143. löggjafarþing — 56. fundur,  27. jan. 2014.

rekstrarvandi hjúkrunarheimila.

[15:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langaði að ræða rekstrarvanda hjúkrunarheimila við hæstv. heilbrigðisráðherra en það liggur fyrir að mikill rekstrarvandi hrjáir mörg dvalarheimili á Vesturlandi og eru þau flest rekin með tapi. Rekstrartapið er mest hjá Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi en þar hefur verið um 200 millj. kr. halli á síðustu tveimur árum. Brákarhlíð í Borgarbyggð, Silfurtún í Dölum og Jaðar í Snæfellsbæ glíma einnig við mikinn taprekstur. Reksturinn er í jafnvægi hjá heimilum eins og Dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi, Fellaskjóli í Grundarfirði og Barmahlíð á Reykhólum en þar má þó ekkert út af bera svo að hlutirnir fari ekki mjög á verri veg.

Eins og hæstv. ráðherra veit þá er í Stykkishólmi mjög lélegur og úreltur húsakostur og íbúar búa flestir við mikil þrengsli og verða að deila salernum með öðrum. Ekki hefur fengist neitt fé á fjárlögum til úrbóta eins og fyrirætlanir voru um hjá fyrri stjórnvöldum. Dvalarheimilin hafa hagrætt eftir megni í rekstri sínum og sparað eins og hægt er og telja menn að þar sé komið alveg inn að beini. Nú er svo komið að forstöðumenn þessara heimila segja að ekki verði gengið lengra og daggjöldin þurfi að hækka um að lágmarki 15% ef ekki á illa að fara að þeirra mati.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann gera varðandi þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin á þessum dvalar- og hjúkrunarheimilum? Ég spyr líka hvort hann telji það ástand sem nú er geta staðið mikið lengur.