143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[15:22]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við fullgildingu á fríverslunarsamningi milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína. Þetta eru nú meira en lítil tíðindi, verður að segjast.

Við í Bjartri framtíð höfum frá stofnun lýst okkur sem alþjóðlega sinnuðum flokki og við teljum að alþjóðaviðskipti og alþjóðasamskipti séu Íslendingum lífsnauðsynleg. Því meiri og víðtækari samskipti, því meiri líkur eru á því að dvergþjóðin hérna dafni og þroskist. En þegar fréttir bárust af því að Ísland væri að gera fríverslunarsamning sérstaklega við Alþýðulýðveldið Kína þá staldraði ég aðeins við, eins og svo margir aðrir, vegna þess að við á Íslandi erum ekki vön þessu. Við erum ekki vön því að Ísland geri upp á eigin spýtur fríverslunarsamninga við önnur lönd, hvað þá stórveldi. Þeir fríverslunarsamningar sem Íslendingar hafa gert fram að þessu hafa verið með öðrum þjóðum á vettvangi EFTA eða við nágranna okkar sem eru enn þá minni en við sjálf, eins og Færeyinga. Þess vegna er skiljanlegt að við hérna, dvergarnir í norðri, skulum vera dálítið hrædd við hinn stóra heim. Hvernig getum við stigið fram á eigin spýtur?

Það læðist líka að manni þessi sjálfsagða spurning: Af hverju í ósköpunum er stórveldið Kína að sækjast eftir því að gera tvíhliða samning við okkur, við Ísland? Þá er auðvelt að detta í samsæriskenningar um að nú ætlist þeir eitthvað sérstakt fyrir, vegna þess að það er ekki sjálfsagt að stórveldi heimsins bíði í biðröðum til þess að tala sérstaklega við okkur Íslendinga. Við erum ekki vön því nema á ákveðnum sviðum eins og í sjávarútvegi eða á ákveðnum tímum eins og í kalda stríðinu þegar lega Íslands var sérstaklega mikilvæg í alþjóðlegu hernaðarlegu samhengi.

Þess vegna hef ég verið mjög ánægður með það hversu mikil vinna hefur verið lögð í það í utanríkismálanefnd að fara yfir samninginn, kalla eftir álitum og fá gesti, og það hefur mikil umræða farið fram í nefndinni um samninginn. Það er margt mikilvægt sem hefur komið fram í máli þingmanna hér á undan og ég vil taka undir það og þakka fyrir góða umræðu og mjög góða punkta, til að mynda í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um að það sé mikilvægt í þessari umræðu að við áttum okkur á því hvað er undir. Hvaða samningur er það sem við ræðum hér?

Þetta er fríverslunarsamningur um verslun á vörum og þjónustu. Það eru ákveðin málefni sem falla ekki undir þennan samning og er sérstaklega tekið fram að þau gera það ekki. Í honum er ekki falinn fjárfestingarsamningur, hann mun ekki að neinu leyti breyta stöðu Íslands og Kína gagnvart hvoru öðru hvað varðar tækifæri til fjárfestinga í hvoru landinu fyrir sig. Þessi samningur opnar ekki á flutning á vinnuafli umfram það sem nú þegar orðið er. Samningurinn fjallar sem sagt um flutning á vörum og þjónustu.

Þá set ég og margir aðrir ákveðinn fyrirvara, skiljanlega, við það hvað felst í auknum flutningi á vörum og þjónustu á milli Íslands og Kína. Opnar þetta á flutning á vöru sem er undir okkar „standard“, sem uppfyllir ekki okkar öryggisstaðla o.s.frv.? Opnar þetta fyrir vörur sem hafa verið framleiddar við slæmar aðstæður? Spurningin um það hvort opnað sé fyrir flutningi á vöru eða sölu á milli landa á vöru sem er t.d. hernaðarlega viðkvæm á ekki við um Ísland en á mjög oft við í milliríkjaviðskiptum. Íslendingar framleiða lítið af slíkri vöru, til allrar hamingju.

Svarið við þessu er að þegar Ísland, lítið ríki í norðri, á í viðskiptum við umheiminn erum það ekki við sem setjum skilyrðin fyrir því hvernig framleiðslu er háttað í öðrum löndum. Við setjum skilyrði um þá framleiðslu sem við tökum inn til okkar lands. Þessi samningur gerir að engu leyti breytingar á reglum um neytendavernd, reglum um umhverfisvernd o.s.frv. sem gilda um vörur sem fluttar eru til landsins. Mér fannst mikilvægt að átta mig á því að í raun og veru mun þessi samningur ekki opna fyrir innflutning á neinni vöru sem ekki er löglegt að flytja inn í dag, munurinn er fyrst og fremst falinn í því hvernig varan er meðhöndluð í tollalegu tilliti.

Einnig vil ég taka undir það sem kom fram í máli þingmanna hér á undan að vinnumarkaðsmál og mannréttindamál eru tvö mikil áhyggjuefni þegar kemur að Kína og viðskiptaveldinu Kína. Við vitum öll og það hefur verið rætt mikið um það í dag og það er vel, að Kína er ekki heimsmeistari í mannréttindum eða vinnumarkaðslöggjöf. Þar er því miður margt sem betur mætti fara, við vitum það öll. Það sem fólk er almennt að rífast um er kannski: Að hve miklu marki er ástandið að lagast eða er það ekki að lagast? Þess vegna set ég fyrirvara við nefndarálitið eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson. Sá fyrirvari lýtur að því að samkomulag um samstarf á sviði vinnumála verði formlega samþykkt. Ég vil taka undir það sem kom fram í áliti ASÍ á fríverslunarsamningnum að ákveðinn grundvöllur þess að við getum treyst okkur til þess að styðja fríverslunarsamning við Kína er samkomulag um að Kínverjar staðfesti að þeir standi við grunnhugsunina á bak við ILO, Alþjóðavinnumálastofnunina. Eins og kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hér fyrr hafa Kínverjar nú þegar samþykkt stóran hluta af grunnatriðum þar.

Drög að viljayfirlýsingu um samvinnu á sviði vinnumála hafa nú verið samþykkt af báðum löndum. Mér finnst mikilvægt að draga fram ákveðna punkta úr þeirri viljayfirlýsingu vegna þess að ég held að hún svari mörgum spurningum sem koma strax upp í hugann hjá manni.

Þar kemur fram í 1. gr., með leyfi forseta: „Samningsaðilar árétta skuldbindingar sínar vegna aðildar að Alþjóðavinnumálastofnuninni, þar með taldar skuldbindingar samkvæmt yfirlýsingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu og ályktunar um hvernig henni verður fylgt eftir.“

Nú vil ég að mörgu leyti taka undir áhyggjur hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um stöðu vinnumála og vinnumálaréttar í Kína og mannréttinda. Við vitum að þar eiga Kínverjar langt í land, því miður. En ég vil líka taka undir með öðrum og þar á meðal fulltrúa Amnesty International sem kom fyrir nefndina, um það grundvallarprinsipp að dropinn holi steininn og að samskipti, sérstaklega ef þau eru undir þeirri yfirskrift að báðir aðilar ætli sér að virða samkomulag og yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, séu líklegri til þess að leiða til úrbóta en einangrunarstefna.

Íslendingar hafa í sögunni frekar verið þeim megin í heiminum að við bíðum eftir því að heimurinn banki upp á hjá okkur og við höfum gjarnan haft áhrif á heimsmálin, kannski ekki ein og sér heldur með því að taka þátt í þrýstingi eða talað ákveðnu máli með t.d. Norðurlöndunum eða öðrum Evrópulöndum. Auðvitað eru undantekningar á þessu, til að mynda þegar Ísland samþykkti sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og Ísland virtist eitt og sér hafa tök á því að hafa stór áhrif á heimsmálin. En almennt er hlutverk okkar að vera eitt af þeim löndum sem standa fyrir ákveðnum málflutningi eða ákveðnum gildum.

Ég vil taka undir með öðrum þingmönnum hér á undan og því sem kemur fram í nefndarálitinu að það að staðfesta þennan fríverslunarsamning muni að minnsta kosti koma Íslandi nær borðinu, þarna er skýr vettvangur til samskipta við Kínverja sem ekki er til staðar í dag. Ég tel að það sé vel og ég treysti okkur Íslendingum og íslenskum stjórnvöldum ágætlega til að hafa bein í nefinu og láta í sér heyra.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að saga Íslands í þessu tilliti er ekki alltaf góð. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda í Falun Gong-málinu í upphafi aldarinnar voru alls ekki til fyrirmyndar. Það er mjög mikilvægt að við pössum okkur á því að láta ekki teyma okkur í slíka vegferð og ég trúi því að við Íslendingar og íslensk stjórnvöld höfum lært af því máli. Við eigum að hafa lært af því að standa í lappirnar og höfum oft gert það. Ég vil bara minna á það hversu sterk rödd Íslands hefur verið í málefnum Palestínu. Það er ágætisdæmi um að litla Ísland hafi þorað að láta jafnvel óvinsælar skoðanir í ljós og ekki látið hagsmuni aftra sér í að að berjast fyrir mannréttindum. Ég treysti okkur fyllilega til þess að halda því áfram eða sýna í það minnsta viðleitni til þess. Ég tel að umræðan um þennan fríverslunarsamning, umræðan á þingi í dag og væntanlega aukin samskipti í kjölfar samningsins muni auka líkurnar á því að Ísland muni koma fram á þroskaðan hátt í þessum málum.

Hér hefur verið minnst á fjárfestingar og sögu kínverskra fjárfestinga, t.d. í Afríku. Eins og ég minntist á er það skýrt í samningnum að hann mun ekki að neinu leyti breyta stöðu fjárfestinga Kínverja á Íslandi eða öfugt. Sú umræða er í raun og veru fyrir utan það sem felst í fríverslunarsamningnum. Ég vil samt minna okkur á það að við Íslendingar erum samskiptaþjóð, við erum útflutningsþjóð og við flytjum nú þegar vörur út til Kína og flytjum talsvert inn af vörum frá Kína, bæði í gegnum milliliði og beint. Kína er stórt framleiðsluland, sennilega stærsta framleiðsluland í heimi eins og er. Saga veraldarvæðingarinnar, heimsvæðingarinnar, hefur sýnt okkur að framleiðsla flyst til um jarðarkringluna eftir því sem flutningatækni fleygir fram og eftir því hvar auðveldast eða ódýrast er að framleiða vörur. Kína er vissulega risi í framleiðslu og Íslendingar þekkja það á þeim vörum sem við flytjum inn. Kína er líka í auknum mæli stór aðili í innflutningi frá öðrum löndum þó svo að kínverskur markaður sé afskaplega lítill hluti af íslenskum útflutningi. Það er samt aldrei að vita hvað gerist í þeim málum.

Ég vil nú ekki vera jafn bjartsýnn og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sem var í pontu hér á undan, að sjá fyrir mér að útflutningur til Kína á næstu árum eða á næstunni verði að stórum lykilþætti í íslenskum útflutningi eða íslenskum milliríkjaviðskiptum. Þrátt fyrir allt er megnið af okkar viðskiptum og okkar samskiptum við nágranna og frændþjóðir í Evrópu. Ég held að bæði vegna sögunnar, vegna menningar, landfræðilegrar stöðu o.s.frv., þurfi ansi margt að breytast hvort sem er hér á Íslandi, í Evrópu eða annars staðar í heiminum til að þar verði stór breyting á. Þess vegna hef ég og við í Bjartri framtíð einmitt lagt áherslu á það að við Íslendingar séum opin í alþjóðasamskiptum og þá ekki bara yfir norðurpólinn til Asíu heldur ekki síður til Evrópu og með aukinni samvinnu við Evrópusambandið. En þetta var útúrdúr.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki sjálfgefið að Ísland geri tvíhliða fríverslunarsamning við land á borð við Kína. Það er vissulega stórt skref í sögu tvíhliða fríverslunarsamningagerðar landans að fara frá Færeyjum og beint til Kína. Þess vegna finnst mér mikilvægt að lögð hafi verið mikil vinna í fríverslunarsamninginn. Það er skýrt að samningurinn sem fyrir liggur er að langflestu leyti byggður á þeim samningum sem Ísland hefur gert við önnur lönd, yfir 30 önnur lönd við síðustu talningu, á vegum EFTA, Fríverslunarsamtaka Evrópu. Þess utan eru ákveðnir fyrirvarar um hvað felst ekki í samningnum. Þá á ég sérstaklega við vinnumarkaðsmál og fjárfestingarmál.

Ég vil taka undir með þingmönnum hérna á undan — ég hef nú því miður ekki meiri tíma — um mannréttindi og stöðu mannréttindamála í Kína, því að þau eru mikið til umræðu og ekki að ástæðulausu. Kína er hraðþróunarríki, þar gengur á með ósköpum og landið og þjóðfélagið breytist hraðar en jafnvel við Íslendingar áttum okkur á. Mannréttindi hafa því miður ekki verið í heiðri höfð, alla vega ekki á sama hátt og við viljum upplifa þau og eins og við þekkjum mannréttindahugsunina á Íslandi. Þá vil ég minna á að hugsun okkar Íslendinga þegar kemur að mannréttindum er mjög evrópsk og þar höfum við gjarnan fylgt félögum okkar í Evrópu og þeim löndum sem taka þátt í starfi Evrópuráðsins.

Ég tel að fríverslunarsamningur sé ekki samningur um mannréttindi og hann mun ekki gera Íslendingum kleift að fara til Kína og kippa öllu í liðinn, en þessi samningur mun að minnsta kosti tryggja að við höfum beina leið til þess að ræða við Kínverja um mannréttindi og ég held að það sé mikilvægt.