði kínverska drekans á slóðum eyðileggingar og arðráns auðlinda sem talið er að með svokallaðri nýtingu geti stofnað lífríki jarðar í enn frekari vá. En það er allt í lagi. Við fáum ódýrt dót frá Kína, fáum fína merkjavöru á spottprís sem fólk í þrælabúðum býr til á næturnar. Hverjum er svo sem ekki sama þótt einhver þurfi að þjást eða deyja fyrir neysluna okkar? Það mundi hvort eð er bara einhver annar fara illa með þetta fólk ef við gerðum það ekki. Hverjum er svo sem ekki sama þótt aðrar þjóðir sem hafa gert skilyrt lán og samninga við alþýðulýðveldið séu orðnar þrælakistur og séu arðrændar meðan brauðmolarnir falla í skaut okkar á spottprís? Hverjum er ekki sama þótt verndaðir skógar séu í skjóli spillingar hreinsaðir og lóðsaðir beint um borð í kínversk kargóskip og lenda svo inn í stofum okkar eftir smákrókaleiðum? Þetta er svo ódýrt og gott fyrir þjóðarbúið okkar.

Það er gaman að hafa svona öflugan „utanríkisráðherra“, forseti, að hann hefur setið sleitulaust í nærri fimm kjörtímabil og skreytir innganga að opinberum híbýlum sínum með myndum af sér og algóðum kommúnistaforingjum og hersveitum þeirra. Þessi utanríkisráðherra er jafnframt forseti lýðveldisins Íslands og hefur verið ötull talsmaður tveggja póla; fengið verðlaun fyrir umhverfisverndarlausnir í hugsjón um jarðvarma og vill á sama tíma opna með alvörusilkiborða silkileið norðursins. Það var Ma Kai sem staðfesti að silkileið norðursins væri sameiginlegur draumur íslenskra ráðamanna og kínverskra, en hann kom nýverið til Íslands að undirlagi íslenskra stjórnvalda.

Fjölmiðlar hafa algjörlega brugðist hlutverki sínu í því að halda þjóðinni upplýstri um mikilvæg málefni er varða hagsmuni þjóðarinnar nú eins og fyrir hrunið. Heimsókn þessa valdamikla ráðamanns hefur nánast enga umfjöllun fengið í íslenskum fjölmiðlum. Enginn veit nákvæmlega hvers vegna kínverska varaforsætisráðherranum var boðið til Íslands. Í stuttri frétt á heimasíðu forsætisráðuneytisins er fjallað um samtal Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Ma Kai. Í lok fréttarinnar frá ráðuneytinu kemur fram að kínverski ráðherrann bauð forsætisráðherra Íslands í heimsókn til Kína við fyrsta tækifæri.

Samkvæmt blogginu „Með kveðju frá Kína“ birtist frétt um heimsókn Ma Kai til Íslands á Xinhua, sem er aðalfréttaveita kínverska ríkisins. Samkvæmt blogginu er sama frétt höfð orðrétt eftir í fleiri kínverskum fjölmiðlum. Með leyfi forseta, ætla ég að leyfa mér að vitna í bloggið:

„Í fyrirsögn fréttarinnar segir að Ma Kai hafi átti fund í Reykjavík með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands. Vitnað er í Ma sem segir meðal annars að á milli landanna ríki gagnkvæmt traust og einlægur vinskapur. Þá er vitnað í Ólaf Ragnar sem segir að í kjölfar íslensku fjármálakreppunnar hafi verið mikilvægt að efla viðskipti og fjárhagslega samvinnu milli landanna. Þessa samvinnu þurfi að þróa betur og hraðar, er haft eftir Ólafi. […] Lokaorð fréttarinnar eru þó einna athyglisverðust en þar segir að Ísland óski eftir því að þróa „silkileið norðursins“ með Kína. (Gripið fram í.)

Í framhaldi af heimsókn Ma Kai hóf utanríkisráðherra Íslands upp raust sína í viðtali á Bloomberg fréttavefnum og sagði að við Íslendingar ættum að nýta þann áhuga sem Kínverjar sýna Íslandi, en gera það á okkar forsendum.

Nú er ekki víst að forsendur Íslendinga geti ráðið ferðinni í samningum við stórveldi. Kína er fjölmennasta ríki veraldar en á Íslandi búa um 320 þúsund manns. Kínverjar gera allt á eigin forsendum og eru mjög góðir í því. Stjórnvöld í Kína eru þekkt fyrir áætlanagerð og skipuleggja þá gjarnan langt fram í tímann. Þau eru heldur ekki þekkt fyrir að bjóða samvinnu við önnur lönd nema fá eitthvað í staðinn.

Framtíðarsýn kínverskra yfirvalda virðist miða að því að tryggja góðar samgöngur fyrir kínverskar vörur til Evrópu, einskonar nútímasilkileið. Miðstöðvar til uppskipunar og annars konar athafnasvæði eru mikilvægur hluti af slíkum áætlunum. Kaup Kínverja á hafnarsvæðum í Grikklandi styðja þessa kenningu sem og áhugi þeirra á Íslandi og norðurslóðum.

Fyrir okkur Íslendinga er nú nauðsynlegt að fá að vita hvort íslensk stjórnvöld séu í fullri alvöru að vinna að því að gera Ísland að einhvers konar kínverskri bensínstöð á þessari nýju leið frá Kína til Evrópu.“

Forseti. Arðrán kínverskra fyrirtækja — nú stríðir tölvan mér. (Gripið fram í: Ætli hún sé „made in China“?) Já, það eru bitar (Gripið fram í.) í henni „made in China“.

Arðrán kínverskra fyrirtækja á auðlindum þjóða sem alþýðulýðveldið hefur gert fríverslunarsamninga við hefur afhjúpast hægt og bítandi. Helsta aðferðafræði þeirra er á þann veg að kínverski alþýðubankinn býður hagfelld lán en þó háð miklum skilyrðum. Í sumum tilfellum eru skilyrðin á þann veg að kínversk ríkisfyrirtæki og undirfyrirtæki þeirra fá skilyrtan einkarétt á auðlindum þjóðanna; gasi, olíu, góðmálmum, trjám og svo mætti lengi telja. Þessi skilyrði gilda yfirleitt í um 50 ár. Þess má geta að auðlindirnar eru fluttar milliliðalaust og oft með miklum tilkostnaði fyrir viðkvæm landsvæði þessara landa. Það falla engir brauðmolar í skaut alþýðu þessara landa. Einu brauðmolarnir lenda í vörslu spilltra embættismanna og stjórnmálamanna.

Hrikalegar sögur hafa heyrst um aðbúnað og kjör verkafólks í þessum þróunarlöndum. Löndin fyllast síðan af ódýrum kínverskum vörum og innlendar vörur eiga hreinlega ekki séns í að keppa við þessar vörur í verðlagi. Mörg smærri og meðalstór fyrirtæki hafa hreinlega þurrkast út á ótrúlegum hraða á þessum slóðum.

Þetta á ekki bara við „stan“-ríkin eða Afríkuríkin eða rómönsku Ameríku, þó að hinir nýju alþýðulýðveldisnýlenduherrar hafi látið sig lítið varða mannréttindi, náttúruvernd eða hagsæld þeirra þjóða sem þau hafa gert stórfína samninga við. Þetta á líka við um ríki Evrópu. Þess má geta að það er að koma út ný bók sem fjallar einmitt um ítök og samninga og brot á samningum kínverska alþýðulýðveldisins á okkar slóðum.

Við skulum hafa það í huga að þessir samningar, hvort sem þeir eru góðir eða vondir, verða hvort eð er aldrei virtir.

Forseti. Alþýðubanki vina okkar í austri gerði tilboð í að kaupa einn af hrunbönkunum okkar, en enginn hefur tekið saman alla þræði í alvörufréttaskýringu. Eina manneskjan sem hefur alltaf staðið vaktina og reynt að vekja okkur til umhugsunar á hvaða vegferð við erum gagnvart kínverskum yfirvöldum og leppum þeirra er rannsóknarbloggarinn Lára Hanna. Ég ætla að vísa í færslu frá henni frá því í dag, með leyfi forseta:

„Engin umræða hefur farið fram í samfélaginu um þennan fríverslunarsamning milli stærstu og fjölmennustu þjóðar heims og einnar minnstu. Aðrar Evrópuþjóðir hafa enga reynslu af fríverslunarsamningi við Kína, enda hafa þær ekki gert slíkan samning. Mér vitanlega hafa engar rannsóknir farið fram á hugsanlegum afleiðingum slíks samnings. Ekki hefur farið fram nein umræða um annan samning sem gerður er samhliða fríverslunarsamningnum.“ — Það er þessi vinnumálasamningur sem enn á eftir að klára.

„Samskipti einnar minnstu þjóðar heims og þeirrar stærstu og fjölmennustu þykir ekki fréttaefni, a.m.k. ekki hjá þeirri litlu sem sú stóra getur kramið með litla fingri eins og flugu. Ef eitthvað kemur upp og það mun gerast getum við ekki stólað á aðstoð Evrópuríkja þar sem núverandi ríkisstjórn og forsetinn hafa snúið baki við á ruddalegan hátt.“

Forseti. Það er kannski ekki nein tilviljun að í gær var gefið út þriðja sérleyfið til rannsókna á vinnslu og olíu og gasi á Drekasvæðinu. Langstærsta leyfið, eða 60% hlut, hlaut kínverska ríkisfyrirtækið CNOOC, sem er reyndar búið að gera að dótturfyrirtækinu CNOOC Ísland ehf.

Ég er meðvituð um að þessi samningur er haglega saminn og inn í hann ofin falleg orð eins og t.d. mannréttindi, fullveldi, hugsjónir og friður. Ég er ekki í neinum vafa um að íslenska samninganefndin hefur staðið sig mjög vel og náð tímamótasamningi við Alþýðulýðveldið Kína. Húrra fyrir því. Það er ekki henni að kenna að samningsþjóðirnar, hvorki Ísland né Kína, munu sennilega ekki virða samninginn til hins ýtrasta, enda eru báðar þjóðir heimsþekktar fyrir að skauta á gráu svæðunum. „Löglegt en siðlaust“ er máltæki sem fest hefur sig í sessi hjá þeim sem meira mega sín og kunna að snúa sig úr viðjum laga eins og háll áll í stórmöskvuðu neti, því kerfið er grisjótt, það vita allir.

Þegar ég lýsti yfir áhyggjum mínum í tengslum við þennan samning hér á Alþingi og óskaði eftir því að við mundum stíga varlega til jarðar og grandskoða samninginn innan þings og lýsti yfir ósk um að þingmenn kynntu sér af kostgæfni sögu samningsrofa víðs vegar um heim, var lítið gert úr varnaðarorðum mínum. Ég óttast að allt of fáir kynni sér þessa sögu. Þó er hægt að lesa sér til um vafasama starfshætti kínverskra fyrirtækja — þá er ég að tala um ríkisfyrirtæki fyrst og fremst — í þróunarlöndum í bókinni China´s Silent Army. Mannréttindi ber að virða út frá viðskiptahagsmunum.

Það mátti skilja orð þingmanns hér fyrir nokkrum mánuðum sem ber höfuðábyrgð á þessum fríverslunarsamningi sem svo að ekki væri hægt að gera svona samning við Hvíta-Rússland vegna mannréttindabrota þar í landi, en okkur bæri skylda að gera svona samning við Kína til að við gætum haft raunveruleg áhrif á stefnu þeirra. Ég skora á núverandi ríkisstjórn að gera fríverslunarsamning við Norður-Kóreu og Hvíta-Rússland, því þar getum við svo sannarlega komið að umræðum og tillögum að bættari mannréttindum. Hvað stendur í vegi fyrir því? Og hvað með Íran? Ekki veitir nú af að gera fríverslunarsamning við Íran. Þar eru Kínverjar að gera góða hluti út af því að enginn vill versla við Íran.

Það eru svo margar hættur sem okkur ber að varast. Nú þegar höfum við gert vinum okkar á Taívan óleik með því sem stendur í samningnum og mundi ég vilja að fólk gerði sér grein fyrir því hvað er verið er að viðurkenna í okkar nafni úti í hinum stóra heimi. Í lokaorðum samningsins stendur eftirfarandi:

„Ísland fylgir þeirri stefnu að Kína sé eitt og óskipt ríki og styður friðsamlega þróun samskipta yfir sundið og þá viðleitni að Kína sameinist á ný með friðsamlegum hætti. Kína metur mikils fyrrnefnda afstöðu ríkisstjórnar Íslands.“

Hvað þýðir þetta? Jú, það hefur verið stefna Íslendinga að viðurkenna sameinað Kína, sem er með öðrum orðum að viðurkenna hernám Kína í Tíbet og einangrunarstefnu gagnvart Taívan til að innlima það inn í móðurlandið.

Það sem mér finnst þó sorglegast við þennan texta er að við styðjum viðleitni Kína að sameinast á ný með friðsamlegum hætti. Viðleitni Kína hefur langt í frá verið friðsamleg. 122 Tíbetar hafa t.d. kveikt í sér síðan 2009 í þeirri von að ákall þeirra um hjálp verði veitt áheyrn einhvers staðar í heiminum. En okkur er alveg sama.

Í Tíbet hafa kínversk yfirvöld stundað menningarlegt þjóðarmorð. Ég segi það út af því að ekkert land í heiminum nema Tíbet er á þeim skala að fólkinu þar fækkar. Ekkert annað land í heiminum. Tíbetum fækkar, þeim fjölgar ekki.

Það getur varla talist friðsamleg leið að sameiningu að stunda menningarlegt þjóðarmorð, hvað þá hæglátt þjóðarmorð. Það eru fjöldamörg dæmi um að Kína, í tengslum við svona samninga við önnur lönd, hafi samið Taívan út úr þeim. Það hlýtur að vera umhugsunarvert að þeir vildu ekki semja gegnum EFTA sem er miklu betri kostur fyrir okkur, því að þar erum við í það minnsta í vari sem gerðardómur EFTA býður upp á ef kínverska alþýðulýðveldið skyldi taka upp á því að fara á svig við samninginn.

Ég hef lýst yfir áhyggjum mínum. Svo virðist sem ég sé nokkuð ein í því ásamt hinum pírötunum mínum. Það hryggir mig. Það hryggir mig einfaldlega út af því að þegar einhver á svo mikil ítök í litlu landi eigum við ekki séns, það er bara þannig. Maður þarf ekki annað en horfa til Noregs. Þegar sjálfstæð nefnd, nóbelsnefndin, ákveður að veita friðarverðlaun til aðila sem ekki þóknast kínverskum yfirvöldum, aðila sem hefur barist fyrir lýðræðisumbótum í Kína, refsar Kína norska ríkinu. Þeir hafa gert það lengi. Ef við gerum víðtækari samninga við kínversk yfirvöld munum við verða rétt eins og allar aðrar þjóðir sem hafa verið í nánum og stórfelldum viðskiptum við kínversk yfirvöld í nákvæmlega sömu stöðu. Nákvæmlega. Hvaða „leverage“ höfum við ? Ekkert.

Kínversk yfirvöld hafa nú þegar fengið nokkra hluti í gegn. Þau vilja fá meiri aðkomu að kapphlaupinu um norðurslóðirnar. Þar höfum við stutt kínversk yfirvöld með ráðum og dáð. Ég vil bara segja það að eftir örfáa daga er orðið of seint að snúa við. Það verður of seint að snúa við. Mikil er ábyrgð þeirra sem ætla að gera þennan samning. Hún er mikil. Það er kannski eina von Íslendinga að ganga bara í Evrópusambandið ef þetta fer að líta illa út fyrir okkur, það er kannski ósk hæstv. utanríkisráðherra að flýta fyrir því.

Mig langar að lokum að hvetja þá þingmenn sem hafa ekki kynnt sér samningshætti kínverskra yfirvalda í öðrum löndum að gera það og gera það af fullri eindrægni. Ég hef gert það, þess vegna er ég óróleg. Ég hef kynnt mér mjög vel hvernig þeir haga sér í öðrum löndum, þess vegna er ég óróleg. Mér þykir vænt um kínverskt fólk alveg eins og mér þykir vænt um tíbeskt fólk eða Íslendinga eða einhverjar aðrar þjóðir, en mér þykir ekki vænt um aðferðafræði og háttsemi kínverskra yfirvalda. Ég mun berjast gegn mannréttindabrotum þeim sem eiga sér stað þar rétt eins og annars staðar. Mikið vildi ég óska þess að margir þeirra sem hafa barist fyrir t.d. málstað Palestínumanna mundu sýna Tíbetum jafn mikinn stuðning. Mikið vildi ég óska þess að svo væri og að við mundum ekki enn og aftur í raun og veru „validera“ meðferðina á þeirri þjóð með því að gera þennan samning. Það hryggir mig. En það hryggir mig líka hve fáir þingmenn láta sig þetta mál varða. Hér erum við með nánast galtóman þingsal og við erum að gera samning sem mun hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir þessa þjóð. Ég vona meira en nokkuð annað að ég hafi rangt fyrir mér.